Í Molum nýlega (828) var vikið að ruglinu sem ríkir hjá hér-á-rúv konuröddinni í Ríkissjónvarpinu því stundum hefst kvölddagskráin strax að loknum fréttum upp úr hálf átta, og stundum upp úr klukkan átta að loknu Kastljósi. Á miðvikudagskvöld (01.02.22012) keyrði um þverbak. Þá var okkur sagt að kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins hæfist á tíunda tímanum um kvöldið. Hverskonar endemis rugl er þetta? Auðvitað á kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins að hefjast með kvöldfréttum klukkan sjö.
Í Morgunblaðinu (02.02.2012) segir frá fundi reiðra og óánægðra foreldra í Reykjavík. Fundurinn var þéttsetinn, segir Moggi. Ekki er Molaskrifari vanur þessu orðalagi. Kannski er það gott og gilt. Eðlilegra hefði ef til vill verið að segja: Salurinn var þétt setinn, eða,- fundurinn var vel sóttur.
Það var svolítið skrítið að heyra þingmann Framsóknarflokksins (01.02.2012) segja að þeir sem borguðu útsvar á svæðinu mundu borga Vaðlaheiðargöngin með veggjöldum. Allir sem fara um göngin hvort sem þeir borga útsvar fyrir norðan eða ekki munu auðvitað borga kostnað við gerð ganganna hvort sem gjöldin duga fyrir kostnaði við framkvæmdina eður ei. En áhöld eru nú reyndar um það og margt sýnist raunar brýnna í samgöngumálum en þetta..
Hér er stundum agnúast út í sjónvarpsauglýsingar. Molaskrifara finnst auglýsingin um fyrirhyggjusömu fjölskylduna sem fer allra sinna ferða í snjónum á fjórhjóladrifnum Skóda vera góð. Vel gerð og kom á réttum tíma. Auglýsing Icelandair um borgina Denver í Bandaríkjunum finnst honum ruglingsleg og textinn ekki góður. Vantar allan þokka. Áfram heldur Bílabúð Benna að klæmast á Ökuljóði Freysteins Gunnarssonar í auglýsingu. Svona misnotkun á verkum annarra ætti að varða við lög, en líklega er samtökum listamanna á Íslandi bara alveg sama. Svo skal nefnt í lokin að farmiðasalinn Iceland Express og Ríkissjónvarpið halda áfram lögbrotum oft á kvöldi með því að auglýsa danskan bjór í tengslum við tónleikahald í Kaupmannahöfn.
Það er ekki öll vitleysan eins. Nú hafa þingmenn hreyfingarinnar tilnefnt Wikileaks-manninn Bradley Manning til friðarverðlaun Nóbels ! Er ekki Birgitta Jónsdóttir þingmaður hreyfingarinnar á launum hjá Wikileaks ? Hún kom mjög við sögu þegar fréttamaður Sjónvarps fór á vegum Wikileaks til Bagdad. Þegar spurt var hver greitt hefði kostnað við ferðina voru gefin ólík svör. Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði eitt, Birgitta Jónsdóttir alþingismaður annað og fréttamaðurinn var svo með þriðju útgáfuna. !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar