Sjálfstæðisflokkurinn fékk það sem kalla mætti mjúka meðhöndlun í fréttum Ríkissjónvarps af Alþingi á miðvikudagskvöld (28.03.2012) Þar var gert að aðalatriði að sjávarútvegsráðherra hefði verið erlendis og þessvegna hefði menntamálaráðherra mælt fyrir kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Frétt en ekki aðalfrétt. Lítið var hinsvegar gert með upphlaup þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins nóttina áður, sem vissulega var miklu meiri frétt en hvaða ráðherra mælti fyrir tilteknu stjórnarfrumvarpi. Rangt fréttamat.
Ferðaskrifstofan Expressferðir sem eitthvað mun tengjast farmiðasalanum Iceland Express notar í auglýsingum orðið hópaferðir. Málvenja er að tala um hópferðir, – ekki hópaferðir.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (28.03.2012) var vitnað í mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna sem sakaði stjórnvöld í Sýrlandi um að misþyrma börnum sem þau hefðu í haldi sínu. Hér hefði nægt að tala um börn sem þau hefðu í haldi. Vísa annars til ágætra skýringa í bók dr. Jóns G. Friðjónssonar Merg málsins, bls. 344
Ertu viðbúinn fyrir Mentos (sælgæti) ? Þannig er spurt í sjónvarpsauglýsingu á Stöð tvö (29.03.2012). Ekki fellir Molaskrifari sig við orðalagið að vera viðbúinn fyrir eitthvað. Venjan er að tala um að vera viðbúinn einhverju.
Ekki ákærðir vegna aðild sinnar að málinu, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (29.03.2012). Hefði betur sagt: Ekki ákærðir vegna aðildar sinnar að málinu.
Molaskrifari fylgdist með orðaskiptum forsætisráðherra og Jóns Bjarnasonar fyrrum ráðherra í beinni útsendingu frá umræðum á Alþingi að morgni fimmtudags (29.03.2012). Einkennilega var hinsvegar frá þessu greint í fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld. Þar var birt glefsa úr ræðu forsætisráðherra en tekið sérstakt viðtal við Jón Bjarnason þar sem hann úthúðaði forsætisráðherra. Þetta voru undarleg vinnubrögð. Annaðhvort átti að birta glefsur úr ræðum beggja eða taka stutt viðtöl við þau bæði. Þá hefði jafnræðis verið gætt.
Nokkrum sinnum hefur Molaskrifari nefnt að hann saknaði vandaðra heimildamynd á dagskrá Ríkissjónvarps. Nefndi nýlega 90 mínútna mynd um Bobby Fischer og mynd um heimsókn New York filharmóníunnar til Pyongyang í Norður Kóreu. Báðar þessar myndir voru nýlega sýndar í norrænum stöðvum. Á fimmtudagskvöld (29.03.2012) sýndi sænska sjónvarpið SR1 vandaða norska heimildamynd um líf skautadrottningarinnar Sonju Henie. Þar kom fram að líf hennar var enginn dans á rósum. Undarlegt að ekki virðist áhugi á efni af þessu tagi hjá þeim sem ráða dagskrá Ríkissjónvarpsins. Sama kvöld bauð Ríkissjónvarpið íslenska okkur upp á Aðþrengdar eiginkonur og Glæpahneigð , þátt númer 122 af 138. Sjónarhorn dagskrárstjóranna í Efstaleiti er of þröngt og miðast of mikið við ameríska , sápu, froðu og langlokuþáttaraðir.
Landinn á sunnudagskvöldum er einn besti þátturinn í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Andraland á fimmtudagskvöldum er hinsvegar misheppnuð tilraun til að líkja eftir Landanum. Meginmarkmið þáttarins virðist vera að umsjónarmaður sé á skjánum allan tímann. Það markmið náðist nokkuð vel síðastliðið fimmtudagskvöld (29.03.2012).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar