Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (28.10.2011) var fjallað um rjúpnaveiðar á þessu hausti og sagt að gert væri ráð fyrir að hver veiðimaður veiddi um sex rjúpur. Molaskrifari heldur því fram að ekki sé hægt að tala um um sex rjúpur. Sex rjúpur eru sex rjúpur. Ekkert um.
Lesandi sendi Molum þetta (28.10.2011) ,,Það virðast vera lítil takmörk fyrir því hvað unnt er að gera mörg mistök í stuttum texta, sbr. eftirfarandi textabrot:
http://visir.is/kveiktu-a-raudum-blysum-fyrir-utan-horpu/article/2011111029083
Í tilkynningu segir að Rautt Neyðarkall hafi fyrst sést á lofti í desember 2009 á Austurvelli meðan á atkvæðagreiðslu Icesave II stóð yfir. Í janúar 2010 var aftur tendrað á rauðum blysum fyrir utan Bessastaði en þá afhendi Indefen-hópurinn forsetanum undirskriftarlista. Þá segir einnig að í dag sé þriðji í Rauðu Neyðarkalli.
1. „meðan á atkvæðagreiðslu Icesave II stóð yfir“
2. „var aftur tendrað á rauðum blysum“
3. „þá afhendi“
4. „Indefen-hópurinn“
5. „undirskriftarlista“ – ein undirskrift?
Allt er þetta rétt og Molaskrifari þakkar fyrir sendinguna.
Annar lesandi, Guðmundur Guðmundsson frá Efri Brú sendi Molum eftirfarandi (28.10.2011): ,,Þarf tvær fyrirvinnur er haft eftir gagnmerkri konu á veffréttamiðli Mbl.
Og sennilega þarf hver fjölskylda að sækja tvær fræðslur til að auka við þekkingu sína.
Vinnur og fræðslur voru álitin eintölu kvenkynsnafnorð í ungdæmi mínu.
En þetta hlýtur að vera að festast í málinu fyrst yfirmenn stofnanna nota þess orð á þennan hátt. Eins og: Tölvan er ekki að virka
Síminn er að hlaða sig. Þetta er ekki að gera sig Molaskrifari þakkar Guðmundi sendinguna og bætir við að íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (28.10.2011) tók svo til orða að fótboltaforkólfar í Noregi hefðu verið settir í bönn. Ja hérna.
Hversvegna er það látið viðgangast að Ríkisútvarpið auglýsi að tiltekin fyrirtæki afnemi virðisaukaskatt eins og gert var á föstudagskvöld (28.10.2011) Það getur ekkert fyrirtæki afnumið virðisaukaskattinn. Ríkisútvarpið miðlar ósannindum í þessum auglýsingum. Þetta er enn eitt dæmið um eftirlitsleysi ráðamanna með yfirstjórn Ríkisútvarpsins.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/11/2011 at 11:35 (UTC 0)
Já, rétt þer það, Glúmur og fyrirmyndar.
Glúmur Gylfason skrifar:
03/11/2011 at 22:35 (UTC 0)
Skylt er að þakka það sem vel er.
Það er vel að einn þulur Sjónvarpsins, aðalíþróttafréttamaðurinn, gerir greinarmun á en og enn.
Sama gildir einn þul á Rás 1