«

»

Molar um málfar og miðla 875

Undarleg umfjöllun um skóframleiðslu var í morgunþætti Rásar tvö (30.03.2012). Tók við af vikulegum slettu- og ambögupistli frá Los Angelees eða ellei eins og sagt var upp á ensku. Í skópistlinum var gefið í skyn að skór væru helst framleiddir í einskonar þrælabúðum og við skókaup ætti fólk að huga að uppruna skónna og meðferð á dýrum. Gefur það ekki auga leið ef keyptir eru leðurskór þá fæst ekki leður í skóna nema dýr sé drepið og skinnið sútað og verkað? Er betra að kaupa skó úr gerviefnum? Úr því sem á ensku er kallað pleather (plastic leather) og mætti ef til vill kalla pleður eða leðurlíki á íslensku? Þetta er ótrúlega líkt ekta leðri og leðurlyktin er meira að segja á sínum stað. Framleiðsla þessa gerviefnis hefur ótrúlega mikla mengun í för með sér. Kínverjar framleiða pleður í stórum stíl. Sjá t.d. ágæta bók Peters Hessler: Country Driving. A Journey Through China from Farm to Factory. Er ekki betra að vera náttúruvænn og ganga í leðurskóm? Molaskrifari hefur heimsótt skóverksmiðjur í Kína. Hann hefur líka heimsótt fiskvinnslur , bílaverksmiðjur, raftækjaverksmiðjur o.fl. o.fl. Ekki varð séð að vinnuskilyrði fólks í skóverksmiðjum væru lakari en t.d. hjá fólki í fiskvinnslufyrirtækjum í eigu Íslendinga í Kína, sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson dásamaði mjög á sínum tíma.
Þessi umfjöllun í morgunútvarpinu jaðraði við að vera fordómafull og ekki byggði hún á traustum grunni þekkingar. Það sem kom þó einkum á óvart var að ungt fólk á Íslandi skuli gjarnan eiga 20 skópör og þaðan af fleiri, ef marka má svör þeirra sem spurðir voru.

Eftirmálar næturinnar , segir í fyrirsögn á eyjan.is um hamaganginn á Alþingi á fimmtudagskvöld (30.03.2012). Sá sem samdi þessa fyrirsögn skilur ekki muninn á orðinu eftirmál og orðinu eftirmáli. Nokkrum sinum hefur verið fjallað um þetta í Molum um miðla og málfar. Allir sem skrifa fréttir ættu að geta greint hér á milli.

Brimborg ætti að breyta heilsíðuauglýsingu sem birtist í Fréttablaðinu (28.03.2012). Þar segir í fyrirsögn: Lífið er greit. Þetta er óþörf enskusletta. Hversvegna ekki að segja við okkur á íslensku: Lífið er gott!
Þetta er enn eitt dæmið um vond vinnubrögð auglýsingastofu. Ekki verður af auglýsingunni ráðið hvaða auglýsingastofa er ábyrg fyrir þessu.

Úr frétt á mbl.is (30.03.2012): Ótti við yfirvofandi verkfall eldsneytisbílstjóra olli því að Bretar hömstruðu eldsneyti á bensínstöðvum landsins í dag … Molaskrifari hefur aldrei heyrt talað um eldsneytisbílstjóra. Einu sinni var talað um olíubílstjóra rétt eins og mjólkurbílstjóra. Einnig mætti tala um bílstjóra á olíubílum.

Í morgunþætti Rásar tvö (02.04.2012) sagði einn umsjónarmanna rétt upp úr klukkan sjö að hiti í Reykjavík hefði verið eitt stig núna klukkan níu. Þetta er auðvitað ekki alvarleg villa eða mismæli. Undarlegast er samt að sá sem þetta segir skuli ekki heyra villuna sjálfur né heldur hinir umsjónarmennirnir tveir. Líklega þyrftu þeir að vera fleiri.

Það er Molaskrifara dálítil ráðgáta hversvegna ráðherrar ríkisstjórnarinnar þurfa að auglýsa það, guma af því, á fésbókinni að þeir séu staddir í París. Furðulegt. Í besta falli er þetta kjánaskapur.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>