«

»

Molar um málfar og miðla 882

Fimmtán ára unglingar geta halað inn rétt rúmar tuttugu þúsund krónur í Vinnuskóla Reykjavíkur, sagði umsjónarmaður kvöldfrétta í sexfréttum Ríkisútvarpsins (10.04.2012). Varla það getur það verið í samræmi við málstefnu Ríkisútvarpsins að nota slanguryrðin að hala inn um það að vinna sér inn peninga. Þetta er ekki boðlegt málfar í fréttum Ríkisútvarpsins. Enn og aftur er spurt: Les enginn fréttahandritin yfir áður en þau eru lesin fyrir okkur ?

Dæmi um hvimleiða þolmyndarnotkun á pressan.is (10.04.2012): Hann er ósáttur við að mönnunum hafi verið sleppt af lögreglu beint fyrir framan nefið á sér. Betra hefði verið: Hann er ósáttur við að lögreglan skuli hafa sleppt mönnunum … Að mönnunum skuli hafa verið sleppt af lögreglunni er klúðurslegt og ljótt.

Hver vorkennir flugstjóra sem á Range Rover Sport (Ísland í dag , Stöð tvö 10.04.2012) ? Svarið er, líklega enginn. En eftir að hafa heyrt málavöxtu í Íslandi í dag er auðskilið að enginn vill láta leika sig eins og bankinn , í þessu tilviki , Íslandsbanki, hefur leikið viðskiptavin sinn sem gerði þau mistök að samþykkja kaupleigusamning í stað venjulegs láns. Það er með ólíkindum hvað bankarnir komast upp með gagnvart fólki í ríki sem þykist vera réttarríki. Ekki var mikið að græða á svörum innanríkisráðherra við spurningum fréttamanns um málið. Makalaust hvað fjölmiðlar oft hlífa ráðherrum og láta þá komast upp með að svara ekki því sem um er spurt.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (10.04.2012) var sagt frá pípulagningamanni á Djúpavogi sem væri langt kominn að smíða sjóbát úr pípulagningaefni. Sjóbátur? Er það bátur sem aðeins er hægt að nota á sjó, ekki á vötnum? Molaskrifari viðurkennir að hafa ekki áður heyrt orðið sjóbátur. Hér hefði farið vel á því að segja að pípulagningamaðurinn væri langt kominn að smíða bát …

Fimm eða sex sinnum á líklega innan við tveimur mínútum fengum við að heyra þrástagast á hér (hik) á RÚV, rétt fyrir tíufréttir Ríkissjónvarpsins (10.04.2012) Minna má nú gagn gera. En auðvitað er alveg nauðsynlegt að leggja á það áherslu að í dagskrá Ríkissjónvarpsins er ekki verið að kynna þætti sem sýndir eru í Stöð tvö. Það verður að lemja það inn í hausinn á okkur heimskingjunum að verið sé að kynna efni Ríkissjónvarpsins. Þetta undarlega stagl er móðgun við okkur áhorfendur/hlustendur. Ef endilega þarf að endurtaka þetta í síbylju er þá til of mikils mælst að það sé gert með eðlilegum áherslum og án uppskúfaðrar tilgerðar? Það þarf fleiri raddir til að kynna dagskrá Ríkissjónvarpsins.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>