«

»

Afbragðs erindi

Nýlega hlýddi ég á  erindi Jónasar H. Haralz fyrrverandi bankastjóra í Rótarýklúbbnum Görðum í Garðabæ. Hann fjallaði um  gengismál og þróun  gengis íslensku krónunnar allt  frá upphafi  síðustu aldar fram  til  vorra  daga.

Það  voru engin  ellimörk á  erindi  Jónasar. Hann verður níræður  seinna á  þessu  ári. Hann talaði  í  tuttugu mínútur,  studdist  ekki  við  neina minnispunkta,eða skrifað  efni,   endurtók sig  aldrei og  efnistök  voru  skipuleg og  flutningurinn áheyrilegur. Það  hefðu ekki margir  yngri menn leikið þetta eftir  honum.

Í  lok máls  síns  nefndi  Jónas þrjú  meginverkefni sem  sinna yrði yrði á  næstunni.

1. Við yrðum að   gerast   aðilar að  myntbandalagi með öðrum þjóðum , –  verða þátttakendur  í  myntsamstarfi , sem  byggðist  á  sterkari  gjaldmiðli  en krónunni. 

2.  Gæta þyrfti  mun strangara aðhalds í ríkisfjármálum, en  gert  hefði verið   til þessa.

3. Auka þyrfti  samræmi  í efnahagsstjórninni. Samræmdri  efnahagsstjórn hefði  ekki verið  fyrir að fara á Íslandi eftir  að Þjóðhagsstofnun var lögð niður.

Það kom fram í máli hans, að  hann  hefði verið andvígur  EES samningnum á  sínum tíma.  Hann  hefði þá  talið  að  við ættum frekar að  sækja um  beina aðild  að ESB. Það  sjónarmið hefði ekki notið  stuðnings. –  Ég bæti  við : Nú geta margir   tekið  undir að þetta   hefði verið  skynsamlegt að gera.

Ný  ríkisstjórn  gerði vel í því  að  hlusta á  ráðleggingar  Jónasar H. Haralz.

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Guðrún:  Eitthvað stendur einhverjum   fyrir svefni =   „eitthvað  truflar einhvern“.

    Þetta getur þú  séð á  bls. 856 í hinni ágætu bók  dr. Jóns G. Friðjónssonar , Mergur Málsins, íslensk orðatiltæki. Uppruni saga og notkun.

    Þú gerðir vel í að eignast þessa  bók , —  nota  hana.

  2. guðrún skrifar:

    „…sem standa þér fyrir svefni.“ Er þetta íslenskt mál?

  3. Ómar Ragnarsson skrifar:

    Með ólíkindum er hvað sumir menn eldast vel. Dæmi um það er Jón Baldvin Hannibalsson sem mér finnst aldrei hafa verið skarpari, hvassari og áhugasamari.

    Sem minnir á þá einsýn æskudýrkunar sem víkur frá framlagi snjallra manna sem virðast jafnvel batna með aldrinum eins og gamalt vín. (Veit að vísu ekki sjálfur af eigin reynslu hvort vín batnar með aldrinum.)

    Churchill var enn forsætisráðherra Breta um áttrætt og Adenauer kanslari Þýskalands 87 ára gamall.

  4. Þráinn Bertelsson skrifar:

    Takk Eiður, þú getur skrifað af hjartans lyst án þess að hafa áhyggjur af að særa mig holundarsári.Bull, misskilningur, rangtúlkarnir og illkvittni liggja mér í léttu rúmi. Svo vona ég bara að þér takist að hafa til hnífs og skeiðar með gamaldags eftirlaununum samkvæmt gamla kerfinu. Umhyggja mín fyrir fjárhagslegri afkomu ykkar Jónasar er sú að ég vil að fólki takist að eiga sómasamlegt ævikvöld jafnvel þótt ævin hafi ekki verið því öll til sóma.

  5. Eiður skrifar:

    Þakka þér  ábendinguna  ,Guðrún. Það er alveg rétt hjá þér, að  fyrirsögnin ætti að vera í einu orði: Afbragðserindi. Mér þykir  fyrir því  að  fara  svona mikið í þínar fínu taugar, en það er  raunar  þinn vandi en ekki minn. Sé  að  færsla þin er skrifuð kl. 05:14 Vona að það séu ekki   skrif mín sem  standa þér fyrir svefni.

    Við Þráin vil ég segja , að  ég virðist heldur betur hafa komið  við kaun, er ég benti á að  Framsóknarmenn hefðu  komið þér  í heiðurslaunaflokkinn, eins og þú nú hefur  viðurkennt. Það var ekki ætlunin  að  særa þig   holundarsári. Þér  til huggunar í þínu mikla  hugarangri varðandi  minn hag , þá  get ég upplýst  þig um að nú þegar ég  fer á  eftirlaun, þá   eru mín eftirlaun samkvæmt   gamla  kerfinu  ekki því nýja sem  mestur  styrr hefur staðið  um.  Svo  vona ég einlæglega að þér  líði  betur  í sálinni. Þú skalt  bara  spyrja  Jónas H. Haralz  sjálfan um eftirlaun hans. Það þýðir ekki að beina slíkum spurningum til mín. Sé reyndar ekki hvaða máli eftirlaun hans  skipta þig.

  6. Guðrún skrifar:

    Þráinn, það eru fleirri en þú, sem gætu ánetjast því að líta aðeins inn hjá Eiði og anda að sér fróðleik og visku svona rétt fyrir svefninn.  Ég sofna yfirleitt seint. Og þá finnst mér gott að hafa klárað daginn á léttmeti – þetta er einfaldlega minn húmor:  Menn eins og mannvitsbrekkan Eiður Guðnason! Hvað er hann nú að brjóta litla heilann um, kallálftin etc? Dásamlegt. Þú verður að viðurkenna að sjálfskipaðir og húmorslausir siðapostular, sem eru búnir að koma ár sinni fyrir borð fyrir langalöngu, eru ekki beinlínis til stórræðanna. Þessi dásamlegi maður sér samferðarmenn sína og heiminn í gegnum smásjá og svona týpur eu hreinlega óborganlegar og algjört must.

    En Eiður, er þetta ekki ritsóðaskapur og stafsetningarklám af verstu gerð, (svona fyrir reglustikumann og kerfiskall af gamla skólanum,) að skrifa afbragðserindi í tveimur orðum? Manni finnst þetta einhvern veginn of djarft úspil hjá þér?

  7. Þráinn Bertelsson skrifar:

    Jónas níræður stendur þér miklu framar í hugsun, máli og framsetningu. En skyldi hann vera á ein góðum og tryggum eftirlaunum og þér hefur tekist að reyta saman?

  8. Hólmfríður Bjarnadóttir skrifar:

    Hef í vetur hlusta á Jónas þegar ég hef vitað af því að hann væri í fjölmiðlum og einnig lesið greinar eftir hann  og Einar Benediktsson. Hann er gríðarlega fróður um efnahagsmál okkar íslendinga, afburða greindur og skynsamur og svo er hann svo heilsugóður sem betur fer. Já það hefur örugglega verið til heilla fyrir okkur í hvert sinn sem hans ráð hafa ráðið för í efnahagsmálum okkar. Því miður var ekki hlustað á hann þegar EES samningurinn var gerður.

    EN VIÐ VERÐUM AÐ HLUSTA Á HANN NÚNA

    Ég skora á ykkur öll að fara inn á http://www.nyttlydveldi.is og styðja við þetta mikilvæga mál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>