Leiðari Morgunblaðsins um almenning (07.12.2011) var fyndnasti leiðari sem Molaskrifari hefur lesið. Hann leiddi hugann að því að sá sem svona skrifar ætti að skrifa fyrir annan og miklu stærri hóp en ört minnkandi lesendahóp Moggans. Leiðari blaðsins daginn eftir olli hinsvegar vonbrigðum. Þar gekk hótfyndnin út á það hvað Sarkosy Frakklandsforseti væri lágvaxinn. Og talað um háhælaða skó. Ekki þarf að draga í efa að leiðarinn hefur verið þýddur frá orði til orðs hér í Reykjavík og sendur til Quai d´Orsay (franska utanríkisráðuneytisins í París). Það er eitthvað svo óendanlega hallærislegt að gera grín að líkamsvexti fólks, – maður hefði haldið að Morgunblaðið væri vaxið upp úr slíku. Þetta er ekki einu sinni aulafyndni. Það er ekki fyndið að segja um aðra manneskju að hún sé lítil eða feit. Flestir sem eru lágvaxnir vildu sjálfsagt vera hærri í loftinu og flestir sem eru feitir vildu áreiðanlega vera grennri.
Það er undarlegt að nota leiðara Morgunblaðsins til að gera lítið úr forystumönnum annarra ríkja með þessum hætti. En hver skyldi annars vera þessi Sarkel einræðisherra ESB sem talað er um í þessum leiðara Morgunblaðsins? Er Mogginn að uppnefna Angelu Merkel kanslara Þýskalands? Hvað er eiginlega að gerast í Hádegismóum við Rauðavatn?
Visir.is (06.12.2011): Símaskráin hefur verið tekin úr virkri dreifingu samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Já, Sigríði Margréti Oddsdóttur. Tekin úr virkri dreifingu? Hvaða bull er þetta? Er þá til eitthvað sem heitir óvirk dreifing ?
Í fréttum Ríkissjónvarps (06.12.2011) var sagt: … segir að skráning lögreglu kunni að vera ábótavant. Segja hefði átt: … segir að skráningu lögreglu kunni að vera ábótavant. Í lok fréttatímans sagði þulur: Staðan í handboltanum er fjögur tvö fyrir Norðmönnum. Betra hefði verið: Staðan í handboltanum er fjögur tvö fyrir Norðmenn.
Egill er iðinn við að hlusta þáttinn Virka morgna á Rás tvö. Hann sendi eftirfarandi (06.12.2011): ,,Eftirfarandi fjólur á Andri Freyr Viðarsson frá í morgun:
Ég vill fá rjúpuna.
Svakalega langar mér í svona.
… í Bíldudalnum.
Henni vantar …
Þetta virkir allt kerfið … (í stað þetta virkjar allt kerfið)
Ég vill heyra meira frá þér …
Annað bókabattl í næstu viku. (Gunna Dís leiðrétti hann og sagði: Bókabardagi! )
Svo mörg voru þau orð.” Þetta er ófögur upptalning. Er Ríkisútvarpinu alveg sama? Enginn metnaður til að gera vel ? Þetta er óskiljanlegt. Vont málfar í útvarpi smitar út frá sér. Til hvers að hafa málstefnu sem hampað er á tyllidögum en látin er hírast úti í horni þess á milli ? Molaskrifari gæti sagt sitthvað fleira en Egill segir hér um þennan útvarpsþátt, en það bíður betri tíma.
Eftirfarandi er frá Gunnari (06.12.2011): ,,Mikið er fáránlegt að heyra útvarpsauglýsingu frá hafnfirsku apóteki, þar sem biðlað er til Reykjanesbúa . Það býr nefnilega ekki nokkur maður á Reykjanesi, því Reykjanes er nesið sunnan Hafna og vestan Grindavíkur, þar sem Reykjanestá er. Óbyggt svæði, en m.a. ríkt af fuglalífi. Hafnfirðingarnir eiga líklega við íbúa Reykjanesskaga eða Suðurnesjamenn, en vita ekki betur. Auðvitað ættu menn samt að láta verslanir í heimabyggð njóta viðskiptanna, hvar sem þeir búa á landinu!” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Og hér sjáum við myndir úr lok þeirrar hrinu, sagði íþróttafréttamaður Ríkisjónvarps (06.12.2011). Svo fengum við að sjá myndir frá lokum hrinunnar.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/12/2011 at 08:37 (UTC 0)
Þetta er því um að kenna hjá mér sem einu sinni var kallað ,,fattleysi“!
Kristján skrifar:
09/12/2011 at 07:22 (UTC 0)
Ég les ekki Morgunblaðið lengur en skoða stundum mbl.is. Þar fær maður nýjustu frettir um Kim Kardasian og Lindsey Lohan og fleiri stjörnur.
Þórður Magnússon skrifar:
08/12/2011 at 22:44 (UTC 0)
Sæll Eiður,
átta mig ekki á því hvort þú sért að gera grín eða áttir þig í alvöru ekki á hver Sarkel einræðisherra er. Ef það síðarnefnda skal það upplýst að Sarkozy og Merkel mynda saman Sarkel. Frekar einfalt grín.
Þannig að varla er hægt að segja að skotið sé á nokkurn nema Evrópusambandið sjálft og þau völd sem Sarkozy og Merkel hafa þessa daganna innan þess.
Hafðu annars þökk fyrir góða pistla.
Kveðja,
Þórður Magnússon