«

»

Molar um málfar XXII

Málblómin spretta vel á Vefvísi, sem er mikil amböguuppspretta. Þar mátti lesa eftirfarandi fyrirsögn í gær:„Opnaði verslun með notuðum barnafötum“. Aldrei hef ég heyrt að tekist hafi að opna eitt eða neitt með notuðum barnafötum. Algengast er líklega að nota lykla þegar verslanir eru opnaðar. En þeim sem samdi þessa fyrirsögn er fyrirmunað að kunna að nota sögnina að opna. Í fréttinni segir: „…..hugmynd að versluninni,sem opnaði að Bæjarhrauni í Hafnarfirði í dag.“ Hvað opnaði þessi verslun ? Það er látið ósagt. Enda opnaði þessi verslun ekki neitt. Hún var opnuð.

Meira af Vefvísi: „..segir í pistli á heimasíðu sinni að kjörsókn hafi verið afleidd“. Greinilegt er að annaðhvort þekkir skrifari ekki orðið afleit eða er ekki læs, – nema hvorttveggja sé. Á umræddri heimasíðu stendur nefnilega skýrt og skilmerkilega að kjörsókn hafi verið afleit.

Málblómin dafna víðar. Stundum finnst mér eins og viðvaningar fá mjög að spreyta sig á netmiðlunum um helgar. Það á ekki síst við um Vefmogga. Þar er í dag frétt um sprengingu í kolanámu í Bosníu. Sagt er að sprengingin hafi orðið í „kolanámi“. Eðlilegra væri að tala um kolanámu. Vel má þetta vera innsláttarvilla. Að vísu er orðið nám gamalt heiti yfir námu, sbr. hinn kunna reyfara eftir Rider Haggard „Námar Salómons konungs“. Í þessari frétt segir líka, að um sé að ræða „metangassprengju“. Hér ruglar skrifari saman orðunum sprengju og sprengingu. Sprenging verður þegar sprengja springur.

 Í íþróttafréttum    sjónvarps í kvöld bættist enn ein ambagan  við í anda  þess  að sigra  keppni ,sigra kosningar  eða  sigra leik. Í þetta  sinn var það að sigra  rall. Það  virðist erfitt að uppræta þennnan ósóma.

Talsvert var um fréttir af blaki í sjónvarpsfréttum kvöldsins. Til fróðleiks má geta þess að á færeysku heitir blak „flogbóltur“. Það orð bjó hinn orðhagi nýyrðasmiður Færeyinga Jóhan Hendrik W. Poulsen til árið 1975, þegar færeyskt lið var að fara til Íslands að keppa í þessari íþrótt. Hann hafði til hliðsjónar að fyrri hluti enska heitisins á blaki , volleyball, er skylt latnesku sögninni volare , – að fljúga. Þetta kemur fram í bókinni Mál í Mæti, greinasafni sem gefið var út á sjötugsafmæli Jóhans Hendriks árið 2004.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

     Sæll Jón Ármann Steinsson

    Þetta er nú  eiginlega  hálfgerður útúrsnúningur hjá þér, en  þrætubókarlist  er aðal okkar þjóðar og þú sverð þig í  ættina.

  2. jón ármann steinsson skrifar:

    Já, málvitundin er orðin „fleikí“ eins og það heitir á góðri ísl-ensku.

    Þú vitnar í þessa setningu á visi.is; „..segir í pistli á heimasíðu sinni að kjörsókn hafi verið afleidd“. Svo skrifar þú: „Greinilegt er að annaðhvort þekkir skrifari ekki orðið afleit eða er ekki læs, – nema hvorttveggja sé.“

    Þarna tel ég að þú sjálfur hafir slegið feilpúst. Þú hefðir betur orðað þessa setningu svona „….þekkir skrifari ekki orðið afleitt…“ því þú ert að tala um orðið sjálft en ekki beygingu þess eða kyn.

    M.ö.o. upphaflega setningin er rétt orðbeygð með „afleit“ en þín setning rétt með „afleitt“.

    Sem sagt það er afleitt að nota orðið „afleit“ í þessu samhengi. 

  3. Hilmar Gunnlaugsson skrifar:

    Eru þetta ekki innsláttarvillur t.d. „afleidd“? Það myndi ég halda.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>