«

»

Molar um málfar og miðla 877

Ótrúlega margir Íslendingar eru haldnir vanmetakennd gagnvart útlöndum og útlendingum. Í Landanum á sunnudagskvöld (01.04.2012) sagði sveitarstjórinn á Grenivík, að ef við gengjum í ESB fengjum við svo fáa fulltrúa í Brussel að rödd okkar yrði hjáróma. Ekki yrði tekið mark á okkur. Molaskrifari hefur svolitla reynslu af alþjóðasamstarfi. Reynsla hans er sú að rödd Íslands á alþjóðavettvangi eða í fjölþjóðasamstarfi er aldrei hjáróma svo lengi sem við höfum eitthvað málefnalegt og vitrænt fram að færa. Það er hlustað á rödd Íslands. Mikið af andstöðunni gegn ESB byggist á þjóðrembu sem oft er farvegur fyrir minnimáttarkennd.

Í fréttum Ríkissjónvarps (01.04.2012) talaði þingmaður um að greiða brúsann. Það er föst málvenja að tala um að borga brúsann. Alveg ástæðulaust að breyta því. Í íþróttafréttum í sama fréttatíma var talað um að taka þátt á Íslandsmóti. Molaskrifara þykir eðlilegt að tala um að taka þátt í móti og keppa á móti.

Í dagskrá Rásar eitt geta verið gimsteinar. Snilldarþáttur Höllu Steinunnar Stefánsdóttur, Þá kemur vorið, sem Molaskrifari heyrði á mánudagskvöld (02.04.2012) sýnir hve hægt er að gera vel í útvarpi þegar saman fara hugkvæmni og smekkvísi. Tæknimaðurinn Úlfhildur Eysteinsdóttir gerði og sitt til að gera þáttinn meira en góðan. Kærar þakkir fyrir frábært efni og efnistök.
Það er ekki að spyrja að þeim sem skrifa sem skrifa fréttirnar á eyjan.is! Þetta mátti lesa þar (01.04.2012): Kötturinn var síðan úrskurðaður látinn síðar á Dýraspítalanum. Það var og ! Kötturinn var úrskurðaður látinn eftir að hundar réðust hann. Sjálfsagt er að tala um ketti með fullri virðingu, en þetta er kannski einum of mikið af því góða.
Dyggur Molalesandi sendi eftirfarandi (02.04.2012): ,,Ég hef fylgst með pistlunum þínum um skeið og haft bæði gagn og gaman af. Eitt hefur farið mjög fyrir brjóstið á mér og það er það hvernig fréttamenn netmiðlanna bregða gjarnan fyrir sig talmáli. Þannig er t.a.m. stundum talað um „að hrauna yfir e-n“ jafnvel í fyrirsögnum. Sem er ekki aðeins talmál heldur líklega jafnframt aðeins notað af ákveðinni kynslóð, þeirri sem helst skrifar viðkomandi fréttir. Þarna velja fréttamenn sér ekki rétt málsnið sem er mínu viti afar hvimleitt. Það er eðlilegt að netfréttir séu skrifaðar á hefðbundnu ritmáli.”. Molaskrifari þakkar Snorra vinsamleg ummæli og tekur undir með honum um málfar í netmiðlum, – og raunar víðar.
Af mbl.is (02.04.2012): Fyrirsætan Tamara Ecclestone á einn verðmætasta fataskáp sem sögur fara af. Hér reyndar ekki verið að tala um skápinn heldur innihald hans, fötin sem í honum eru. Þetta er ekki í samræmi við íslenska málvenju.
Laugardaginn 31. mars gerði Molaskrifari tilraun til að hlusta á morgunþátt Útvarps Sögu. Hélt fyrst að hann hefði eitthvað ruglast í ríminu, en fljótt kom í ljós að verið var að endurtaka ellefu daga gamlan morgunþátt! Ekki margir fjölmiðlar sem bjóða hlustendum sínum slíkt. Var fljótur að flýja.
Það er góðra gjalda vert að Ríkissjónvarpið skuli flytja okkur vandaða tónlistarþætti um páskana. Enduropnun Bolshoileikhússins í Moskvu eftir gagngerar endurbætur og óperuhátíð í Baden Baden. Molaskrifari hefur séð báða þættina, því fyrir löngu er búið að sýna þá á Norðurlöndunum, muni hann rétt. Heimslistafólk í báðum þáttum. Einnig verður sýndur þáttur úr BBC tónleikaröðinni BBC Proms, en þá þurfti endilega að velja sísta þáttinn (að mati Molaskrifara) úr röðinni þar sem flutt er kvikmyndatónlist. Allir þættirnir í þessari þáttaröð eru reyndar góðir. En það á ekki þurfa stórhátíðir til að við fáum almennilegt tónlistarefni í íslenska Ríkissjónvarpinu. Þannig efni er líka hægt að sýna þótt ekki séu jól eða páskar. Stjórnendur Ríkissjónvarps mættu alveg hafa það í huga.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>