Íslenskar auglýsingastofur eru ekki nægilega vandvirkar. Í helgarblaði Fréttablaðsins er opnuauglýsing frá Elkó vegna ársafmælis Elkóverslunarinnar á Granda. Þar stendur stórum stöfum: Elkó Granda 1. árs! Þetta þýðir ekki að verslunin sé eins árs heldur að hún sé fyrsta árs ! Í helgarblaði DV er í auglýsingu frá Hótel Hvolsvelli boðið upp á jólahlaðborð með viltu ívafi. Á að vera með villtu ívafi. Á baksíðu Sunnudagsmogga er auglýsing frá fasteignasölunni Húsin í borginni. Þar er talað um íbúðir tilbúnar til afhendinga. Á að vera tilbúnar til afhendingar. Þar er líka talað um ,,penthouse” íbúðir. Voru þetta ekki einu sinni kallaðar þakíbúðir?
Molavin sendi eftirfarandi (31.10.2011) ,,Cakewalk er borið fram vok ekki volk eins og fréttastúlka Stöðvar-2 gerði í frétt um rán í barnafataverslun. Fréttamaður sömu fréttastofu bar nýlega fram nafn Malcolms Walker, stofnanda Iceland keðjunnar sem Volker Skólablaðabragur á fréttum styrkir ekki álit á fréttastofunni. Það verður að gera lágmarkskröfur til fréttamanna um framburðarþekkingu. Búi þeir ekki yfir henni, þá er Google alltaf til staðar”. Svo er hér meira frá sama (31.10.2011): ,,…og virðist sem engum skorti lýsingarorð, sagði fréttakona Stöðvar-2. Þetta var endurtekið úr fréttum vikunnar í fréttayfirliti sunnudags. Meðan fjölmiðlar halda þágufallssýki að fólki er ekki við öðru að búast en ungir hlustendur ruglist í ríminu.” Kærar þakkir, Molavin.
Blaðamenn Morgunblaðsins skrifa gjarnan undir nafni rammpólitískar greinar í blaðið. Það er ágætt. Þá tekur maður mátulega mikið mark á fréttum sem þessi sömu blaðamenn skrif um umdeild póltísk álitamál.
Það er orðinn fastur liður í Tungutakspistli í Sunnudagsmogga að hnýtt sé í þá sem gera athugasemdir við málfar og óttast vaxandi áhrif ensku á íslenskt mál. Þá er bara að taka því og láta sem vind um eyru þjóta. Reiðareksmenn verða að fá að hafa sínar skoðanir í friði, en þeir þurfa ekki endilega að hnýta í okkur hina.
Biskup fraus á æskulýðsmóti er hallærislega villandi fyrirsögn á mbl.is (29.10.2011)
Lesandi sendi eftirfarandi (30.19,2011): ,,Það er svolítið skondið með þetta að skjóta og skera á háls. Oft heyrist í útvarpi að þessi eða hinn hafi verið skotinn og þá átt við að honum hafi verið banað. Svo er frétt í mbl.is í dag (kannski víðar) að maður hafi verið skorinn á háls. Ég legg þá meiningu í þetta að manninum hafi verið banað. Menn skera t.d. dýr ekki á háls öðruvísi en að ganga af þeim dauðum. Hinsvegar kom í ljós að maðurinn sem skorinn var er bráðlifandi – sem betur fer. Þannig að mér finnst fara betur á því að menn séu skotnir til bana, sé skotið banvænt, og mönnum veittur áverki á háls (eða eitthvað í þá áttina), lifi menn þá árás af, tala nú ekki um ef menn komast heim til sín eftir skamma stund. Satt að segja setur að mér óhug og hrylling við svona fyrirsögn: „Maður skorinn á háls“. Molaskrifari þakkar sendinguna og er sammála.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
04/11/2011 at 14:09 (UTC 0)
„Þannig að mér finnst fara betur á því að menn séu skotnir til bana, sé skotið banvænt, og mönnum veittur áverki á háls (eða eitthvað í þá áttina), lifi menn þá árás af, tala nú ekki um ef menn komast heim til sín eftir skamma stund.“
Samkvæmt hefð og að því er þykir viðeigandi og viðurkennt í voru máli, íslensku, eru menn ekki skotnir til bana. Hins vegar tíðkast þetta orðalag í ensku. Sé einhver skotinn á Íslandi er hann dauður (nema hann sé á leið út af opnum hjónabandsmarkaði). Verði einhver fyrir skoti og slasist verður hann fyrir skoti. Þetta er sambærilegt við að menn eru hengdir, ekki hengdir til bana. Og skornir á háls, ekki skornir á háls til bana.