Skrifað er á dv.is (25.07.2012): Þá lýsir leiðarahöfundur yfir áhyggjum af því að laumufarþegarnir af gistiheimilinu Fit hafi valdið Icelandair og öðrum hlutaðeigandi aðilum álitshnekkjum og kostnaði. Álitshnekkir er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Ekki frekar en kostnaður.
Víða hafa eldri íbúðarhús fengið nýtt hlutverk, stendur í myndatexta í fylgiriti Morgunblaðsins (26.07.2012). Eldri en hvað. Hversvegna ekki segja: Víða hafa gömul hús fengið nýtt hlutverk ?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (26.07.2012) var talað um að mæta skilyrðum. Betra hefði verið: Að uppfylla skilyrði. Í íþróttafréttum í sama fréttatíma sagði fréttamaður: … ekki er útséð um þátttöku hennar í þeim greinum sem hún einbeitir sér engu að síður fyrir. Talað er um að einbeita sér að einhverju, ekki fyrir einhverju.
Fréttin um ofurlaun útvarpsstjóra ( að minnsta kosti miðað við aðra launamenn hjá ríkinu) , sem mbl.is birti (26.07.2012) virðist ekki hafa ratað inn á fréttavef Ríkiútvarpsins eða í fréttir þeirrar ágætu stofnunar. Enda kemur fólki þetta ekkert við.
Hér er fréttin af mbl.is http://mbl.is/frettir/innlent/2012/07/26/utvarpsstjori_med_1_449_thusund_2/
Sagt var í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (26.07.2012): Eins og endranær er mikil spenna fyrir setningarathöfninni. Hér hefði mátt segja að mikil eftirvænting ríkti. Um David Beckham var sagt í sama fréttatíma: … og hann mun spila spila rullu við setningarathöfnina annað kvöld. Eða eins og við segjum á dönsku. Han vil spille en rolle … Hálf hallæislegt. Hann hefur hlutverki að gegna við setningarathöfnina.
Umhverfisráðherra segir á forsíðu Fréttablaðsins að orkumálstjóri sýni rammaáætlun (um nýtingu virkjunarkosta og jarðvarma) léttúð (26.07.2012). Molaskrifara finnst það hinsvegar meiri léttúð , þegar vísindalega og samviskusamlega unnin rammaáætlun verður fórnarlamb pólitískra hrossakaupa VG og Samfylkingar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
29/07/2012 at 20:17 (UTC 0)
Rétt er það, Bergsteinn. Það má ekki tala um gamla fólkið.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
29/07/2012 at 17:55 (UTC 0)
Einatt er talað um eldri borgara án þess að ástæða sé til að tiltaka eldra en hvað.
Valur skrifar:
29/07/2012 at 16:07 (UTC 0)
„virðist ekki hafa ratað inn á fréttavef Ríkiútvarpsins“
Hvað er Ríkiútvarpið ?
„Eldri en hvað. Hversvegna ekki segja“
Einhver hefði nú sagt hvers vegna.
„og hann mun spila spila rullu við setningarathöfnina annað kvöld“
Er ekki nóg að segja spila einu sinni ?