Úr mbl.is (05.11.2011). Haft eftir lögreglunni: Við vorum að eltast við menn sem hafa verið í leyfisleysi á löndum hingað og þangað um embættið. Hingað um þangað um embættið! Það var og. Betra hefði verið: Víðsvegar, eða hingað og þangað í okkar umdæmi.
Meira úr mbl.is sama dag: Hafsögubátur frá Reyðarfirði mun verða þeim til aðstoðar. Samkvæmt aðalvarðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var ákvörðunin tekin þar sem að um styttri siglingaleið er að ræða og um minni áhættu að ræða. Ekki í fyrsta skipti að skrifað er um hafsögubát eða hafsögumann, í stað þess að hafa það sem rétt er: Hafnsögubátur, hafnsögumaður. Svo er ekki vandað mál að segja samkvæmt aðalvarðstjóra. Betra væri: Að sögn aðalvarðstjóra.. Loks er það dæmi um orðfæð eða orðfátækt að segja tvisvar í sömu setningunni um að ræða, um að ræða. Frétt Ríkissjónvarpsins af björgun Ölmu (06.11.2011) var í alla staði vel gerð og vel unnin. Hrós fyrir það.
Flutningaskipið Alma togað inn á Fáskrúðsfjörð, sagði í fyrirsögn á dv.is (05.11.2011). Eðlilegra hefði að segja að skipið hefði verið dregið inn á Fáskrúðsfjörð. Mbl.is hafði þetta rétt. Skip sem er í togi er ekki togað heldur dregið. Málið er ekki alltaf rökrétt því togari sem dregur botnvörpu er sagður vera að toga. Orðið togari er rökrétt. Á ensku er talað um trawler, togskip sem dregur botnvörpu ,troll ,trawl. Og orðið troll er löngu fast í málinu. Líka er talað um vörpu, eins og varðskip hafi klippt vörpuna aftan úr breskum togara, eins og var á tímum þorskastríða. Áður var talað um botnvörpunga, en það var óþjált orð sem vék fyrir hinu einfalda og gegnsæja orði togari. Þegar Molaskrifari var að byrja í blaðamennsku 1962 var til virðulegt félag sem hét Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda (stofnað 1916) . Svo hefur ýmist verið talað um trollbáta eða togbáta. Amma mín sem fædd var 1878 á Rafnkelsstöðum í Garði kallaði togara alltaf trollara. Þá var algengt að breskir og þýskir togarar leituðu vars undan Réttarholti í Garðinum þar var skjól í hörðum sunnan og suðaustanáttum. Annað veiðarfæri er dragnót, sem áður var kallað snurvoð, beint úr dönsku, snurrevad. Í Garðinum höfðu menn litlar mætur á því veiðarfæri því þegar snurvoðarbátarnir komu upp undir landsteina hvarf allur fiskur eins og dögg fyrir sólu og trillukarlar gátu hætt að róa. Þessir bátar voru reyndar aldrei kallaðir annað en snurvoðarpungar.
Talað er um kýrverð, en í fréttum Ríkissjónvarpsins (06.11.2011) var talað um verð á kýr, hefði átt að vera verð á kú.
Úr mbl.is (06.11.2011) og enn um björgun skips við suðurausturland: Flutningaskipið Alma lagðist að höfn í Fáskrúðsfirði klukkan 3:26 í nótt. Alma var dregin af togaranum Hoffelli og gekk aðgerðin eins og best verður á kosið, að sögn Landhelgisgæslunnar. Molaskrifari nefnir tvennt sem kannski er sérviska. Hann er ekki sáttur við að sagt sé að skip leggist að höfn. Skip koma í höfn og leggjast svo að bryggju. Skip liggja við bryggju ekki við höfn. Togarinn Hoffell dró Ölmu til Fáskrúðsfjarðar er betra mál, en, – Alma var dregin af togaranum til Fáskrúðsfjarðar.. Enn ein óþarfa þolmyndarnotkunin. Eðlilegt hefði verið að halda sömu tíð og segja í lokin: .. gekk aðgerðin eins og best varð á kosið.
Blessunarlega hefur dregið úr Hér —– á RÚV plágunni í Ríkissjónvarpinu. Guði sé lof. Það var óskiljanlegt hvers vegna var ekki hægt að nota eðlilegar tilgerðarlausar áherslur eins og þegar á Stöð tvö er sagt: Hér á Stöð tvö.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Björn skrifar:
09/11/2011 at 12:11 (UTC 0)
Dæmi um slysalegar fyrirsagnir í dag:
dv: Lenti í slysi og vaknaði samkynhneigður
mbl: Leituðu að slysi í nótt