«

»

Molar um málfar og miðla 768

Í fréttum Stöðvar tvö (15.11.2011) var tvísagt: .. á aðfaranótt föstudags. Í báðum tilvikum hefði verið betra að sleppa forsetningunni og segja aðeins: … aðfaranótt föstudags. Í fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld var talað um að kaupa upplagið upp. Nægt hefði að segja: … að kaupa upplagið.

Gaman var að sjá barnaskara fylla Eldborgarsalinn í Hörpu og hlýða á Sinfóníuhljómsveit Íslands í fréttum Stöðvar tvö (15.11.2011). Þessi atburður fór hinsvegar framhjá Ríkissjónvarpinu.

Egill sendi þetta (17.11.2011): „Samkvæmt pressan.is eru allir mennirnir sem dæmdir voru ekki lengur hluti af áhöfninni.“ Það var og. Eru allir ekki lengur skrifandi á móðurmálinu, þarna á DV?

Í fréttum Ríkissjónvarps (16.11.2011) var talað bæði um trilljónir og billjónir.
Þetta var svolítið ruglingslegt. Á íslensku er talað um milljarð = eitt þúsund milljónir. Í velfelstum enskumælandi löndum er ein trilljón, milljón milljónir eða 10 í tólfta veldi. Á meginlandi Evrópu er ein trilljón hinsvegar milljón, milljón milljónir eða 10 í átjánda veldi. Í flestum enskumælandi löndum er ein billjón þúsund milljónir eða 10 í níundaveldi, á meginlandi Evrópu er ein billjón milljón milljónir eða 10 í tólfta veldi , sama og ein trilljón í enskumælandi löndum. Skýrt? Nokkurn veginn !

Englendingar drekka mikið te, þótt þeir reyndar eyðileggi þann göfuga drykk með mjólkursulli og sykurmokstri. Það er eðlileg myndlíking á ensku að segja: That is not his cup of tea, – það er ekki að hans smekk , það er ekki hans sterka hlið. Þetta er hinsvegar ekki eðlilegt orðtak á íslensku. Í Sunnudagsmogga (13.11.2011) var skrifað í texta með mynd: … enda þótt kappræður séu ekki beinlínis hans tebolli. Þetta er bara bull. Þarna hefði til dæmis mátt segja: …. enda þótt hann sé ekki sterkur á svellinu í kappræðum, enda þótt kappræður séu ekki hans sterka hlið. Í smáfrétt við hlið myndarinnar segir: …. hrasaði stundum á svellinu. Molaskrifari minnist þess ekki að hafa áður heyrt svona til orða tekið. Hann hefur talað um að verða hált á svellinu, skrika fótur á svellinu, en ekki hrasa á svellinu.
Í fréttum Ríkissjónvarps (17.11.2011) var þannig tekið til orða: … allra krafna sem lýstar voru í þrotabúið. Kröfur voru ekki lýstar, heldur var kröfum lýst. Þetta var svo endurtekið í tíufréttum sama kvöldið.
Í fréttum Stöðvar tvö (17.11.201) var var sagt: … og sagðist blöskra sú aðferð. Betra hefði verið: ..og sagði að sér blöskraði sú aðferð. Í sama fréttatíma var talað um að taka lán fyrir allt að einum milljarði króna. Betra hefði verið að segja að taka allt að einum milljarði króna að láni.
Úr frétt á visir.is (17.11.2011): Svo mikil eftirspurn er eftir íslensku lýsi að lýsisverksmiðjan skortir þorskalifur til að geta framleitt vöruna. Lýsisverksmiðjan skortir ekki þorskalifur eða þorsklifur. Lýsisverksmiðjuna skortir þorsklifur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>