Í fréttum Stöðvar tvö (25.11.2011) var talað um starfsfólk Byr og Íslandsbanka. Hér hefði átt að tala um starfsfólk Byrs og Íslandsbanka. Stundum er eins og fréttamenn séu hræddir við að beygja heiti fyrirtækja.
Einu sinni var það regla í Ríkisútvarpinu að spila ekki Heims um ból fyrr en á aðfangadagskvöld. Nú hljómar Heims um ból í auglýsingu Icelandair í Ríkissjónvarpinu (25.11.2011) , aðventan ekki byrjuð og auglýsingin ekki góð.
Fannst ég vera undir árás á mínu eigin heimili, segir dv.is (25.11.2011) í fyrirsögn. Þetta er hrátt úr ensku under attack. Á íslensku hefði mátt segja: Eins og ráðist væri á mig á heimili mínu.
Í Sunnudagsmogga (27.121.2011) er sagt á Ólafsvík. Í flestum tilvikum er forsetninganotkun með staðanöfnum föst og gróin í málinu. Meginregla er að hafa í heiðri tungutak heimamanna. Þann hálfan annan áratug sem Molaskrifari var fulltrúi Vestlendinga á þingi minnist hann þess ekki að hafa heyrt nokkurn mann segja á Ólafsvík. Ævinlega var sagt í Ólafsvík.
Fögnuður ríkir á Útvarpsstöðinni Sögu eftir að Huang Nubo (yfirleitt kallaður Kínverjinn í þeim fjölmiðli) var meinað kaupa hluta úr jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Í endurfluttum símaþætti (26.11.2011) var því haldið fram og ekki mótmælt að gera ætti Grímsstaði að umskipunarhöfn vegna siglinga Kínverja um norðurhöf í framtíðinni ! Grímsstaðir eiga hvergi land að sjó og eru langt inni í landi. Í þessum fjölmiðli er talsvert um rangfærslur og stundum hrein ósannindi. Vænisýki nefna sumir. Líklega er svona útvarpsstöð einsdæmi í hinum sæmilega siðmenntaða heimi.
Fannst látinn með hníf í brjóstinu, segir á Fésbók. Síðan segir: 57 manns líkar þetta. Hvernig má það vera? Hér er eitthvað að. Hverskonar rugl er þetta eiginlega?
Í fréttum Stöðvar tvö (24.11.2011) var talað um pirring fyrir (ákvörðun ráðherra). Betra hefði verið að tala um pirring vegna ákvörðunar ráðherra. Í sama fréttatíma var sagt um byggingu , hún stingur í stúf. Ekki var sagt við hvað. Betra hefði verið að segja: Byggingin stingur í stúf við húsin í kring eða stingur í stúf við umhverfið. Þarna var setningin hálfsögð.
Markvisst innrætir Ríkissjónvarpið okkar ungu fólki að popp, Evróvisjón og dans sé það sem mestu skipti í lífinu. Á laugardagskvöldum er sýndur langur þáttur , Dans, dans, dans, sem áreiðanlega kostar mikla fjármuni að koma á skjáinn og er svo ósköp innantómt efni þegar grannt er skoðað. En sjálfsagt hafa ýmsir gaman af þessu. Það er mikil blessum að hafa aðgang að norrænu sjónvarpsstöðunum. Meðan Ríkissjónvarpið okkar sýndi Dans, dans, dans sýndi danska sjónvarpið úrslitakeppni ungs tónlistarfólks sem leggur stund á sígilda tónlist , Spill for Livet. Þar kepptu sex ungmenni á aldrinum 14 til 18 ára, þrjár stúlkur og þrír piltar – öll snillingar. Athygli vakti að stúlkurnar þrjár voru allar af asísku (kínversku?) bergi brotnar. Þetta var frábært efni og hvatning ungu fólki til að hugsa um annað en popp. Svo var í seinkaðri dagskrá á DR1 hægt að horfa á Barnaby. Ekki slæmt hjá Dönum.
Skildu eftir svar