Í bókmenntaþætti í Ríkisútvarpinu (endurflutt 28.11.2011) var fjallað um unglingabók, vitnað var í bókina og sagt að söguhetjan hefði orðið pólitísk fígúra. Af samhenginu mátti ráða að nokkuð víst var að hér verið að hráþýða úr ensku þar sem talað hefði verið um political figure. En figure á ensku er ekki fígúra á íslensku. Hér hefði fremur átt að segja að sögupersónan hefði orðið stjórnmálamaður.
Við sem stjórn verðum að horfa á þetta heilt yfir, sagði fulltrúi Matís í fréttum Ríkisútvarpsins (28.11.2011). Betra hefði verið að segja: Við verðum að líta á þetta í heild. Að tala um heilt yfir þegar átt er við heild er nokkuð sem Molaskrifari hefur ekki heyrt fyrr en nýlega. Nú étur hver þetta eftir öðrum, hver í kapp við annan. Vonandi hverfur þetta.
… telja okkur betur varið innan Evrópusambandsins, sagði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í Ríkisútvarpinu (28.11.2011). telja okkur betur borgið innan Evrópusambandsins hefði þetta átt að vera.
Annars spáir þrettán til átján metrum… var sagt í áttafréttum Ríkisútvarpsins (28.11.2011). Betra hefði verið: Annars er spáð þrettán til átján metrum ….
Illa gengur Efstaleitismönnum að læra á klukku. Heimildamyndin um Kristin Sigmundsson sem sýnd var á sunnudagskvöld (27.11.2011)hófst tíu mínútum seinna en auglýst var í prentaðri dagskrá. Það er engin afsökun fyrir því að standa ekki við auglýsta tíma í dagskrá. Engin.
Stundum er eins og íslenskir fjölmiðlamenn þekki ekki orðalagið að fremja sjálfsmorð, ráða sér bana eða fyrirfara sér. Úr dv.is (28.11.2011) Hann tók sitt eigið líf í nótt. Þetta er hráþýtt úr ensku og ekki til fyrirmyndar. Að þessu var einnig vikið í Molum 777.
Áskell vitnar í frétt á visir.is (28.11.2011) og segir:
,,Fjöldi krókódíla gengur laus í Bangkok, höfuðborg Taílands, eftir að verstu flóðin þar í hálfa öld urðu í landinu fyrr á árinu.
Ég vissi það ekki fyrr en eftir lestur þessarar fréttar að krókódílar gengju. Í náttúrufræðinni var sagt að krókódílar skriðu. Ég hef séð svona kvikindi draga kviðinn á ferð sinni en aldrei hef ég séð gangandi krókódíl.”. Annar lesandi, Jón Sveinsson, bætti við: Fjöldi krókódíla gengur laus í Bangkok…. Ja hérna skyldu þeir ganga uppréttir ? Og svo seinna í ,,fréttinni“. Einn íbúinn í Bangkok ætlaði á kamarinn í útihúsi og sá þá krókódíl sitja þar við hliðina. Ég hef ekki farið á klósettið (hvað varð um kamarinn ?) síðan.” Ja hérna hér, kannski hafa þessir verið svona vel tamdir að þeir bæði gangi um göturnar og gangi örna sinna á kömrum, sem breytast í klósett í næstu málsgrein.” – Já,- þetta eru mikil furðuskrif!
Þegar Ríkisútvarpið fór að flytja fréttir af umræðum á Alþingi á fyrrihluta sjöunda áratugar liðinnar aldar var það nýmæli því áður hafði aðeins verið sagt frá þingskjölum en aldrei greint frá umræðum. Fljótlega eftir að bryddað var upp á þessari nýjung kvaddi einn af þingmönnum Framsóknarflokksins sér hljóðs á þingi , það var Skúli Guðmundsson , og kvartaði undan því að flokkarnir fengju ekki jafn langan tíma í fréttum Ríkisútvarpsins frá Alþingi. Hann hafði setið með skeiðklukku við útvarpstækið og mælt tímann sem fór í að segja frá hverjum flokki.
Þingflokksformaður Samfylkingar hefur nú lagt fram fyrirspurn á Alþingi í svipuðum anda og vill meðal annars fá á að vita um fréttaflutning af landsfundum stjórnmálaflokkanna, hve löng umfjöllun um hvern flokk hafi verið fyrir sig en alls er fyrri fyrirspurnin í sex liðum. Molaskrifara finnst þetta algjörlega út í hött. Afturhvarf til fortíðar og kannski í og með tilraun til að láta fréttamenn vita að alþingismenn fylgjast grannt með þeim. Samfylkingin verður bara að sætta sig við að meiri tími fer í að segja frá formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum þar sem tveir bítast um formennsku en að segja frá formannskjöri í Samfylkingunni þar sem Jóhanna Sigurðardóttir var sjálfkjörin. Fyrirspurnin er tímaskekkja.
Skildu eftir svar