«

»

Molar um málfar og miðla 773

Bent var á í morgunútvarpi Rásar tvö (21.11.2011) að gagnrýna mætti ýmislegt fleira en leiksýningar og myndlistarsýningar. Til dæmis mætti gagnrýna byggingar og bílastæði. Þetta er alveg rétt. Molaskrifari gagnrýndi fyrir nokkru á fésbókinni bílastæðakjallarana undir Turninum svokallaða við Höfðatorg í Reykjavík, byggingu sem sumir kalla reyndar ,,turnskrímslið”. Það er ekkert rangnefni. Bílastæðakjallararnir þar eru áreiðanlega verst merktu og verst skipulögðu bílageymslur og bílastæði norðan Alpafjalla. Molaskrifari mælir enn og aftur með því að þeir sem eiga erindi í þetta hús leggi í grenndinni og gangi að húsinu. Hafi ella með sér GPS tæki og aki afar varlega þar í neðra.

Það er dónaskapur að kalla menn upp í Efstaleiti til að ræða um Ísland og Evrópusambandið í fáeinar mínútur eins og umsjónarmenn Rásar tvö gerðu við þá Styrmi Gunnarsson og Andrés Pétursson (22.11.2011). Umræðan var svo stutt að hún varð ekki neitt. Ekki bætti úr skák þegar umsjónarmaður hóf viðtalið með því að vitna í það sem hann hélt að væru ummæli Styrmis, en leiðrétti og hélt þá vera ummæli blaðamanns BBC. Styrmir varð svo að leiðrétta hinn illa lesna útvarpsmann. Í umræddri grein var Styrmir að vitna í ummæli Angel Merkel. Menn eiga að hugsa um tvisvar áður en þeir láta skammta sér örfáar mínútur við hljóðnemann á Rás tvö til að ræða flókin mál.

Fólkið hafði komið hingað í gegnum Noreg, las fréttaþulur óhikað í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (21.11.2011). Betra hefði verið að segja að fólkið hefði komið hingað til lands frá Noregi. Ekki heyrði Molaskrifari betur en fréttaþulur segði í sexfréttum (20.11.2011): …. það fólk sem átti bókað flug m,eð Iceland Express til New York verður komið á leiðendarenda með öðrum hætti. Hér hefði átt að segja: Því fólki sem …. verður komið á leiðarenda með öðrum hætti.

Í Fréttablaðinu (212.11.2011) segir um mann sem fannst látinn í Osló: Ekki hefur verið borin kennsl á manninn. Molaskrifari hefði haldið að hér hefði átt að segja: Ekki hafa verið borin kennsl á manninn. Orðið kennsl er ekki til í eintölu.

Molavin vakti athygli á þessari frétt (21.11.2011) og spyr hvort um klósettsetur hafi verið að ræða: http://mbl.is/frettir/innlent/2011/11/21/fengu_greitt_fyrir_setur_i_rikisfjarmalanefnd/ Menn verða að lesa fréttina til að fá svar við þeirri spurningu.

Ótrúlegt var að hlusta á kynningarfulltrúa farmiðasalans Iceland Express segja án þess að depla auga í fréttum Ríkissjónvarpsins (21.11.2011) að Astraeus flugfélag vinnuveitanda hans Pálma Haraldssonar hafi farið á hausinn og Iceland Express gert saming við tékkneskt flugfélag og þetta væru algjörlega ótengd mál. Fréttamaður spurði einskis. Það er hægt að borga mönnum fyrir að bulla, en svona augljósum rangfærslum trúir ekki nokkur sæmilega viti borinn maður. Þetta var með ólíkindum. Fréttamenn eiga að hugsa sig um tvisvar án þeir trúa svona talsmönnum fyrirtækja.

Í fréttum Ríkissjónvarps (21.11.2011) var sagt að prentvélarnar í Odda hefðu verið á fullu gasi í morgun að prenta nýja bók Yrsu Sigurðardóttur. Það er ekki boðlegt orðalag að tala um að prentvélar hafi verið á fullu gasi.

Úr frétt á mbl.is (22.11.2011): Ekki tókst að draga hann á flot en ný tilraun til þess verður gerð um hádegisbil í dag, en búist er við háflóði um 12 leytið. Búist við háflóði, segir Moggi. Má ekki lengur treysta töflunum um flóð og fjöru ? Hér hefði farið betur á að segja: … en háflóð verður um tólf leytið. Í fréttinni er líka talað um aðstæður á vettvangi. Vettvangur er vinsælt orð hjá mörgum fréttaskrifurum. Hér hefði eins má segja: Aðstæður á strandstað …

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>