Í fréttum Stöðvar tvö (11.04.2012) var hvað, eftir annað talað um Ísland sem heitasta staðinn í Evrópu. Hvorki var átt við lofthita né jarðhita. Heldur að Ísland væri efst á vinsældalista ferðamanna. Fjölmiðlamönnum er að takast að troða þessari ensku hugsun inn í íslenskan málheim, að allt sem er vinsælt eða eftirsótt sé heitt. Íslensk tunga þarf ekkert á þessu að halda.
Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var talað um flóðbylgjuna sem á sínum tíma varð á þriðja hundrað þúsund manns að bana í Asíu. Sagt var að það hefði verið ein af mannskæðustu náttúruhamförum sögunnar. Svona er ekki hægt að taka til orða því orðið náttúruhamfarir er fleirtöluorð og ekki til í eintölu. Til dæmis hefði mátt tala um flóðbylgjuna sem valdiið hefði einhverjum mannskæðustu náttúruhamförum sögunnar.
Svo enn sé vitnað til sama fréttatíma þá var þar athyglisverð samantekt Andra Ólafssonar um húsnæði sem áður var nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu en nú stendur autt. Þar kom ýmislegt á óvart.
Framburður mannanafna og staðanafna í ensku getur oft verið býsna langt frá því sem ætla mætti eftir rithætti að dæma. Flest af þessu lærir fjölmiðlafólk tiltölulega fljótt að tileinka sér. Eitt af þessum nöfnum er nafn enska rithöfundarins W. Somerset Maugham (1874-1965). Eftirnafn hans er ekki borið fram móham eins og gert var nýlega í ágætum þætti í Ríkisútvarpinu. Nafnið er borið fram mawm , sjá til dæmis Wikipediu http://en.wikipedia.org/wiki/W._Somerset_Maugham
Í fréttum Ríkissjónvarps (11.04.2012) var talað um fjölgun húsnæðis í Kópavogi. Eðlilegra hefði verið að tala um aukningu húsnæðis.
Í fréttum Ríkisútvarps og Ríkissjónvarps (11.04.2012) var tvívegis talað um að taka með opnum örmum. Föst málvenja er að segja að taka opnum örmum. Engin ástæða er til að breyta því. Þarna var forsetningunni með ofaukið.
Lögbrotum sjónvarpsstöðvanna linnir ekki þegar áfengisauglýsingar eiga í hlut. Rétt fyrir fréttir (11.04.2012) auglýsti Stöð tvö bjór. Ríkissjónvarpið lét ekki sitt eftir liggja og sýndi langa bjórauglýsingu rétt fyrir seinni fréttir. Óskiljanlegt að þetta skuli látið viðgangast átölulaust. Annað hvort á að leyfa áfengisauglýsingar og breyta gildandi lögum eða fylgja landslögum og birta ekki áfengisauglýsingar. Ekki láta lögbrot viðgangast.
Flestir sem komnir eru á miðjan aldur og þaðan af eldri er vanir því að orðið verð sé eintöluorð. Þetta er að breytast orðið verð er æ oftar notað sem fleirtöluorð. Þannig auglýsir byggingavörukeðjan Bauhaus sem senn opnar verslun á Íslandi: Alltaf lág verð. Íhaldsmaðurinn sem skrifar þessa Mola getur verið svolítill þverhaus. Honum finnst að Bauhaus ætti að segja: Alltaf lágt verð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
14/04/2012 at 20:46 (UTC 0)
Ekki er ég sammála kollega mínum Arnbirni, jafnvel þótt ég hafi tekið stöðu hans þegar hann fluttist á vænlegri veiðilendur fyrir 24 árum eða svo, um það að opnir armar geti einungis komið til eftir skurðaðgerð eða slys. Opnir armar tákna arma sem út eru breiddir, opnaðir, og eru til merkis um að það sem tekið er opnum örmum sé hjartanlega velkomið. Fyrir þessari notkun er aldagömul hefð og viðurkenning. Nú þarf Arnbjörn svo sem ekki að taka mark á orðum mínum um þetta en þá má til dæmis benda á Stóru orðabókina sem Jón Hilmar Jónsson setti saman og kom út 2005. Þar stendur á bls. 860: Taka opnum örmum. Og sé ritstjóri orðabókar Háskólans ekki marktækur um málnotkun mundu fleiri krosstré falla.
Eiður skrifar:
13/04/2012 at 23:23 (UTC 0)
Eftir að hafa skoðað síðuna mundi ég ekki treysta þessu fyrirtæki til að þýða Gagn og gaman eða Litlu gulu hænuna. Þakka ábendinguna.
Eiður skrifar:
13/04/2012 at 23:20 (UTC 0)
Sammála.
Eiður skrifar:
13/04/2012 at 23:20 (UTC 0)
Rétt ábending, Þorvaldur.
Ingvi Þór Kormáksson skrifar:
13/04/2012 at 15:57 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Datt í hug að þú hefðir gaman að þessu…eða ekki.
Við rákumst á þessa vefsíðu rétt áðan. Hún er dálítið kostuleg varðandi mál og frágang, sérstaklega þegar litið er til þjónustunnar sem boðið er upp á.
http://www.blueglobetranslations.com/icelandic-translation-services.html
Með bestu kveðju,
Ingvi Þór Kormáksson og Einar Ólafsson
Arnbjörn skrifar:
13/04/2012 at 12:03 (UTC 0)
Betur fer á því að einhverjum sé tekið tveim höndum en ‘opnum örmum’. ‘Skurðaðgerð eða slys þarf til þess að opna arma. ‘Annaðhvort … eða’ skal rita svo.
Þorvaldur S skrifar:
13/04/2012 at 10:46 (UTC 0)
Hefði ekki jafnvel verið enn eðlilegra að segja að íbúðum hefði fjölgað? „Aukning húsnæðis“ hefur merkinguna „stækkun þess húsnæðis sem fyrir er“ í mínum huga.