Bæði borgarfulltrúi og blaðamaður sem ræddu fréttir liðinnar viku í Kastljósi létu sig hafa að tala um að „loka dílnum“. Þetta er íslensk afbökun á ensku orðtaki “ to close the deal“. Ekki boðlegt tungutak hjá fólki sem vill vera marktækt.
Kastljósið verður daufara og daufara, eða þynnra og þynnra. Umræðan um fréttir vikunnar var slöpp og það sem á eftir kom var mest kjánaskapur. Kastljós er ekki lengur fréttaskýringaþáttur sem hægt er að taka alvarlega , þótt góðir sprettir séu enn öðru hverju. Þeir eru hinsvegar of fáir og of langt á milli. Kastljós þarf að ganga í endurnýjun lífdaga.
Í íþróttafréttum RÚV sjónvarps var sagt að Hamborgarar hefðu „snúið leiknum við“. Væntanlega var átt við að Hamborgurum hefði tekist að snúa leiknum sér í hag. Aftur er enskan hér í bakgrunni. Á ensku er ekkert að því að tala um „to turn the game around“. Það er hinsvegar ekki íslenskulegt orðalag.
Eyjubloggari skrifar í dag : „Klíkurnar hafa barist á banaspjót..“ Það er talað um að berast á banaspjót — að berjast. Þarna hefði átt að standa Klíkurnar hafa borist á banaspjót. Sami bloggari skrifar: “ Það hefur reynst þrautinni þyngri…“ Þarna ætti að standa þrautin þyngri eða þrautinni þyngra eftir minni máltilfinningu, en þetta er skrifað fjarri mínum góðu handbókum eins og Merg málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson svo vera má að þessi skoðun mín orki tvímælis.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Steini Briem skrifar:
07/03/2009 at 17:47 (UTC 0)
„Áhafnarmeðlimur“ er della. Fólk getur til dæmis verið í áhöfn skips eða flugvélar, félagar í stjórnmálaflokki eða skipverjar á togara.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
07/03/2009 at 17:18 (UTC 0)
Sæll. Mér finnst gaman að lesa pistlana þína. Hvort þeir bera einhvern annan árangur en að skemmta okkur, sem erum sammála þér, veit ég ekki.
Steini Briem skrifar:
07/03/2009 at 01:36 (UTC 0)
Eitthvað er þrautin þyngri. – Þekkt orðatiltæki frá síðari hluta 17. aldar.