Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, 24.07.2012.
Allt er þegar þrennt er í Skálholti –
Lögbrot við kirkjuvegginn
Það þurfti þrjú bréf frá Ríkisendurskoðun til alþingismannsins Árna Johnsen til að fá þingmanninn til að fara að landslögum varðandi skil á bókhaldsgögnum frá svonefndu Þorláksbúðarfélagi. Félagið hefur staðið fyrir kofabyggingu við vegg dómkirkjunnar í Skálholti og fengið til verksins úr ríkissjóði 9,4 milljónir króna og 3,0 milljónir króna frá Kirkjuráði, en það fé kemur einnig frá íslenskum skattþegnum.
Samkvæmt lögum um bókhald nr. 145/1994 er Þorláksbúðarfélagið bókhaldsskylt ,,og skal jafnframt semja ársreikning fyrir hvert reikningsár innan sex mánaða frá lokum þess”. Þessi lög braut félagið.
Fyrst skrifaði Ríkisendurskoðun Árna Johnsen alþingismanni (sem kallar sig Þorláksbúðarfélagið) bréf 18. janúar 2012. Ekkert svar. Aftur skrifaði Ríkisendurskoðun þingmanninum 14. febrúar. Enn ekkert svar. Enn skrifaði Ríkisendurskoðun þingmanninum 26. mars og voru þá afrit send forseta Alþingis, fjárlaganefnd og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Allt er þegar þrennt er. Daginn eftir brást þingmaðurinn loks við og sagði að bókhald hefði ,,ekki verið fært vegna fjárskorts” , svo vitnað sé í bréf Ríkisendurskoðunar. Því verður ekki trúað að Ríkisendurskoðun eða Alþingi samþykki slíkan fyrislátt sem gott og gilt svar. Þá var þingmaðurinn búinn að fá á þrettándu milljón króna af fé almennings til óþurftarverksins.
Bréf Ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis hefur nú verið birt á vefnum og hlýtur forysta þingsins að bregðast við því.
Í bréfinu kemur fram að óendurskoðaðir ársreikningar hins svonefnda Þorláksbúðarfélags fyrir árin 2008, 2009, 2010 og 2911 hafi borist Ríkisendurskoðun 1. júní sl. Þar kemur einnig fram, svo vitnað sé í bréf Ríkisendurskoðunar: ,,Að sögn stjórnar félagsins á það einnig von á reikningum upp á ,,nokkrar milljónir” vegna þegar unninna verka”. Varla getur Ríkisendurskoðun tekið þetta sem fullgilt svar um fjárreiður félagsins og ráðstöfun fjármuna almennings. Það kemur leikmanni á óvart að Ríkisendurskoðun skuli leggja áherslu á að bókhaldskönnun gefi ekki tilefni til athugasemda. Leikmaður hefði einmitt haldið að þegar skrifa þarf þrjú bréf til að fá forráðamenn Þorláksbúðarfélagsins til að fara að lögum og síðan kemur fram að félagið skuldar ,,nokkrar milljónir” sem hvergi koma fram í bókhaldinu að þá gæfi það tilefni til sérstakra athugasemda. Þetta mat Ríkisendurskoðunar kemur á óvart.
Í bókhaldi félagsins kemur fram að ,,aðrir” styrktu félagið um eina milljón króna árið 2010. Mikið var fjallað um það í fréttum á liðnu sumri er Eimskip styrkti alþingsmanninn Árna Johnsen í undarlegum grjótflutningum til Vestmannaeyja þar sem honum tókst ágætlega að hafa fjölmiðla að fíflum. Sá sem þetta skrifar hefur heimildir fyrir því að Eimskip hafi styrkt byggingu Þorláksbúðar um eina milljón króna. Hvað segja eigendur Eimskips um það? Kannski voru þeir ekki spurðir. Hjá Eimskip fást þær upplýsingar einar að ,,það sé stefna Eimskips að gera ekki grein fyrir styrkjum til einstaklinga”. Það var og, – en Þorláksbúðarfélagið er ekki einstaklingur. Það kallar sig að minnsta kosti félag. Hversvegna ætti Eimskip ekki að viðurkenna að hafa styrkt Þorláksbúðarfélagið eða einstaklinginn Árna Johnsen um eina milljón króna? Er hér gömul launhyggja eða alkunn íslensk frændhygli á ferð?
Tvívegis hefur Vilhjálmur Bjarnason lektor í blaðagreinum ( fyrst 30. nóvember og svo 28. apríl 2012) beint 27 spurningum til Þorláksbúðarfélagsins, Árna Johnsen. Viðbrögð hins þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi Íslendinga við spurningum Vilhjálms eru: ,,Ég hef ekkert við Vilhjálm Bjarnason að segja”. (Sjá mbl. is 04.05.2012 )Almenningi kemur ekkert við hvernig þingmaðurinn ráðstafar fjármunum almennings!
Nú hefur sannast það sem fyrr var sagt. Kofinn við kirkjuvegginn er byggður á brotnum reglum og ósannindum. Byggingarleyfi var þá fyrst gefið út þegar kofinn var risinn af grunni. Byggingarleyfið byggðist á deiliskipulagi sem ekki var til og þessvegna er öll þessi framkvæmd lögleysa og með ólíkindum hvernig embættismenn í stjórnsýslunni hafa verið blekktir hver um annan þveran til þess að leyfa kofabyggingu ofan á friðlýstum fornminjum .
Það er aðeins ein leið fyrir kirkjuna til að rétta sinn hlut í þessu leiðindamáli og komast frá þessu því með sæmilegum sóma. Hún er að láta flytja kofann á minna áberandi stað í Skálholti. Það þarf að gerast sem fyrst. Lögbrot eiga ekki og mega ekki líðast við kirkjuvegginn í Skálholti. Brýnt er að friða Skálholtsstað fyrir frekari skemmdarverkum af þessu tagi í framtíðinni.
Eiður Svanberg Guðnason
Höfundur er áhugamaður um framtíð og velferð Skálholtsstaðar.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
25/07/2012 at 21:43 (UTC 0)
Habbðu heill mælt! Og þótt meira yrði. Þetta ráðslag þarna er með ólíkindum.