Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði. Þetta mættu menn á Stöð tvö hafa í huga þegar Damaskus kemur við sögu í fréttum. Framburðurinn er ‘damaskus, ekki da’ maskus eins og sagt var í fréttum (21.07.2012). Það er enskur framburður að flytja áhersluna á annað atkvæði.
Lesandi sendi eftirfarandi (22.07.2012)vegna fréttar á dv.is : ,,Þessa fyrirsögn skil ég ekki með nokkru móti:
,,Öðrum sjúkdóminum til að verða útrýmt“
(http://www.dv.is/frettir/2012/7/21/annar-sjukdomurinn-til-ad-verda-utrymdur/)
Taktu líka eftir orðalaginu í vefslóðinni: annar-sjukdomurinn-til-ad-verda-utrymdur!” Þetta er verra en slæmt, ef þannig má að orði komast, bætir Molaskrifari við !
Af mbl.is (22.07.2012): Upp úr miðnætti voru höfð afskipti af aðila sem var að reykja kannabis en lögregla hafði runnið á lyktina. Þeir eru viðsjárverðir þessir aðilar og koma ótrúlega oft við sögu í lögreglufréttum!
Heldur slæm ambaga var í fyrstu setningu í fyrstu frétt í sjöfréttum Ríkisútvarps að morgni sunnudags (22.07.2012). Þegar Molaskrifari ætlaði að sannreyna þetta, eins og hann oftast gerir með því að hlusta á fréttina á vefnum, var búið að klippa amböguna framan af fréttinni! Frekar frumstæð aðferð við að laga misfellu í málfari. Orðalagið, ambagan, hafði svo verið lagfært í fréttatímanum klukkan átta. .
Ásthildur Cesil Þórðardóttir skrifar á bloggi sínu (22.07.2012): Þóra Arnórsdóttir ákvað að fara í framboð, og það var flestum ljóst að undirbúningurinn að því framboði var runninn undan fólki í Samfylkingunni,- runnin undan fólki!!! Hér hefði bloggari átt að segja, kominn frá fólki, eða runninn undan rifjum fólks. Þótt sú fullyrðing Morgunblaðsins og stuðningsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar sé raunar áreiðanlega röng.
Stundum eru þættir í útvarpi sem færu ákaflega vel sem sjónvarpsþættir. Þannig er til dæmis um þáttinn Góður matur – gott líf sem Molaskrifari heyrði endurfluttan á Rás eitt aðfaranótt sunnudags. Þar var fjallað um notkun íslenskra villijurta við matreiðslu. Prýðilega vel framsett og áheyrilegt hjá umsjónarmönnum. þeim Ingu Elsu Bergþórsdóttur og Gísla Agli Hrafnssyni . Hefði sómt sér vel í sjónvarpi, – raunar miklu betur en amerísk-íslenski matreiðsluþátturinn sem Ríkissjónvarpið sýnir okkur nú vikulega. Sá sem þar eldar er ekki jafn vel máli farinn og hann er flinkur við eldamennskuna.
Undarlega að orði komist í frétt á dv.is (23.07.2012): Ökumaðurinn var að sinna börnunum þegar bifreiðin varð stjórnlaus og valt á veginum. Eðlilegra hefði verið að segja að ökumaður hafi misst stjórn á bifreiðinni þegar hann var að sinna börnum í bílnum. Þetta var lagfært í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins (24.07.2012)
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar