«

»

Molar um málfar og miðla 876

M.R. hefur sigrað keppnina sautján sinnum, var sagt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (31.03.2012). Það er erfitt að hafa þetta rétt enda mjög flókið. Það sigrar enginn keppni.

Í Tungutakspistlunum í Sunnudagsmogga er ekki lengur fjallað um íslenska tungu, daglegt mál og málnotkun. Þar fjalla höfundar nú einkum um pólitísk hugðarefni sín af ýmsu tagi. Ekki verður sagt að það sé til bóta. Í Sunnudagsmogga (01.04.2012) var hinsvegar prýðilegur pistill eftir Styrmi Gunnarsson fv. ritstjóra: Hver á heima á Bessastöðum?

Úr dv.is (01.04.2012): Kasuma Nandina, 57 ára kona frá Sri Lanka, hafa verið dæmar bætur eftir að hafa starfað sem þræll vellauðugar fjölskyldu í Sádi-Arabíu í sautján ár. – Kona hafa ekki verið dæmdar bætur. Konu hafa verið dæmdar bætur.

Á heimasíðu forsætisráðuneytisins er Jóhann Hauksson titlaður upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Fyrir nokkrum dögum skrifaði Jóhann kjallaragrein í DVþar sem hann titlaði sig eða var titlaður blaðamaður. Greininni var beint gegn Þorsteini Pálssyni og hún bar yfirskriftina: Vonandi nær sólarglæta inn í hugarfylgsni Þorsteins áður en páskarnir eru liðnir. Gefur það ekki auga leið að maður sem gegnir stöðu upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar skrifar ekki kjallaragreinar sem blaðamaður? Hann var að verja forsætisráðherra og ríkisstjórnina. Þessvegna hefði átt að koma fram að hann er upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Það hefði verið heiðarlegra.

Er Silfur Egils að ganga sér til húðar? Í þættinum á Pálmasunnudag, síðasta þætti fyrir páska, komu á skjáinn fjórir þingmenn, einn fyrrverandi þingmaður og ráðherrann og þingmaðurinn Ögmundur Jónasson. Ódýr og einföld lausn en ekki frumleg. Það er annars umhugsunarefni að í ríkisstjórn skuli sitja ráðherra eins og Ögmundur Jónasson sem er í grundvallaratriðum andvígur stefnu ríkisstjórnarinnar í mikilvægum málum. Þá var ekki síður einkennilegt að heyra hann halda því fram að við ættum að setja sjálfum okkur einhliða tímamörk í ESB viðræðunum og eyðileggja þannig samningsstöðu okkar. Svo vill ráðherrann láta viðhafa þjóðaratkvæði um skattamál. Hann fylgist illa með. Í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hafa almennar atkvæðagreiðslur um skattamál sett ríkiskassann á hausinn. Þetta er angi af þeim anarkisma sem þessi ráðherra virðist aðhyllast.

Það er eiginlega ekki hægt annað en hafa lúmskt gaman af síendurteknum sjónvarpsauglýsingum Atlantsolíu um að neytendur gefi fyrirtækinu flest stig á svokallaðri ánægjuvog. Fyrir hvað? Þegar þetta er skrifað (01.04.2012) er bensín og dísil tíu aurum dýrara hjá Atlantsolíu en Orkunni. Allar þrjár sjálfsafgreiðslustöðvarnar , Atlantsolía, Orkan og ÓB eiga það sameiginlegt að þær veita sömu þjónustu, – það er að segja enga þjónustu nema gefa þér kost á að dæla eldsneytinu sjálfur á bílinn. Í hverju er þá þessi mikla ánægja með Atlantsolíu fólgin? Það skilur Molaskrifari ekki. Hann batt á sínum tíma vonir við Atlantsolíu en fyrirtækið var ótrúlega fljótt að samlagast verðlagningu hinna olíufélaganna. Ekki fær Atlantsolía stig á ánægjuvoginni fyrir það.

Í fréttum Stöðvar tvö (01.04.2012) var sagt: Fram hefur komið að sú hugmynd hafi borið á góma … Réttara hefði verið að segja: Fram hefur komið að þá hugmynd hafi borið á góma … Í íþróttafréttum í sama fréttatíma var sagt: … en ekkert var dæmt af dómara leiksins. Þarna hefði verið ( eins og nær ævinlega) betra að nota germynd fremur en þolmynd. Til dæmis: En dómarinn í leiknum dæmdi ekki brot.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir leiðréttinguna, Bergsteinn. Breyti þessu.

  2. Bergsteinn Sigurðssom skrifar:

    Kjallaragrein Jóhanns birtist í DV, ekki Fréttablaðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>