Fín umfjöllun hjá Helga Seljan í Kastljósi (27.03. og 28.03.2012) um vinnubrögð við sölu sjávarafurða sem ef til vill stangast á við lög. Talsmaður útgerðarmanna átti í vök að verjast. Athyglisvert var þó að heyra hann lýsa miklum kostum þess að allt ferlið væri á vegum eins og sama aðilans, veiðarnar , vinnslan og salan úr landi svo og kaupandinn erlendis! Ekki var síður athyglisvert að hlusta á Sævar Gunnarssonar fulltrúa sjómanna lýsa afstöðu til málsins. (28.03.2012) Margt virðist benda til að mjölið í pokanum sé ekki hreint. Óheppilegt fyrir útvegsmenn og Morgunblaðið, málgagn kvótaeigendanna, að umgangsmikla húsleit hjá Samherja á Akureyri og í Reykjavík skyldi nánast bera upp sama daginn og frumvörp til breytinga á núverandi kerfi voru kynnt. Ýmsir halda því fram að það hafi ekki verið tilviljun.
Molaskrifari freistast til að setja hér nokkur orð sem hann skrifaði á fésbókina fyrir fáeinum dögum: Dalai Lama norðursins situr á Bessastöðum og brosir breitt. Tveir af hverjum þremur íslenskum kjósendum vilja hann ekki áfram. Af 230 þúsund manns á kjörská skoruðu aðeins 30 þúsund á hann. En hann veit sem er. Íslendingar koma sér aldrei saman um neitt sem skiptir máli. Þessvegna fær hann 4-5 mótframbjóðendur. Atkvæði skiptast, divide et impera. Deildu og drottnaðu. Og við sitjum uppi með hann. Molaskrifari biður menn að leiða hugann að þessu.
Það var til fyrirmyndar þegar Guðmundur Gunnarsson birti myndir á fésbókinni af bíl umhverfissóða sem valdið hafði miklum náttúruspjöllum í Úlfarsfelli með utanvegakstri. Númer bílsins sást greinilega þannig að vitað er hver ber ábyrgð á þessum skemmdarverkum. Fréttablaðið greindi frá því (27.03.2012) að Alþingi hefði hert viðurlög við utanvegaakstri og tækju breytingarnar gildi 1. maí næstkomandi. Þá verður til dæmis heimilt að gera ökutæki umhverfisböðlanna upptæk. Breytingin hefði verið samþykkt með atkvæðum þingmanna allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins, sagði Fréttablaðið. Hvað veldur ? Voru álögurnar á umhverfissóðana of þungar að mati flokksins? Er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur því að þeir sem valda náttúruspjöllum með utanvegaakstri séu beittir viðurlögum? Þetta lítur dálítið undarlega út.
Molaskrifari fékk svolitla útlandatilfinningu þegar hann fyrir nokkrum dögum var að dóla í Kringlunni. Þar blöstu við verslananöfn eins og: Name it, Only, Body Shop, Outfitters Nation, Accessorize, Friis, Company og Makeup Store. Hann náði þó áttum þegar hann sá nöfn eins og Gleraugnasmiðjan, Mýrin, Kaupfélagið, Útilíf og Byggt og búið.
Það er þreytandi fyrir sjónvarpsáhorfendur að þurfa kvöld eftir kvöld eftir kvöld að hlusta á sömu konuröddina kynna dagskrá Ríkissjónvarpsins og segja svona tíu sinnum á kvöldi hér (hik) á Rúv svo við getum verið alveg viss um að ekki sé verið að kynna dagskrá Stöðvar tvö! Það þarf fleiri raddir við kynningu dagskrár Ríkissjónvarpsins. Það er nóg af fyrsta flokks þulum á Rás eitt sem allir mundu sinna þessu með stakri prýði. Það er einhver allsherjar misskilningur í því fólgin að nota alltaf sömu röddina.
Verður tillagan að verða afgreidd fyrir miðnætti annað kvöld var sagt að minnsta kosti tvisvar í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (28.03.2012). Betra hefði verið að segja: Verður því að afgreiða tillöguna fyrir miðnætti annað kvöld , verður tillagan því að hljóta afgreiðslu fyrir miðnætti annað kvöld.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
30/03/2012 at 13:17 (UTC 0)
Kærar þakkir, Margrét. ,,Sérkennileg orðanotkun“ er vægt til orða tekið !
Margrét Brynjólfsdóttir skrifar:
30/03/2012 at 11:25 (UTC 0)
Sæll Eiður. Ég hef gaman af að lesa pistlana þína. Mig langar að benda á fyrirsögn á MBL.is í dag: „Heimskuleg meiðsli hjá…… og í greininni segir „hann meiddist ekki á hefðbundinn hátt“. Mér finnst þetta sérkennileg orðanotkun.
Kveðja
Margrét Brynjólfsdóttir