«

»

Molar um málfar og miðla 775

Í Molum um málfar og miðla 773 talaði Molaskrifari um illa lesinn útvarpsmann í Morgunútvarpi Rásar tvö, sem hefði talið ummæli sem Styrmir Gunnarssonar fv. ristjóri viðhafði í grein vera frá Styrmi sjálfum eða fréttamanni BBC. Styrmir leiðrétti útvarpsmanninn og sagði ummælin frá Angelu Merkel komin. Freyr Eyjólfsson umsjónarmaður Morgunútvarps Rásar tvö hefur bent Molaskrifara á að í umræddri grein á Evrópuvaktinni, nefnir Styrmir fréttamann BBC en minnist ekki einu orði á Angelu Merkel. Það var því ekki við Frey að sakast í þessu tilviki og er hann beðinn velvirðingar á því hvernig þetta var orðað í Molum. Eins og greinin var skrifuð mátti ráða að ummælin væru frá fréttamanni BBC.

Orðanotkun á fésbókinni og í umræðum um hana er til vandræða. Þannig tala margir um læk (e.like) sem valið er ef lesanda líkar vel við það sem um er að ræða. Í morgunútvarpi Rásar tvö var nýlega (23.11.2011) þrástagast á læk og meira að segja talað um lækment sem er eiginlega enn verra. Þeir Rásar tvö menn eru þó ekkert verri í þessu efni en gengur og gerist. Nú þyrfti að efna til samkeppni um gott íslensk orð fyrir þetta enska like á fésbók. Erfitt er líklega að nota sögnina að líka (við). Þá mætti segja ef 50 manns líka tiltekin ummæli að þau hafi fengið 50 lík ! Geðjast að ? Samþykkja? Tillögur óskast. Þetta ólukkans læk má ekki festast í málinu.

Þegar haft er eftir formanni Félags leikskólakennara að leikskólakennarar séu sturlaðir af reiði, í útvarpsfréttum (24.11.2011) þá er það dæmi um gengisfellingu orðanna. Áreiðanlega eru leikskólakennarar reiðir þar sem þeim þykir gengið á rétt sinn. Nú fá þeir ekki lengur greidda yfirvinnu fyrir að matast með leikskólabörnum, nemendum sínum. En varla eru þeir sturlaðir af reiði. Og ef þeir eru sturlaðir af reiði eru þeir alls ófærir um að annast ung börn.

Undarleg ,,leiðrétting” var í fréttum Ríkisjónvarps á fimmtudagskvöld. Rangt hafði verið farið með nafn í frétt af dómi í morðmáli. Þulur tók svo til orða að rétt væri að taka fram að maðurinn hét …. og er beðist velvirðingar á því. Þetta er einstaklega klaufalega orðað. Beðist velvirðingar á réttu anfni mannsins? Hversvegna var ekki sagt að rangt hefði verið farið með nafn manns í fréttinni? Eru menn of stórir upp á sig til að viðurkenna slík mistök á fréttastofu Ríkisútvarpsins ? Þetta var einstaklega aumingjaleg ,,leiðrétting”.

Amböguflóðið vestan af Kyrrahafssströnd (Til dæmis: jólin full-on) brást ekki á föstudagsmorgni (25.11.2011) á Rás tvö frekar en fyrri daginn. Það er ótrúlegt dómgreindarleysi og makalaust metnaðarleysi að hella þessari slettugusu yfir hlustendur Rásar tvö hvern einasta föstudagsmorgun. Það var hinsvegar gott að hlusta á gamalan kunningja Elís Poulsen í Færeyjum, þótt ekki væru fréttirnar góðar af fárviðrinu sem gekk yfir eyjarnar. Mannheilt virðist þó vera, sem betur fer, þótt víða hafi líklega skollið hurð nærri hælum í þeim efnum og eignatjón er greinilega mikið. Elís talar prýðilega íslensku enda lærði hann meðal annars hjá Halldóri Blöndal seinna ráðherra og þingforseta í Lindargötuskólanum á sínum tíma er hann dvaldist hér um hríð á unglingsárum. Halldór hefur ekki verið slakur kennari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>