Í fyrirsögn í Fréttatímanum (18.11.2011) er talað um listarstol, – á að vera lystarstol. Það fer lítið fyrir prófarkalestri á þeim bæ þar sem svona villa kemst inn í fimm dálka fyrirsögn.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (19.11.2011) var talað um víðtækt lið lögreglu- og sérsveitarmanna … Betur hefði farið á því að tala um fjölmennt lið lögreglu- og sérsveitarmanna. Í sömu frétt var sagt: Á tímabili í nótt var öll tiltæk lögregla í vinnu að málinu. Þetta er nú eiginlega hálf kjánalegt orðalag: …öll tiltæk lögregla.. Betra hefði verið: … allt tiltækt lið lögreglunnar.
Molavin sendi þetta (18.11.2011): ..hann gaf upp nafn bróðir síns,
stofnaði lífi annarra vegfaranda í hættu
á ófyrirleitin hátt,
lögreglan stöðvaði för hans og falsaði nafn hans á lögregluskýrslu,
er hann dæmdur fyrir að stela handtösku úr Baðhúsi Lindu sem og nokkur apótek
Hvernig er hægt að koma svo klúðurslegum texta frá sér? Það er ljóst að ritstjórn DV (sem er skráð ábyrg fyrir þessari frétt í upphafi hennar) hefur ekki litið á textann fyrir birtingu, og hæpið að blaðamaður hafi sjálfur lesið frétt sína yfir áður en hún var sett á netsíðu DV. – Kærar þakkir, Molavin.
Það var svolítið einkennilegt að fylgjast með því hvernig fréttastofan í Efstaleiti fór í vörn í nær öllum fréttatímum fyrir umfjöllun Kastljóssins um forstöðumanna bankaeftirlitsins og drottningarviðtalið við Sigurð G. Guðjónsson hæstaréttarlögmann á fimmtudagskvöldið í sl. viku..
Grein Halls Hallssonar blaðamanns og rithöfundar í Morgunblaðinu (19.11.2011) Stöðvum utanstefnur og lokum Evrusjoppunni er líklega ágætt dæmi um íslenska umræðuhefð, einkum þann stíl sem Evrópuandstæðingar hafa tileinkað sér í umræðunum um aðildarumsókn okkar að ESB. Í greininni er fólk uppnefnt út og suður og höfundur vill loka fyrir samskipti okkar við önnur lönd. Látum það nú vera. Menn eru auðvitað frjálsir að skoðunum sínum hversu arfavitlausar sem þær eru. En er ekki hægt að ræða málin án þess að uppnefna fólk? Svo virðist ekki vera.
Stundum er Ríkissjónvarpið eins og mjaltavél. Efni er tutlað í það óendanlega. Það er gert með Evróvisjónefnið , sem er sýnt í margskonar útgáfum vikum saman. Sama er verið að gera með þáttinn Dans, dans, dans. Þar er tutlað og tutlað. Það er alveg nóg að sýna þann þátt á laugardögum. Það er algjörlega ástæðulaust að troða efni úr þessum þætti inn í dagskrána oft í viku. Hann er ekki svo merkilegur, þótt ekki sé verið að amast við honum á laugardagskvöldum, – en hlífið okkur aðra daga vikunnar.
Í fréttum Stöðvar tvö (18.11.2011) var sagt um verðandi brúðhjón: Þeim hefur lengi dreymt um að gifta sig. Halló, Stöð tvö ! Þau hefur lengi dreymt um að gifta sig.
Skildu eftir svar