Í dagskrárkynningu í RÚV var sagt að í tilteknum þætti yrði fjallað um Hays kóðann. Orðabókin mín segir, að kóði eða kóti sé forritunartexti ritaður á forritunarmáli. Það sem á ensku heitir Hays Code eru ekki forritunarreglur heldur umdeildar siðareglur, sem voru í gildi í bandaríska kvikmyndaiðnaðinum á árunum 1930 til 1968. Á ensku er orðið code notað um lagabálka, t.d. penal code , hegningarlög, eða um siðareglur, code of conduct. Það er röng málnotkun að kalla þessar gömlu bandarísku siðareglur kóða. Kóði er allt annað.
Sparisjóðurinn BYR hefur lengi angrað ýmsa með auglýsingabulli um „fjárhagslega heilsu“, það er að segja góða fjárhagsstöðu. Á íslensku er ekkert til sem heitir að vera við góða „fjárhagslega heilsu“. Þetta er aulaþýðing á ensku hugtaki. Nú hefur komið í ljós að sparisjóðurinn BYR tapaði 29 milljörðum í fyrra og biður íslenska skattgreiðendur, íslenska ríkið um aðstoð. Svo notuð séu þeirra eigin orð þá er sparisjóðurinn BYR afskaplega heilsulaus um þessar mundir svona „fjárhagslega séð“ eins og þeir mundu líklega sjálfir segja. Hvað skyldu þeir annars hafa sóað mörgum milljónum eða milljónatugum í þessar arfavitlausu auglýsingar ?
Sömu ambögurnar ganga sífellt aftur. Maður hnýtur um þær hvað eftir annað. Á dv.is í dag eru tvær gamalkunnar afturgöngur. Sú fyrri er : „..Vaka sigraði kosningar til ráðsins.“ Það sigrar enginn kosningar. Einstaklingar eða samtök sigra í kosningum eða vinna kosningar. Um þetta var fjallað í Molum um málfar XV. Hin ambagan er: „…rétt eftir að kjörstöðum lokar“. Formaður kjörstjórnar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík endurtók svo þessa ambögu í fréttum RÚV sjónvarps í kvöld. Þetta er rugl. Kjörstöðum lokar ekki frekar en verslunum lokar, þegar enginn er gerandinn. Rétt væri að segja: … rétt eftir lokun kjörstaða.Einnig mætti segja: Rétt eftir að kjörstöðum var lokað, eða rétt eftir að kosningum lauk. Fréttamanni RÚV tókst hinsvegar að hafa þetta rétt í fréttum klukkan 2200. Prik fyrir það.
Fréttamaður RÚV sjónvarps talaði í kvöld í frétt um prófkjör um tilfæringar á listum, en átti við tilfærslur. Tilfærsla er að færa eitthvað til, eða þegar eitthvað færist til. Tilfæringar eru hinsvegar útbúnaður, tæki eða umbúnaður. Í eintölunni þýðir orðið tilfæring , – aðflutningur, eitthvað sem kemur að notum eða sem hjálpar. Samkvæmt orðabókinni getur orðið einnig þýtt bardús eða staut.
Skildu eftir svar