«

»

„Að gera kostakjör“

Það er  hrein undantekning að hlusta á heilan fréttatíma í ljósvakamiðlum án þess að  heyra  ambögur. sama  gildir   reyndar um lestur  netmiðlanna.

Í sjónvarpsfréttum áðan talaði  fréttamaður um „að gera kostakjör“ á útsölum í Kringlunni. Átti  líklega  við að  þar væri hægt að  gera kostakaup.  Í sama fréttatíma  var  talað um að „eiga  fangið  fullt með“. Nú  skal ég ekki  dæma  hvort það er alrangt, en hið  venjulega er að  segja að segja “ að  eiga fullt í fangi með“.

Svo má gjarnan nefna að fréttamenn margir  hverjir  nota  sögnina  að  vinna varla öðru vísi  en  eftir  fylgi „hörðum höndum“. Ekki skiptir þá  máli  hvort  verið er að  skrifa bók eða  byggja  hús.Allt er það  gert  hörðum höndum.

Nýlega var í Morgunblaðinu fjallað um gámagrams , aldeilis prýðilegt nýyrði,sem ég minnist ekki að hafa heyrt   fyrr. En þar var  talað um að  tilteknir menn menn væru ekki  „einir  við kolann“. Þarna  var  ruglað  saman  tveimur  orðatiltækjum; að vera  einir um  hituna, –  að sitja einir að einhverju  og  að  vera iðinn  við kolann;  að ástunda eitthvað   af dugnaði og eljusemi.

Svo  koma  hér  tvö  hallærisdæmi  af  mbl. is  og visir.is  bæði frá í dag:

mbl.is 07.02.2009:

„Einnig hafa heyrst sögur þess efnis að eigendur hafi sigað kattardýr sín, á borð við ljón og tígrisdýr, á óvini sína innan fíkniefnaheimsins.“ Sögnin að  siga  tekur  með sér  þágufall. Vísir.is. 07.02.2009

Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins  grunar að Ólafur Ragnar  forseti Íslands hafi  vitað af… Sögnin að  gruna  tekur með sér þolfall.

Þetta eru  í rauninni grunnskólaatriði.

Hversvegna  er   slíkum  skrifurum sleppt  lausum í netheimum ?

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. ÞJÓÐARSÁLIN skrifar:

    Eiður!

    Takk fyrir að standa vaktina. Ekki veitir af.

  2. Sæmundur Bjarnason skrifar:

    Af hverju er slíkum skrifurum sleppt lausum í netheimum? Jú, ég get sagt þér það. Mbl.is er æfingasvæði fyrir byrjendur. Það er viðurkennt eða hefur að minnsta kosti ekki verið mótmælt. Morgunblaðið sjálft er skárra. Þó held ég að prófarkalestur hafi verið lagður af þar. Blogglesendur eru hinsvegar oft ágætt íslenskufólk.

  3. Heimir Tómasson skrifar:

    Já, dagar Íslensgukunátunar eru talnir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>