Í fréttum Stöðvar tvö (15.11.2011) var tvísagt: .. á aðfaranótt föstudags. Í báðum tilvikum hefði verið betra að sleppa forsetningunni og segja aðeins: … aðfaranótt föstudags. Í fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld var talað um að kaupa upplagið upp. Nægt hefði að segja: … að kaupa upplagið.
Gaman var að sjá barnaskara fylla Eldborgarsalinn í Hörpu og hlýða á Sinfóníuhljómsveit Íslands í fréttum Stöðvar tvö (15.11.2011). Þessi atburður fór hinsvegar framhjá Ríkissjónvarpinu.
Egill sendi þetta (17.11.2011): „Samkvæmt pressan.is eru allir mennirnir sem dæmdir voru ekki lengur hluti af áhöfninni.“ Það var og. Eru allir ekki lengur skrifandi á móðurmálinu, þarna á DV?
Í fréttum Ríkissjónvarps (16.11.2011) var talað bæði um trilljónir og billjónir.
Þetta var svolítið ruglingslegt. Á íslensku er talað um milljarð = eitt þúsund milljónir. Í velfelstum enskumælandi löndum er ein trilljón, milljón milljónir eða 10 í tólfta veldi. Á meginlandi Evrópu er ein trilljón hinsvegar milljón, milljón milljónir eða 10 í átjánda veldi. Í flestum enskumælandi löndum er ein billjón þúsund milljónir eða 10 í níundaveldi, á meginlandi Evrópu er ein billjón milljón milljónir eða 10 í tólfta veldi , sama og ein trilljón í enskumælandi löndum. Skýrt? Nokkurn veginn !
Englendingar drekka mikið te, þótt þeir reyndar eyðileggi þann göfuga drykk með mjólkursulli og sykurmokstri. Það er eðlileg myndlíking á ensku að segja: That is not his cup of tea, – það er ekki að hans smekk , það er ekki hans sterka hlið. Þetta er hinsvegar ekki eðlilegt orðtak á íslensku. Í Sunnudagsmogga (13.11.2011) var skrifað í texta með mynd: … enda þótt kappræður séu ekki beinlínis hans tebolli. Þetta er bara bull. Þarna hefði til dæmis mátt segja: …. enda þótt hann sé ekki sterkur á svellinu í kappræðum, enda þótt kappræður séu ekki hans sterka hlið. Í smáfrétt við hlið myndarinnar segir: …. hrasaði stundum á svellinu. Molaskrifari minnist þess ekki að hafa áður heyrt svona til orða tekið. Hann hefur talað um að verða hált á svellinu, skrika fótur á svellinu, en ekki hrasa á svellinu.
Í fréttum Ríkissjónvarps (17.11.2011) var þannig tekið til orða: … allra krafna sem lýstar voru í þrotabúið. Kröfur voru ekki lýstar, heldur var kröfum lýst. Þetta var svo endurtekið í tíufréttum sama kvöldið.
Í fréttum Stöðvar tvö (17.11.201) var var sagt: … og sagðist blöskra sú aðferð. Betra hefði verið: ..og sagði að sér blöskraði sú aðferð. Í sama fréttatíma var talað um að taka lán fyrir allt að einum milljarði króna. Betra hefði verið að segja að taka allt að einum milljarði króna að láni.
Úr frétt á visir.is (17.11.2011): Svo mikil eftirspurn er eftir íslensku lýsi að lýsisverksmiðjan skortir þorskalifur til að geta framleitt vöruna. Lýsisverksmiðjan skortir ekki þorskalifur eða þorsklifur. Lýsisverksmiðjuna skortir þorsklifur.
Skildu eftir svar