«

»

Molar um málfar og miðla 774

Í fyrirsögn á mbl.is (22.11.2011) segir: Ekið á reiðhjólamann. Í fréttinni er talað um hjólandi vegfaranda. Hvað varð um hið góða orð hjólreiðamaður? Týnt og gleymt? Vonandi ekki. dv.is talaði réttilega um hjólreiðamann.
Molavin hnaut einnig um þetta og segir: ,,Innlent | mbl | 22.11.2011 | 11:04
Ekið á reiðhjólamann
Svo hljóðar fyrirsögn á Netmogga. Venjulega er talað um hjólreiðafólk og hjólreiðar í þessu sambandi og líklega væri reiðhjólamaður einhver, sem starfar við reiðhjól. T.d.viðgerðir eða sölu. Þarna er dæmi um fljótfærni eða grunnhyggni. Það er í góðu lagi að blaðamenn hugleiði texta sinn áður en hann er sendur á Netið eða í blaðið.”

Athyglisverð frétt á Stöð tvö (22.11.2011) um valið á spjaldtölvu sem jólagjöf ársins í ár. Sagt frá nánum tengslum dómnefndarmanns sem valdi spjaldtölvuna og forstjóra iPad-umboðsins á Íslandi. Lítið land Ísland.

Enn rugla skrifarar saman orðunum beður og beð. Þetta er af pressan.is (23.11.2011): Ævar Kjartansson útvarpsmaður tók viðtal við Jónas á banabeðinu rétt áður en hann lést ,.. Þetta hefði átt að vera: ,… á banabeðinum eða dánarbeðinum..

Ýmislegt var athugavert í fimmfréttum Ríkisútvarpsins á þriðjudag (22.11.2011) Þar sagði fréttamaður: Ráðherra hefur farið þess á leið við nefndina … Ráðherra fór þess á leit við nefndina. Einnig var sagt: …lögum sem kveða á um bann við kaup útlendinga á fasteignum hér á landi. Hefði átt að vera: …. bann við kaupum útlendinga á fasteignum hér á landi. Allt er þegar þrennt er í þessum stutta fréttatíma. Þar var einnig sagt: … var samið um að Glitnir fengi fimm ár til að greiða upp hundrað sjötíu og þrjá milljarða króna skuld. Hér hefði auðvitað átt að tala um hundrað sjötíu og þriggja milljarða króna skuld. Ótrúlega slök vinnubrögð hjá fréttastofu ríkisins.

Tryggvi sendi eftirfarandi (23.11.2011): ,,Dr. Baldur Þórhallsson háskólaprófessor lét þessi orð falla um andrúmsloftið á landsfundi í Silfri Egils sl. sunnudag:. Þeim dreymir um 2007″. Ekki var það gott !

Molavin sendi eftirfarandi (23.11.2011) ,,Svo skrifar Netmoggi í dag: Kona sem var með tvo veltureikninga hjá Kaupþingi banka hefur verið gert að greiða yfirdráttarskuld sína…
Sagt var í níði um einn fyrrum Bandaríkjaforseta að hann gæti ekki gert hvort tveggja í senn; að ganga og tyggja tuggugúmmí. Annaðhvort myndi hann hrasa eða bíta sig í tunguna. (Það gerðist eftir að Gerald Ford hrasaði er hann gekk niður landgang úr flugvél og sást þá vera tyggjandi gúmmí).
Svipað má segja um ýmsa blaðamenn í dag, að þeir ráði ekki við aukasetningar, eða tvær setningar í sömu málsgrein. Þeir verða þá að stytta málsgreinar, fjölga setningum og nota punkta. Dæmið hér að ofan yrði þá þannig: „Konu var gert að greiða yfirdráttarskuld sína hjá Kaupþingi, banka. Þar hafði hún tvo veltureikninga…“ . Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta reyndar ótrúlega algeng villa bæði í útvarpi, sjónvarpi og vefmiðlum.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir þetta, Sigurður. Í þessum efnum er ekki ein báran stök !

  2. Sigurður Karlsson skrifar:

    Því má halda því til haga að tilvitnunin með „banabeðinu“ af pressan.is er tekin beint úr fyrstu frétt á ruv.is um lát Jónasar snemma í gærmorgun. Þetta var að vísu leiðrétt seinna en ekki fyrr en aðrir netmiðlar höfðu náð að éta það óbreytt eftir, nema hvað mbl.is breytti því í „á banabeðnum“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>