Það er oft gaman að Morgunblaðinu. Í pistli í blaðinu (21.11.2011) segir einn af blaðamönnum þess um 55% endurkjör Bjarna Benediktssonar: Það er gríðarleg traustsyfirlýsing eftir þá miklu eldskírn sem hann fengið á fyrstu tveimur árum formannsferilsins …. Í leiðara Fréttablaðsins segir hinsvegar fyrrverandi aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins: Sigurinn var þó ekki yfirburðasigur og vafamál hvort hægt sé að segja að formaðurinn hafi styrkt stöðu sína ; svo stór hluti landsfundarfulltrúa var reiðubúinn að velja annan til forystu. Sínum augum lítur hver á silfrið. En það er auðvitað gríðarlegt vanmat á þeim sem enn lesa Morgunblaðið að reyna að segja þeim að 55% stuðningur sé gríðarleg traustsyfirlýsing ! Halda þeir Hádegismóamenn að við séum bara bjánar? Molaskrifari kaupir reyndar Moggann aðallega til að fylgjast með því hverjir deyja og DV til að fylgjast með hverjir eiga stórafmæli.
Lesendur Fox News þykja nærfataauglýsingarnar óhugnanlegar segir í fyrirsögn á visir.is (19.11.2011). Sá sem samdi þessa fyrirsögn ætti að kynna sér íslenska málfræði fyrir byrjendur. Litlar kröfur gerðar á visir.is , – eins og raunar víðar og prófarkalesarar horfin stétt..
Í tilkynningum eða auglýsingum Ríkisútvarpsins (19.11.2011) var talað um sunnudagsskóla dómkirkjunnar. Föst málvenja er í þessu sambandi að tala um sunnudagaskóla, ekki sunnudagsskóla. Þá var tvílesin auglýsing frá útvegsmönnum þar sem sagt var: Gangi frumvarp stjórnvalda um skipulag fiskveiða… Þarna vantaði orðið eftir. Gangi frumvarpið eftir, – verði að lögum eða veruleika. Þetta tvílas þulur án athugasemda.
Í frétt og fyrirsögn á mbl.is (20.11.2011) segir: Flugvél frá norræna flugfélaginu SAS, sem hélt frá Þrándheimi í Noregi í morgun áleiðis til Tenerife, lenti á fugli skömmu eftir flugtak. Vonandi er að lendingin hafi tekist vel. Vélin flaug á fugl og lenti svo á Gardermoenflugvelli eftir að hafa flogið í hálfan annan tíma til að eyða eldsneyti og létta vélina..
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (19.11.2011) var fjallað um m,ál sem lögreglan er að sannsaka og sagt að málið væri í höndum sérfræðinga lögreglunnar sem varast allra frétta. Hér hefði átt að segja: … sem verjast allra frétta. Vilja ekkert um málið segja. Fréttamenn og fréttaþulir ættu hinsvegar að varast ambögur. Í sama fréttatíma var sagt: Nokkrir íslenskra fiskframleiðenda hafi…. Betra hefði verið: Nokkrir íslenskir fiskframleiðendur hafi …. eða nokkrir úr hópi íslenskra fiskframleiðenda …
Í átta- og níufréttum Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgni (20.11.2011) var sagt að kjörstaðir á Spáni hefðu opnað klukkan átta. Sumum fréttamönnum gengur illa að hafa þetta rétt. Kjörstaðir opna ekki. Kjörstaðir eru opnaðir. Í fréttatímanum klukkan tíu var búið að leiðrétta þetta. Í að minnsta kosti tveimur fréttatímum þennan sama morgun var sagt: Alþjóðafjármálastofnanir hafa litla trú á því að þeir vinni sig út úr vandanum að minnsta kosti án mikillar aðstoðar að utan. Molaskrifara finnst hugsunin í þessari setningu ekki rökrétt. Hér hefði heldur átt að segja: … nema með mikilli aðstoð að utan.
Enn meira úr morgunfréttum Ríkisútvarpsins þennan sunnudagsmorgun. Þegar fjallað var um landsfund Sjálfstæðisflokksins var sagt að mikil eftirvænting ríkti fyrir formannskjörinu… Betra hefði verið að segja að mikil eftirvænting ríkti á fundinum vegna formannskjörsins.
Á sunnudagsmorgni (20.11.2011) sá Molaskrifari brot úr endursýningu þáttarins Dans,dans,dans, sem Ríkissjónvarpið hampar mjög um þessar mundir. Þar var talað um að drulla yfir, – einstaklega smekklegt orðalag í sjónvarpi ríkisins. Einnig var talað um flott lúkk og meiköpp. Ef þið viljið sjá Rebel áfram í úrslitin sagði umsjónarmaður. Ekki vantar málstefnu hjá Ríkisútvarpinu. Það fara bara svo fáir í Efstaleiti eftir því sem þar er sagt. Og stjórnendur láta sér standa á sama. Þessir þættir eru annars heldur hallærisleg eftiröpun á amerískum þáttum um svipað efni.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Jón Sveinsson skrifar:
22/11/2011 at 10:10 (UTC 0)
Mogginn 22.11.11.
Fyrirsögn fréttar í dag. “ Héldu að dóttir sín væri á lífi“
Eitthvað er nú bogið við þetta. Kv. Jón Sveinsson