«

»

Molar um málfar og miðla 881

Ljóð Günter Grass um Ísrael vekur umdeilu, sagði í fyrirsögn á dv.is (07.04.2012). Hér hefði verið betra að segja: Ljóð Günters Grass um Ísrael vekur deilur, – er umdeilt.

Íslenska neftóbakið hefur verið framleitt á undantekningu, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (07.04.2012). Hefði málvenju verið fylgt hefði verið sagt: Íslenska neftóbabakið hefur verið framleitt á undanþágu.

Í fréttum Stöðvar tvö (07.04.2012) var sagt frá umferðarslysi á hafnarfjarðarvegi. Sagt var að slysið hefði orðið í Engidal. Eftir myndum að dæma varð slysið á Hafnarfjarðarvegi á Hraunsholti , – ekki í Engidal.

Áskell sendi Molum eftirfarandi: „En ég er alveg mannlegur og fæ mér páskaegg eins og flestir og mun mönsa á því án samviskubits,“ segir Björn Þór Sigurbjörnsson í grein um súkkulaði á www.pressan.is – Og nú er spurt: Hvenær kom sögnin að mönsa í íslenskt mál og hvað merkir hún? Getur verið að höfundur eigi við „að narta“. Ég játa fúslega að ég kannast ekki við sögnina að mönsa en það segir e.t.v. meira um mig en umrædda sögn.” Molaskrifari hefur aldrei heyrt af þessari sögn, en líklega er ágiskun Áskels um merkingu hennar nærri lagi.

Ritara hans grunaði hann um græsku, og kærði hann, … segir á vef Ríkisútvarpsins (08.04.2012). Hér ætti að standa: Ritari hans grunaði hann um græsku. Hins vegar mætti segja: Ritara hans grunaði að ekki væri allt með felldu.

Ágúst sendi Molum eftirfarandi (08.04.2012)undir fyrirsögninni: Bórnin á RÚV: „70 tonnum snjós mokað inn í miðbæ“ Textavarpið í morgun (118) Sjá http://www.ruv.is/frett/70-tonnum-snjos-mokad-inn-i-midbae. Molaskrifari bætir við: Eignarfallsmyndina snjós er vissulega að finna á vef Árnastofnunar , beygingarlýsing íslensks nútímamáls. En eðlilegra hefði ef til vill verið að tala hér um 70 tonn af snjó.

Það var í morgun sem uppgötvaðist um brunann var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (08.04.2012). Ekki mjög vel að orði komist.

Stærsta fitnessmót frá upphafi , segir í fyrirsögn á mbl.is (08.04.2012) Er ekki til íslenskt orð yfir það sem hér er kallað fitness upp á ensku? Molaskrifari er heldur ófróður um það sem kallað er fitness og vaxtarrækt en virðist mest snúast um afskræmingu mannslíkamans.

Það fer eftir hitastiginu á hvaða formi úrkoman er, sagði veðurfréttamaður Stöðvar tvö (08.042012). Betra hefði verið að segja: Það fer eftir hitastiginu hvernig úrkoman verður.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ari skrifar:

    „Mönsa“ er tekið beint úr ensku: To munch. Maðurinn átti bara að nota sögnina „að maula“ í staðinn, það er góð og gild íslensk sögn fyrir athæfið.

  2. Eiður skrifar:

    Líklega formlýsingu.

  3. Skúli skrifar:

    Hvernig myndir þú líta á „hvernig úrkoman verður“ sem formlýsingu, magnlýsingu eða lýsingu af einhverju öðru tagi?

    Mér fannst texti veðurfréttamannsins nokkuð skýr varðandi formið.

    Takk annars fyrir pistlana. Lækurinn er bakkafullur og af nógu að taka þegar málfar fjölmiðlafólks er annars vegar.

  4. Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:

    Heill,

    ég legg til að þú takir úr annars frábærum Molum þínum Pressuna – jafnvel allt hyski Björns Inga – enda þykir mér hún ekki að nafnbótinni komin að kallast fjölmiðill, eða hvað þeir sveitamenn, jæja, framsóknarmenn, vilja kalla þessa angistarmiðla.

    Annars þakka ég þér margfalt fyrir dugnað og elju. Fjölmiðlar þurfa á aðhaldi að halda. Og þó á marga hliðina, þá veitir þú Eiður alla vega eina þeirra.

    Haf þú ekkert nema gott.

    kv,
    Frissi

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>