Hér er dæmi um vonda þolmyndarnotkun á mbl.is (28.03.2012): Milljónir punda hafa nú verið endurheimtar af bæjarráðum Surrey-sýslu í Bretlandi og Reigate and Banstead Borough af innistæðum sem þau áttu í Glitni fyrir hrun. Það fyrsta sem manni dettur í hug er að einhverjum hafi tekist að ná milljónum sterlingspunda frá bæjarráðunum. Svo er ekki. Bæjarráðunum hefur tekist að endurheimta milljónir sterlingspunda af innstæðum sem voru í Glitni fyrir hrun.
Vegna frétta að undanförnu um að stefna eigi manni sem er vistmaður á hjúkrunarheimili í gjaldþrot veltir Molaskrifari velferðarkerfinu fyrir sér. Er það í anda jafnaðarstefnu og norrænnar velferðar að tveir menn séu hlið við hlið á hjúkrunarheimili; öðrum er gert að greiða á fjórða hundrað þúsund á mánuði (ósundurgreint) fyrir dvölina , hinn greiðir ekki neitt? Sá sem gert er að greiða hefur greitt samviskusamlega í lífeyrissjóð alla ævi. Hinn hefur ekki greitt í lífeyrissjóð og væntananlega haft rýmri fjárráð sem því nemur. Þetta getur ekki verið hin norræna velferð sem sitjandi ríkisstjórn montar sig á stundum af. Eða hvað?
Ársfundur Seðlabanka Íslands var haldinn á fimmtudag (29.03.2012) Daginn eftir leitaði Molaskrifari með logandi ljósi að fréttum af fundinum í Morgunblaðinu. Þar var ekkert að finna nema stubb um að til stæði að gefa út tíu þúsund króna seðil. Líklega telja þeir sem stjórna fréttaskrifum blaðsins að áskrifendum Morgunblaðsins komi ekkert við hvað gerist á ársfundi Seðlabanka íslands. Seðlabankans. Kannski er Seðlabankinn Morgunblaðinu ekki þóknanlegur. Hver veit?
Í tölvupósti frá Íslenskri getspá, – fyrirtækinu sem rekur Lottóið og Víkingalottó hér á landi segir (28.03.2012): ATH – sölu lokar klukkan 16 00. Þetta fyrirtæki hlýtur að hafa ráð á prófarkalesara sem séð getur til þess að svona ambögur séu ekki sendar í fjöldapósti. Hér hefði mátt segja, til dæmis: Sölu hætt klukkan 16 00, sölu lýkur klukkan 16 00. Alls ekki Sölu lokar eða sala lokar. Það er hreint bull.
Atkvæðaréttur tekinn af fólki, segir í fyrirsögn á mbl.is (28.03.2012) Venja er að tala um atkvæðisrétt, réttinn til að mega greiða atkvæði, taka þátt í atkvæðagreiðslu, – ekki atkvæðarétt.
Í fréttum Stöðvar tvö (27.03.2012) kom fram að eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins HB Grandi hefði hagnast um 6.200 milljónir í fyrra. Það ár hefði félagið greitt 400 milljónir króna í veiðigjald. Ef þær hækkanir sem ríkisstjórnin vill ná fram hefðu verið í gildi í fyrra hefði GHB Grandi greitt 1.600 milljónir í veiðigjald. Þetta segir málgagn kvótagreifanna Morgunblaðið og talsmenn útgerðarmanna að muni setja alla útgerð á Íslandi á hausinn!
Í fréttum Ríkissjónvarps (28.03.2012) var sagt frá mikilli lýtaaðgerð, einni mestu lýtaaðgerð allra tíma, í Bandaríkjunum þar sem maður fékk eiginlega nýtt andlit. Sagt var að aðgerðin hefði tekið hálfan sólarhring. Í öðrum fjölmiðlum hafði komið fram að aðgerðin hafði tekið einn og hálfan sólarhring, þrjátíu og sex klukkustundir. Þetta er kannski ekki mjög alvarleg villa en engu að síður dæmi um óvandvirkni sem ekki á að vera til staðar á stærstu fréttastofu landsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar