Auk þess sem samsetning sjúklinganna hafi breyst, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (20.09.2012). Betra hefði verið að segja: Auk þess sem sjúklingahópurinn hafi breyst.
Það var gaman að hlusta á þá Árna Pál og Illuga í Silfri Egils (23.09.2012) . Sögðu báðir margt af skynsemi. Illugi gaf ekkert út á ummæli formanns síns að slíta ætti aðildarviðræðunum við ESB. Eitt er að hægja á viðræðum, gera hlé, formlegt eða óformlegt. Annað að slíta viðræðum og skella hurðum eins og formaður Sjálfstæðisflokksins vill að við gerum. Illugi tók ekki undir það. – Egill reyndi hvað eftir að leiða talið að blaðagrein eftir fjárfestinn Heiðar Má Guðjónsson, en enginn fékkst til að taka þann þráð upp. Athyglisverðasta efnið í Silfrinu var viðtalið við spænska blaðamanninn, Juan Pablo Cardenal, um umsvif Kínverja vítt og breitt í veröldinni á leiðinni til heimsyfirráða. Vonandi verður bók hans gefin út á Íslandi áður en langt um líður. Egill er ótrúlega naskur að finna áhugaverða erlenda gesti í Silfrið. Eftir langt viðtal á Rás eitt á sunnudagsmorgni átti Hörður Torfason hinsvegar nákvæmlega ekkert erindi í Silfrið til að segja afrekum sínum ímynduðum eða raunverulegum. Dálítið fáránlegt.
Margt var fróðlegt í seinni þætti Lísu Páls á Rás eitt (22.09.2012) Þegar hún flakkaði um Norðurmýri. Í þættinum var þó óþarflega mikið af gömlu efni,sem var á mörkum þess að eiga þangað erindi. Fengur var að hlýða á Pétur Ármannsson arkitekt með fróðleiksmola úr sögu Norðurmýrar og nágrennis. Líklega var það Litla bílastöðin (Litlabíl) sem hafði fyrst aðsetur á Hlemmi ekki Hreyfill. Litla bílastöðin var seinna sameinuð Hreyfli. Á æskuheimili Molaskrifara var aldrei talað um Hlemm, alltaf talað um að fara niður að vatnsþró. Ekki var þess getið í þættinum að eftir að Austurbæjarbíó tók til starfa var rekin bókbandsstofa þar sem seinna var skemmtistaðurinn Silfurtunglið og undanfari Austurbars á jarðhæðinni var Bíóbarinn, líklega fyrsti staðurinn á landinu þar sem hægt var að kaupa franskar kartöflur og fara með heim. Sölulaunin fyrir aukablöðin af Mogganum enduðu stundum þar. Ekki minnist Molaskrifari þess að herskálabyggð hafi verið á svæðinu þar sem leikvöllurinn er norðan við Njálsgötuna eisn og sagt var í þættinum. Braggar voru hinsvegar austan við leikvöllinn eins og fram kemur í bók Eggerts Þórs Bernharðssonar, Undir bárujárnsboga – Braggalíf í Reykjavík 1940 til 1970.Á planinu þar sem nú er bílastæði við Arionbanka voru 1947 eða 1948 teknir úr kössunum amerískir Studebaker (sem höfðu gælunafnið ,,stúddar”) bílar sem Egill Vilhjálmsson var með umboð fyrir. Rosalega flottir bílar, fannst Norðurmýarguttunum þá. Þá komu fólksbílar til landsins í trékössum. Kössum, sem voru eftirsóttir því timbrið var notað í húsbyggingar. Í byggingum Egils Vilhjálmssonar voru ekki bara settir saman Dodgebílar sem voru, að ég held, strandgóss úr skipi sem strandaði austur á Skaftafellsfjörum þar var líka byggt yfir strætisvagna og langferðabíla auk Willys jeppanna. Þar var smurstöð, málningarverkstæði, fullkomið renniverkstæði og mótorverkstæði auk varahlutaverslunar þar sem Molaskrifari keypti sitt fyrsta reiðhjól í félagi við yngri bróður sinn árið 1950 , ungverskt Csepel hjól . Afgreiðslumaðurinn hváði þegar 10 ára patti með sparifé beggja bræðranna í vasanum benti á hjólið og sagði: Ég ætla að fá þetta hjól! Þá kom hik á snáðann, sem spurði: Eru þetta ekki góð hjól? En takk fyrir þáttinn.
Í nýlegum Molum (1013) var spurt hvort verið gæti að einn af umsjónarmönnum Kastljóss, Ragnhildur Steinunn kæmi fram í Denver auglýsingu Icelandair. Ragnhildur Steinunn hefur svarað Molaskrifara í tölvupósti. Svarið er skýrt og skorinort. Nei. Hún er ekki í auglýsingu Icelandair. Takk fyrir það.
Hér á eftir fer á eftir kafli úr bréfi frá Ragnari Þorvaldssyni sem Molum barst fyrir nokkru Ragnar tíndi til málblóm sem hann kallar svo ágætlega hagalagða, sumt gamalt , annað nýrra: : 1. Rúv. 19.08.2002 Fréttir Kl. 12,20 ,,Vatnsborðið í ánni búið að hjaðna “
2. Stöð 2 Tíma vantar: ,,Ef ekki er þegar búið að stytta upp “
3. Rúv. 19.02. 2004 (Laufskálinn _ Internetið _ Þáttur um börn og tölvur) ,,Minnst í kringumhaldna fyrirbærið “
4.Rúv. 27.04. 2005 ( Kastljós _ þáttur um áfengi ) ,,Áttu þá við að ástandið sé búið að versna ? “
5. Rúv. 27.04. 2005 tími 2145 ,,Mikið af sjúkdómum”
6. Sami þáttur og tími ,,Draga úr sorpinu “
7. Ruv. 28.04.2005 ( Rætt um lífeyrissjóði),,Fólk er byrjað að lifa lengur “
8. Rúv. 01.12.2006,,Báturinn rak undan vindi “
Rás 1 03.05. 2007 ,,,Það er búinn að vera kominn tími á öldrunarmálin lengi ”
Molaskrifari þakkar Ragnar bréfið. Lokakafli þess verður birtur á næstunni.
Ágætir matreiðsluþættir Hrefnu Sætran í Ríkissjónvarpinu þurfa ekki á að halda bjór- og rauðvínsþambandi útvarpsmanni í dagskrárkynningu. Það bætir nákvæmlega engu við þættina að sjá mann troðfylla munninn af kjöti af grillinu. Og tala svo við áhorfendur! Ekki mjög geðfellt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar