«

»

Molar um málfar XXIII

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá Árnamessu þar sem menn „Minntust 95 ára árstíðar Árna Helgasonar í Stykkishólmi“. Hér er sitthvað málum blandið. Í fyrsta lagi er árstíð hluti úr árinu, vetur,sumar vor eða haust. Skrifari ætlaði sennilega að nota orðið ártíð, en það er rangt orð í þessu tilviki. Ártíð er dánarafmæli eða sá tími sem er liðinn frá láti manns. Í Stykkishólmi var hinsvegar verið að minnast þess að Árni Helgason, póstmeistari, bindindisfrömuður , fréttaritari og gamanvísnahöfundur og sitthvað fleira hefði orðið 95 ára, á laugardaginn var, ef honum hefði enst aldur. Árni var fæddur 14.mars 1914. Hann lést 27. febrúar 2008. Það er því enn langt í 95. ártíð hans.

   Það var ánægjulegt að hitta Árna  vin minn í Færeyjum síðsumars eða haustið 2007 er hann var þar á ferð með Lionsmönnum úr Hólminum. Hann var þá  eldhress. Við fórum í  bíltúr um bæinn og nágrenni . Heimkominn  sendi hann mér   elskulegt bréf og  geisladisk með  gamanvísum  sem   teknar voru upp  árið  2004 er hann  stóð á  níræðu. Það eru hreint engin ellimörk á þeirri upptöku.

En þetta með  rétta notkun  á orðinu ártíð hefur  verið  fjölmiðlamönnum erfitt svo lengi sem  ég man, en  aldrei hef  ég séð því ruglað  saman við árstíð  fyrr en nú. Ártíð var eitt  af  þeim orðum sem  Emil Björnsson  fyrsti fréttastjóri   Sjónvarpsins lagði   ríka áherslu á að  við notuðum rétt,sem þá  störfuðum á fréttastofunni. Sjónvarpið  sagði frá  Árnamessu í fréttum í kvöld  og féll ekki í ártíðargryfjuna.  Það hefði mátt nefna í fréttinni að Árni Helgason var fyrsti fréttaritari   Sjónvarpsins í Stykkishólmi og gegndi því  starfi  með miklum sóma. Stjórnendur frétta og fréttaauka í Sjónvarpi RÚV eru hinsvegar ekki mikið  fyrir að hampa nöfnum þeirra sem þar unnu  á upphafsárunum.

Á Vefmogga í dag er sagt frá því að fulltrúar í velferðarráði Bolungarvíkur hafi afsalað sér þóknun fyrir störf í ráðinu.Haft er eftir viðmælanda :„Þetta er hugsjón hjá fólki að vera í svona nefndum en ekki gróðrarvon“. Hér er ruglað saman orðunum gróður þar sem eignarfallið er gróðrar og gróði þar sem eignarfallið er gróða. Þarna á auðvitað að standa: ekki gróðavon.

Enn um málfar í íþróttafréttum og er þar af nægu að taka. Mjög algengt er að heyra talað um „að taka þátt á mótinu“. Mér finnst eðlilegra að tala um að taka þátt í móti, eins og við tölum um að taka þátt í mótmælum, en hinsvegar er ekkert að því að tala um að keppa á móti, á sundmóti eða frjálsíþróttamóti.

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Birgir Örn Birgisson skrifar:

    Heyr Heyr

  2. Eiður skrifar:

    Svolítil viðbót.  Eignarfall  af  gróður  getur auðvitað líka  verið  gróðurs, ekki  aðeins gróðrar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>