«

»

Molar um málfar XX

Af  Vefvísi í dag:  „….en bætir við að Sniglarnir einbeiti sér núna frekar að 25 ára afmæli samtakanna sem verða haldinn 1. apríl næstkomandi.” Molaskrifara er algjörlega  fyrirmunað að skilja hvernig  svona villa  verður  til. „..  25 ára afmæli sem verða haldinn”. Ljóst er að  sá sem þetta skrifaði   er  betur fallinn til annarra starfa  en að  skrifa  fréttir.

 

Frumleiki í fyrirtækjanafngiftum er með ólíkindum. Þar eru sannkallaðir  snillingar að verki. Nú er hvert   fyrirtækið af öðru sett á  laggirnar og gefið  enska  nafnið  „outlet”. Í  auglýsingu  í  Fréttablaðinu í  dag er bætt um betur þar er  auglýsingu frá  fyrirtæki sem  kallar  sig „Outlet Center”. Þetta er  stórmerkilegt  fyrirtæki  því það  býður upp á  „valdnar vörur”, en þar  er líklega átt við valdar  vörur. Á öðrum stað í þessu sama blaði   er  önnur  auglýsing  þar sem  sagt er  frá  opnun nýrrar verslunar. Hvað heitir  hún? „Outlet Laugavegur  94”.  Ekki Laugavegi, heldur Laugavegur ! Þetta er dásamleg hugmyndaauðgi.  Mér finnst eiginlega að  viðkomandi ættu að skammast  sín.

 

Enn um   auglýsingar: Í Morgunblaðinu   er auglýsing frá   veitingastað sem heitir Gullfoss. Fallegt nafn og  íslenskt.  Aðstandendur  sjá hinsvegar ekki ástæðu  til að beygja nafnið í auglýsingunni, því  þar stendur  stórum  stöfum: „Maturinn á Gullfoss á að vera upplifun”.  Þarna  sést  ört  vaxandi tilhneiging  til að  beygja  ekki  fyrirtækjanöfn.  Í auglýsingunni ætti  auðvitað  að standa: Maturinn á  Gullfossi  á að vera upplifun. En það er ekki allt    búið.  Í stuttum   texta   er þessi  gullkorn    finna:  „.. í einu af fallegustu og virðulegustu byggingum Íslands,..” og  „… ásamt nafni  gamla flaggskipi Íslands …”. ýmislegt fleira í textanum orkar  tvímælis þótt kannski sé það ekki  rangt.

 

  Þetta er hreint óvenjulegur málfarslegur subbuskapur og  ekki veit ég hvort þeim sem  ekki  geta  komið  saman    einföldum   texta án þess að  misþyrma móðurmálinu, er treystandi til að  elda  ætan mat. Ég hef mínar efasemdir um það.

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Ég held ég fari rétt með það að Pálmi heitinn í Hagkaupi hafi viljað hafa nafnið í eintölu en síðan hafi því verið breytt. Þetta getur stundum verið vandamál og þá þarf að ákveða hvernig með skuli farið. Bendi t.d. á skip, Eimskip og Samskip (Eimskipi eða Eimskipum). Annars er íslenskan ekki einfalt mál.

  2. Eiður skrifar:

    Orðið kaup er venjulega í fleirtölu. Þessvegna  finnst mér  persónulega rétt að nota fleirtöluna varðandi  Fjarðakaup og Hagkaup. Veit  reyndar ekki hvað fyrirtækin  gera.

  3. doddý skrifar:

    ég er sammála þér, þetta er hræðilegur texti.

    er rétt að segja að vara fáist í hagkaupum (fjarðarkaupum)? fjarðarkaup er ein verslun en hagkaup er verslunarkeðja. hvort er rétt? kv d

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>