Dagskrá Ríkissjónvarpsins var góð á sunnudagskvöldið var (06.11.20112). Landinn með besta efni þar á bæ og svo fylgdi stórgóður þáttur um snillinginn Ingimar Eydal. Andrés Indriðason og aðrir þeir sem settu þáttinn saman gerðu það af stakri smekkvísi. Sjónvarpið á svo mikið af gömlu góðu efni í fórum sínum að þar er hráefni í marga öndvegisþætti. Það rifjaðist upp fyrir Molaskrifara við að horfa á þáttinn um Ingimar Eydal að líklega heyrði ég þá bræður hann og Finn fyrst spila í gamla Alþýðuhúsinu á Akureyri (1957 eða 1958 ?) löngu fyrir daga Sjallans. Molaskrifari var um þær mundir forfallinn aðdáandi Benny Goodmans (og er enn) og gat hlustað endalaust á tríó hans og kvartett. Þessvegna naut hann þess að hlusta hugfanginn á Finn Eydal taka hvern sílgilda gimsteininn á fætur öðrum og gera frábær skil. Þessar minningar vöknuðu við að horfa á þátinn. Hef æ síðan talið Finn besta jassklarinettuleikara okkar. Þeir bræður kvöddu of fljótt. Fínn þáttur.
Fréttatími Stöðvar tvö (09.11.2011) var með óvenjugóður. Nýjar fréttir og áhugaverðar. Hrós fyrir það. Íþróttafréttirnar lét Molaskrifari hinsvegar lönd og leið. Fréttatími Ríkissjónvarpsins var líka óvenju ferskur og þeir fjölluðu um skemmdarverkið í Skálholti sem nú er búið að setja tæplega 30 milljónir króna í eins og sagt var í fréttinni. Árni Johnsen sem stýrir verkinu hefur fræga reynslu af því að stjórna framkvæmdum á vegum ríkisins, – eins og hann gerði við Þjóðleikhúsið sællar minningar, – ekki satt?
Molaskrifari er ekki áhugamaður um keppni í dansi, en virðir það að margir hafa gaman af þessu sjónvarpsefni og sem betur fer er smekkur ólíkur og um hann verður ekki deilt. En ótrúlegt fjármagn er lagt í laugardagsþáttinn Dans, dans, dans. Gaman væri að vita hve margar milljónir hver einstakur þáttur kostar.
Egill sendi eftirfarandi: ,,Andri Freyr sagði á Rás 2 í morgun (07.11.2011): Okkur langar öllum að gera það!Þágufallssýkin reynist langlíf á Ríkisútvarpinu.” Já, sýkin er í sókn og málfarsráðunautur á undanhaldi. Þetta er líka frá Agli: „Það eru komnar jólamyndir á NÝMJÓLKSFERNURNAR,“ sagði Matthías á Rás 2 nú áðan. Hann heldur e.t.v. að það eigi að vera: „Mjólk, mjólk, mjólki, mjólks“? Nei, auðvitað er eignarfallið: „Mjólkur“.” Egill lætur ekki hér við sitja heldur bætir við:,, Hefur hæglega gengið að búa til ný störf, var sagt í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, þegar átt var við að lítið eða hægt hafi gengið að skapa vinnu fyrir verk- og tæknifræðinga. Það má hæglega misskilja fréttina”. .Molasskrifari þakkar Agli þessa fróðlegu mola.
…heimilisföðursins… sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins í kvöldfréttum (07.11.20011) Það verður að gera þær kröfur til þeirra sem segja okkur fréttir að þeir kunni skil á grundvallatriðum íslenskrar málfræði.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (07.11.2011) talaði fréttamaður um 25 jarda færi Hvar er nú málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins? Jardar e. yards eru ekki hluti mælikerfis eða metrakerfis okkar.
Stundum vanda fréttamenn sig um of. Þannig var um fréttamann Ríkisútvarpsins sem í sexfréttum (08.11.2011) talaði um fernar greiðslur. Rétt hefði verið að tala um fjórar greiðslur.
Í fréttum Stöðvar tvö (08.11.2011) var sagt frá íslenskri konu sem sæmd hefði verið japanskri orðu að verðleikum fyrir að efla menningarleg samskipti Íslendinga og Japana. Fréttamaður sagði að orðuveitingin hefði vakið mikla athygli. Ekki var sagt hvar þessi mikla athygli hefði komið í ljós. Molaskrifari hafði til dæmis hvergi séð frétt um þessa orðuveitingu áður. Í besta falli var þetta barnaleg fréttamennska, – eða svolítið bjálfaleg.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
10/11/2011 at 08:38 (UTC 0)
Góðan daginn!, ,,Týndur fannst, en fundinn hvarf….“ stendur einhversstaðar.
Málfarsráðunautur skrifar:
09/11/2011 at 23:03 (UTC 0)
Hér er ég! Hér er ég! Góðan daginn, daginn, daginn.