Gamalt slagorð Toyota á Íslandi er Toyota – tákn um gæði. Þessa dagana fer ekki mikið fyrir gæðum í orðavali fyrirtækisins í auglýsingum. Fyrirtækið gerir ekki miklar kröfur til þeirra sem hanna auglýsingar þess.
Mannhæðarhátt upplýst auglýsingaskilti með orðskrípinu “smælaðu” blasir við öllum sem aka suður Kringlumýrarbraut/Hafnarfjarðarveg. Skiltinu hefur verið komið fyrir á þaki bygginga fyrirtækisins við Nýbýlaveg og það er sem áður sagði engin smásmíði.
Hversvegna þarf Toyota að nota orðskrípið og enskuslettuna “smæla” í staðinn fyrir fallegu íslensku sögnina að brosa? Það er ofar mínum skilningi. Unnendur íslenskra tungu brosa ekki ,þegar þessi ósköp stinga í augu á leið út úr borginni. Ég efast líka um að þeir hugsi hlýtt til fyrirtækisins.
Toyotamenn ættu að sjá sóma sinn í að breyta þessu og tala til okkar á góðu máli.
Á skiltinu ætti að standa: Brostu J.
Annað fyrirtæki sem misþyrmir íslensku í auglýsingum er Sparisjóðurinn Byr, sem bullar í hverri auglýsingunni á fætur annari um eitthvað sem þeir kalla “ fjárhagslega heilsu”. Að tala um fjárhagslega heilsu er bara bull. Í sama dúr mætti segja að Toyota og Byr séu ekki við góða “málfarslega heilsu”. Það er auðvitað sama bullið.
Fyrirtækin Toyota og Byr eru ekki vönd að virðingu sinni þegar kemur að málfari í auglýsingum.
14 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
26/01/2009 at 17:57 (UTC 0)
Frosti,
Þér að segja þá kom Magnús Þór stundum með bróður sínum Einari Má heimili mitt í Norðurmýrinni fyrir margt löngu. Líklega fyrir svona 57- 58 árum . Ég er hinsvegar enginn sérstakur aðdáandi tónlistar hans.
En ef menningarverðmæti eru fólgin í því að hefja slettuna að „smæla“ til vegs og virðingar í stað íslensku sagnarinnar að brosa, eisn og Megas og Toyota gera – þá verð ég að játa, að ég er mát. Þá veit ég bara ekkert hvað menningarverðmæti eru. Eða að mitt evrðmætamat er allt annað en þitt og um það evrður ekki deilt.
Frosti Logason skrifar:
26/01/2009 at 12:17 (UTC 0)
Já það virðist líka vera ofar þínum skilningi að þetta sé tilvitnun í ein mestu menningarverðmæti okkar Íslendinga, nefnilega meistara Megas… hefur þú einhverntíman heyrt um hann eða?
Þráinn Bertelsson skrifar:
26/01/2009 at 11:42 (UTC 0)
Það vildi ég að ég hefði áhyggjurnar yðar, hr. fyrrverandi sendimaður.
Erlingur skrifar:
26/01/2009 at 10:21 (UTC 0)
Þið eruð nú meiri fýlupokarnir. Svo er náttúrulega hægt að fara út í heila umræðu um af hverju maður sem þykist vera einhvers konar sjálfskipaður verndari íslenskrar tungu þekki ekki tilvitnun í einn besta orðsmið landsins (eins og fjölmargir benda hér á), sjálfan Megas. En ég nenni því ekki. Til þess er lífið of skemmtilegt.
En svona í alvöru. Ef þið ætlið að væla út af auglýsingaskiltum (með vel þekkta poppmenningartilvitnun), alþjóðlegum fyrirtækjanöfnum og heiðarlegum tilraunum til að íslenska erlend hugtök, þá get ég ekki ímyndað mér hvernig þið ætlið að láta þegar kemur að raunverulegum vandamálum í lífinu.
Lifið vel
Jón Snæbjörnsson skrifar:
26/01/2009 at 08:24 (UTC 0)
hvað er málið
Kristján Logason skrifar:
26/01/2009 at 08:19 (UTC 0)
Taldi Megas eiga einkaleifi á þessari notkun en sennilega er hann ekki með það skrásett
Fimmta valdið skrifar:
26/01/2009 at 08:13 (UTC 0)
Íslenskri tungu stendur engin ógn af þessari ívitnun í texta Megasar. Gamansemi í auglýsingum er líka hættulaus. Megas hefur gífurlegan orðaforða og gott vald á íslensku máli. Því meira gaman er að útúr- og uppásnúningum hans á það. Gott er ef fólki lærist af honum að gera sér tunguna ekki einasta að brúkstæki heldur líka leiktæki.
Þessi vandlæting öll er fremur brosleg.
ábs skrifar:
26/01/2009 at 01:13 (UTC 0)
Ætlarðu þá að herma slæma málnotkun upp á meistara Megas? Athugaðu að þetta slagorð er vísun í gamlan dægurlegatexta, afskaplega vel ortan. Og hvað fær þig síðan til að dæma alla auglýsingagerð fyrir Toyota léttvæga út frá þessari orðanotkun? Þú tiltekur engin önnur dæmi um slakt orðfæri Toyoyta-manna.
Eiður skrifar:
25/01/2009 at 21:59 (UTC 0)
Þeirri ágætu hugmynd hefur verið gaukað að mér , hvort ekki ætti að stofna einskonar skammarverðlaun tungunnar og veita því fyrirtæki, eða fyrirtækjum sem með vondu málfari í auglýsingum hafa ástundað málfarsleg skemmdarverk.
Þar kæmu Toyota og Byr sterklega til greina svo og Office 1 (rammíslenskt nafn ekki satt?) sem bauð okkur að „versla bækur“ fyrir jólin.
Villi Asgeirsson skrifar:
25/01/2009 at 20:03 (UTC 0)
Væri miklu betra ef Toyota tæki þátt í framtaki gegn símanotkun í umferðinni. Þá segði þetta risa skilti:
Þegiðu :-0
smg skrifar:
25/01/2009 at 17:38 (UTC 0)
Ó mæ fokking god! þvílík óvirðing 😉
Jón Sveinsson skrifar:
25/01/2009 at 17:16 (UTC 0)
Já þú segir nokkuð, en er þetta ekki skiljanlegt, því mér skilst að Megas hafi „komið þessu af stað“ með texta sínum.
Hvernig var það annars, fékk hann ekki verðlaun og var heiðraður sérstaklega á degi íslenskrar tungu, skömmu eftir að þessi texti birtist eftir hann. Ég man ekki betur en hann hafi þakkað fyrir sig meðal annars með því að segja að peningaverðlaunin væru „bunch of money“.
Já myndi þetta ekki vera þá góð og gild íslenska, eða hvað heldur þú ?
Sæmundur Bjarnason skrifar:
25/01/2009 at 15:23 (UTC 0)
Já, það er satt. Mörg fyrirtæki eru til stórskammar hvað þetta snertir og einhvers staðar verður að byrja. Það er engin afsökun fyrir svonalöguðu að aðrir séu jafnslæmir eða verri.
Offari skrifar:
25/01/2009 at 14:58 (UTC 0)
Ef þú smælar framan í heiminn smælar heimurinn framan í þig.