Óvenju margar misfellur voru á málfari í fréttum Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (22.07.2012). Hér eru nokkur dæmi:
Mjög litlar rannsóknir hafa verið gerðar um þetta krabbamein. Betra: Þetta krabbamein hefur mjög lítið verið rannsakað.
Aldrei hafa fleiri leitað hælis hér á landi og í sumar. Betra: Aldrei hafa fleiri leitað hælis hér á en í sumar. Eða: Aldrei hafa jafnmargir leitað hælis hér á landi og í sumar.
Þetta flykki liggur nú við höfnina (um stórt lystiskip sem kom til Ísafjarðar). Betra: Þetta stóra skip liggur nú við bryggju á Ísafirði.
Þó að vinnudaginn hafi stytt mjög eftir hrun. Betra: Þó að vinnudagurinn hafi styst mjög eftir hrun. – Líklega hefði verið hægt að hafa listann lengri. Þessi dæmi bera ekki vott um mikla vandvirkni eða góða máltilfinningu.
Molalesandi benti á fyrirsögn á fréttavefnum visir.is (22.07.2012): Mannfall í Peking, og segir: ,,Ég hélt að mannfall yrði aðeins í átökum, stríði og byltingum en ekki í rigningu?’’. Í fréttinni segir svo: ,,Að minnsta kosti tíu hafa látist í Peking og rúmlega 50 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín í kjölfar mikilla rigninga og flóða í dag. Er þetta mesta vatnsveður á svæðinu í rúmlega 60 ár.”
Enn fremur segir í fréttinni að flugum hafi verið frestað! Þá hefur í fréttum verið talað um votviðri í Peking. Kannski hefði verið eðlilegra að tala um vatnsveður sem er gamalt og gott orð. Úrkoma og flóð í Peking voru meiri en svo að rétt væri að tala um votviðri.
Úr frétt af mbl.is (23.07.2012): .. en sá var með ígildi e.k. stunguvopns í vasanum. Hér hefði alveg nægt að segja að hann hafi verið með stunguvopn í vasanum. Ígildi stunguvopns er stunguvopn.
Fyrir nokkru birti Stöð tvö viðtal við kotroskna stráklinga sem kallaðir voru hælisleitendur. Þeir hafa ítrekað gerst brotlegir við lög. Hrósuðu sér af því að ætla að halda áfram að brjóta lög til að komast sem fyrst í burt af Íslandi þar sem þeir fá uppihald, húsnæði og vasapeninga frá skattborgurum. Hversvegna er verið að biðja okkur að hafa sérstaka samúð með þessum gaurum?
Í skjátexta í fréttum Stöðvar tvö (23.07.2012) var sagt: Gistiheimili opnar á Bitru. Nú er það auðvitað svo að gistiheimili opnar hvorki eitt né neitt. Gistiheimilið verður opnað. Svo veltir Molaskrifari því fyrir sér hvort ekki sé fremur málvenja á Suðurlandi að segja í Bitru fremur en á Bitru. Hvað segja lesendur sem til þekkja?
Það sakaði ekki fyrir fréttamenn Stöðvar tvö að hlusta á sexfréttir Ríkisútvarpsins. Ef þeir hefðu gert það á mánudagskvöld (23.07.2012) þá hefði fréttin um austurríska parið sem verið var að svipast um orðið á annan veg! Og ef þeir hefði lesið blöðin sæmilega hefði komið fram í fréttinni um fyrirhugaða vínsölu í matsal Hrafnistu að ekki er hægt að veita vínveitingaleyfi þar vegna ákvæðis í skipulagsreglum Reykjavíkurborgar.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins þarf svolítið athuga sinn gang. Kvöldfréttir sjónvarpsins eru æ meira að breytast í myndskreytta samantekt á útvarpsfréttum dagsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Valur skrifar:
26/07/2012 at 15:58 (UTC 0)
„Betra: Aldrei hafa fleiri leitað hælis hér á en í sumar.“
Hér á hverju? Önnur ábending um fljótfærnisleg og óvönduð vinnubrögð molaskrifara.
Er ekki lágmark að lesa yfir áður en maður birtir á vefnum ?
Eiður skrifar:
26/07/2012 at 09:21 (UTC 0)
Hjartanlega sammála.
Konráð Erlendsson skrifar:
25/07/2012 at 21:48 (UTC 0)
Af vef Morgunblaðsins 25.7.:
,,Konan sem slasaðist á fæti á gönguleiðinni milli Reykjahlíðar og Kröflu er komin í björgunarsveitarbíl sem mun flytja hana á Heilsugæsluna á Mývatni.“
Fátt gerist orðið við Mývatn eða í Mývatnssveit, allt er það komið út á vatnið, meira að segja heilsugæslan. Ferðamenn eru allir á leið á Mývatn o.s.frv.. Þetta finnst okkur Þingeyingum fráleitur talsmáti.
Kveðjur, K.