«

»

Molar um málfar og miðla 966

Enn taka menn þátt á mótum í íþróttafréttum Stöðvar tvö (24.07.2012). Málvenja er að tala um að taka þátt í einhverju. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (27.07.2012) var enn einu sinni sagt frá ævintýramönnum sem kalla sig hælisleitendur og höfðu reynt að laumast um borð í skip í Sundahöfn. Sagt var að atburðurinn hefði gerst á Sundahöfn. Fyrirsögnin er: Hælisleitendur gripnir á Sundahöfn. Forsetningin á er í greinilegri sókn.

Kórinn er víðförull og fer erlendis nánast árlega. Þannig er komist að orði á fréttavef Ríkisútvarpsins (24.07.2012). Betra hefði verið að segja: Kórinn er víðförull og fer utan nánast árlega. Meðan Hamrahlíðarkórinn er á Ítalíu er hann erlendis.

Fram kom í fréttum Ríkissjónvarps (24.07.2012) að nýtt geislalækningatæki kostar sem nemur nær öllum fjárveitingum til tækjakaupa á Landspítalanum í tvö ár. Í ljósi þess var dálítið undarlegt að heyra velferðarráðherra segja að Landspítalamenn yrðu að forgangsraða þegar kæmi að tækjakaupum. Stjórnendur og starfsfólk Landspítalans hafa unnið kraftaverk við að aðlaga rekstur spítalans óvægnum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (25.07.2012) var sagt frá veiðibáti , sem orðið hefði vélarvana 80 mílur út af Breiðafirði. Hvað er veiðibátur? Hlustendur voru litlu nær. Í sömu frétt var talað um björgunarskip Landhelgisgæslunnar. Hvaða skip var það? Varðskip? Á fréttavefnum visir.is kemur reyndar fram að þetta var björgunarskip Landsbjargar frá Rifi á Snæfellsnesi, – en ekkert af skipum Landhelgisgæslunnar. Hér skorti því nokkuð á nákvæmni.

Kannski er Molaskrifari dálítið gamaldags, en honum finnst það orka tvímælis þegar dagskrárgerðarmenn/fréttamenn Ríkissjónvarpsins eru rífandi kjaft um allt milli himins og jarðar á fésbókinni og draga ekki úr stóryrðunum. Það er erfitt að líta á þá sem hlutlæga, alvöru spyrla, ef þeir taka sömu mál til umfjöllunar í þáttum sínum.
Skrifað er á Pressan.is (25.07.2012): Sautján ára stúlka sem nafngreindi menn sem nauðguðu henni líklega refsað. Stúlka verður ekki refsað. Stúlku verður líklega refsað.
Í fréttum Stöðvar tvö (25.07.2012) var talað um úrskurð Hæstaréttar á kröfu öryrkja. Molaskrifari hallast að því að fremur hefði átt að tala um úrskurð Hæstaréttar varðandi kröfu öryrkja.
Talað var um í sexfréttum Ríkisútvarpsins (25.07.2012) að lækka hraðakstur í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Eðlilegra hefði verið að tala um að draga úr hraðakstri.
Molaskrifari minnist þess varla eða ekki að hafa heyrt málvillur hjá þulum Ríkisútvarpsins sem eru prýðilega starfi sínu vaxnir. En þetta er að breytast. Á miðvikudag (25.07.2012) sagði nýr þulur sem var að kynna kvölddagskrá rétt fyrir sexfréttir að svo væri komið að Stefnumóti Svanhildar Jakobsdóttir. Ekki boðlegt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rangt.

  2. Magnús Magnússon skrifar:

    Hef hlustað á það sem viðkomandi þulur sagði eftir að hann kom á vakt og í eina skiptið sem minnst er á Stefnumót er rétt fyrir tilkynningalestur og Spegilskynningu klukkan 18.

    Þar segir þulur „dóttur“ ekki dóttir og hananú!

  3. Eiður skrifar:

    Nei, Magnús. Ekki í það skipti sem ég heyrði þetta. Við vorum raunar þrjú sem vorum að hlusta á útvarpið og hrukkum við. Það getur vel verið að hún hafi haft þetta rétt í eitthvert annað skipti. Ekki þegar ég heyrði kynninguna. Alveg á hreinu.

  4. Magnús Magnússon skrifar:

    Þulurinn sagði skýrt „svo væri komið að Stefnumóti Svanhildar Jakobsdóttur“ ekki dóttir!

  5. Eiður skrifar:

    Svo eru menn alltaf að taka þátt. Heyrist æ oftar.

  6. Eiður skrifar:

    Nú stend ég á gati, Stefán !

  7. Kristján skrifar:

    „Enn taka menn þátt á mótum í íþróttafréttum Stöðvar tvö (24.07.2012). Málvenja er að tala um að taka þátt í einhverju“.
    Einmitt. Sögnin „að keppa“ sést og heyrist æ sjaldnar þótt keppnir fari ennþá fram.

    „Sigraði mótið og sigruðu leikinn“. Sögnin „að vinna“ virðist vera á undanhaldi. Samt ætti það að auðvelda þeim sem fjalla um íþróttir (ekkert í né á).

  8. stefán benediktsson skrifar:

    Hvaða skilning leggja menn í að bifreið (Nissan Micra) sé „í fallegum stellingum“?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>