«

»

Molar um málfar og miðla 777

Dagskrárkynnir Stöðvar tvö (27.11.2011) sagði: Klukkan …. er komið að Heimsenda. Hann var að kynna þátt sem heitir Heimsendir. Þessvegna hefði hann átt að segja: Klukkan … er komið að Heimsendi. Heimsendir er endalok heimsins. Heimsendi er hinsvegar þar sem heimurinn endar ef svo má að orði komast.

Prýðileg heimildamynd Páls Steingrímssonar og Friðþjófs Helgasonar um Kristin Sigmundsson í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld. Mikill listamaður Kristinn Sigmundsson og sennilega okkar mesti söngvari fyrr og síðar. Hann hefur aldrei farið mikinn í fjölmiðlum en afrek hans eru ekki minni fyrir það. Merkilegt að nýlega sungu þeir saman í Fídelíó, einu óperu Beethovens, í óperunni í Houston í Texas, Kristinn og Tómas Tómasson. Held að það hafi algjörlega farið framhjá íslenskum fjölmiðlum, nema menningarpressu Gunnars Guðbjörnssonar á pressan.is . Held að Kristinn sé heimsins besti Sarastró. Held annars ekkert um það. Það er bjargföst sannfæring mín Við höfum sorglega lítið heyrt og séð til þessa frábæra listamanns ,Kristins Sigmundssonar, í Ríkissjónvarpinu.

Hreiðar Eiríksson sendi eftirfarandi (27.11.2011): ,,Það virðist vera árátta fréttafólks á prentmiðlum að þýða orð fyrir orð það sem stendur í erlendum fréttamiðlum í stað þess að klæða upplýsingar sem þar koma fram í íslenskt orðalag. Úr þessu verður til skringilegt málfar sem stundum fer í taugarnar á mér. Nú um helgina svipti þýskur knattspyrnudómari sig lífi. Íslenskir prentmiðlar hafa orðað það þannig að hann hafi tekið sitt eigið líf . Ekki þarf að hafa mikið hugarflug til að geta sér þess til að um sé að ræða þýðingu úr took his own life á ensku. Þetta kemur hins vegar bjánalega út á íslensku enda merking þess engin. Nær væri að segja…svipti sig lífi,…féll fyrir eigin hendi eða…framdi sjálfsmorð. Orðréttar þýðingar úr erlendum fréttamiðlum eru ekki blaðamennska – heldur fúsk.” Kærar þakkir Hreiðar.

Í fréttum Ríkisútvarps og Ríkissjónvarps (27.11.2011) var rætt við þingmann sem talaði um auðhringi. Í eignarfalli fleirtölu varð beygingin hjá þingmanninum auðhringja en átti að vera auðhringa. Hringir um hringa frá hringum til hringa. Sami þingmaður talaði daginn eftir í fréttum Ríkísútvarpsins um þrumur úr heiðskírum himni. Rétt er að tala um að eitthvað komi sem þruma úr heiðskíru lofti, þegar eitthvað gerist mjög óvænt. Ekki þjófur úr heiðskíru lofti eins og þingmaður Framsóknarflokksins sagði endur fyrir löngu. Rétt er að taka fram að var ekki Vigdís Hauksdóttir.

Þáttastjórnendur í sjónvarpi eru valdamiklir í jólabókaflóðinu. Umfjöllun um bók í Kiljunni, Kastljósi eða Silfrinu hefur auglýsingagildi sem meta má til milljóna. Umfjöllun um bók Tryggva Þórs Herbertssonar í Silfri Egils (27.11.2011) orkaði tvímælis að ekki sé meira sagt. Auglýsing miklu frekar en eðlileg umfjöllun enda efni bókarinnar ekki beintengt því sem verið var að ræða um.

Í leiðara DV (25.11.2011) fjallar Reyni Traustason um stjórnmálamanninn, Framsóknarmanninn Finn Ingólfsson, sem varð milljarðamæringur á undraskömmum tíma ekki síst vegna pólitískra tengsla og háttsemi Framsóknarflokksins. Leiðaranum lýkur með þessum orðum: Og það verður að tryggja að stjórnmálamenn í nútíð og framtíð nýti sér ekki aðgang að eigum almennings til að auðgast persónulega. – Einn þingmaður hefur hlotið fangelsisdóm fyrir að vera með ,,krumlurnar í kassanum” ef þannig má að orði. Það gerðist við endurbyggingu Þjóðleikhússins,sem honum var trúað til að stjórna. Nú er sá sami þingmaður ábyrgðarmaður byggingarframkvæmda í Skálholti fyrir hönd okkar í íslensku þjóðkirkjunni. Framkvæmdum sem kosta tugi milljóna. Og Kirkjuráð blessar allt saman. Skrítið þjóðfélag sem við búum í.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján skrifar:

    Tek undir með þér og Jónasi Ingimundarsyni. Kristinn er stórkostlegur listamaður !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>