Það var að verðleikum að rithöfundurinn Kristín Marja Baldursdóttir skyldi hljóta verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Molaskrifari hefur lesið allar skáldsögur hennar. Hún skrifar hrífandi texta. Til hamingju!
Ég lýsi allri ábyrgð á þessum tilvonandi lögum á herðar ríkisstjórnarinnar, sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi Íslendinga á degi íslenskrar tungu. Talað er um að vísa ábyrgð á hendur einhverjum ekki á herðar einhvers !
Þegar fréttaþulur Stöðvar tvö skipar Molaskrifara að fara ekki langt því nú sé komið að sportinu stendur Molaskrifari ævinlega upp og færir sig að lyklaborði tölvunnar eða fær sér kaffisopa. Ekki bætir það úr skák þegar fréttaþulurinn segir svo við íþróttafréttamann: Hvert ætlar þú að taka okkur í sportinu núna? Þetta kann Molaskrifari ekki að meta.
Skipulag endursýninga er í ólestri í Ríkissjónvarpinu. Í fyrsta lagi ætti jafnan að geta þess við frumsýningu efnis hvort það verður endursýnt og þá hvenær. Efni á að endursýna á morgnana eða á daginn, Ekki að næturlagi. Þetta krefst nokkurrar vinnu og skipulags sem ráðamenn í Efstaleiti virðast illa ráða við.
Heldur finnst Molaskrifara sjónvarps auglýsingin frá tryggingafélaginu Verði lítið geðfelld þar sem ungbarn og hvolpur virðast lögð að jöfnu.
Er að sýkin hrjáir Fésbókarstjóra sem segja: Eiður, fleiri vinir eru að bíða. Fuss og svei.
Athugull lesandi sendi Molum eftirfarandi (14.11.201): ,,Það er mikill munur á því að reyna að þagga niður í einhverjum eða að segja einhverjum að halda kjafti, sjá: http://www.visir.is/domarinn-thurfti-itrekad-ad-bidja-breivik-ad-halda-kjafti/article/2011111119487
Mér líkar ekki orðalagið sem notað er á visir.is” Molaskrifari er þessum ágæta lesanda hjartanlega sammála.
Egill sendi eftirfarandi (14.11.2011): ,,Áðan var sagt í fréttum Ríkisútvarps að þjófar hafi farið inn um svalahurðir í innbrotum sínum. Það væri fróðlegt að sjá, því ég hefði haldið að þeir færu inn um svaladyrnar, sem að öllu jöfnu er lokað með hurðinni. Ekki rétt?” Molaskrifari getur ekki annað en tekið undir með Agli. Fólk fer ekki inn um hurðir. Fólk fer inn um dyr.
Í áttafréttum Ríkisútvarpsins (15.11.2011) spurði fréttamaður skipstjóra á loðnumiðunum hvernig veiðarnar hefðu verið að ganga ? Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins á ærin verk fyrir höndum.
Úr mbl.is (15.11.2011): Um sé að ræða stærstu opnun frá upphafi í 60 ára sögu Lindex tískuvörukeðjunnar. Hvað er stór opnun ?
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/11/2011 at 20:20 (UTC 0)
Það má ef til vill segja það. Þá er nánast enginn maður að horfa.
Axel skrifar:
17/11/2011 at 16:32 (UTC 0)
Af hverju má ekki endursýna efni á nóttunni? Er það ekki einmitt tilvalinn tími til að endursýna?