«

»

Molar um málfar og miðla 1020

Í fréttum Ríkissjónvarps (26.09.2012) var sagt frá flóðum í Englandi og skemmdum af þeirra völdum. Sögð var hætta á því að fjölbýlishús hryndi … þar sem vatnselgur gróf undan grunninum. Hér hefði verið betra og skýrara að segja að vatnselgur hefði grafið undan undirstöðum hússins.

Ef til vill er það svolítill mælikvarði á efnahagsástandið að í sjónvarpi eru auglýstir (26.09.202) eldhúsrúllustandar á 10.400 krónur. Líklega má fá snotra standa sem gera sama gagn fyrir svona 500 krónur í IKEA eða Rúmfatalagernum. En þeir eru náttúrulega ekki frá honum Georg Jensen í kóngsins Kaupmannahöfn.

Í margendurteknum dagskrárauglýsingum um sjónvarpsþætti um fólk af íslenskum ættum og uppruna í Kanada og Bandaríkjum segir að allt sé þetta fólk stoltir Íslendingar. Þetta góða fólk er undantekningarlaust stolt af uppruna sínum , en fyrst og fremst er það Kanadamenn eða Bandaríkjamenn. Sumir eru meira að segja ekki hrifnir af nafngiftinni Vestur Íslendingar. Segjast vera Kanadamenn af íslenskum ættum. Molaskrifari átti heima í Winnipeg í hálft annað ár.
Af mbl.is (27.09.2012): Báturinn var skilinn eftir enda heftir myrkur athafnir á vatninu sem stendur. Dálítið undarlegt að tala um að myrkur hefti athafnir. Vegna myrkurs var ekki hægt að bjarga bátnum eða fjarlægja bátinn.
Í Útvarpi Sögu var á miðvikudegi (26.09.2012) var sagt í símaþætti Péturs Gunnlaugssonar að nafngreindur, þjóðkunnur sjónvarpsmaður hefði átt sæti á Alþingi. Það var rangt. Daginn eftir var sagt að David og Ed Milliband væru tvíburar. Það var rangt. Þeir eru bræður. Ekki tvíburar. Það er stundum farið frjálslega með staðreyndir í þessari útvarpsstöð. Það er slæmt, því einhverjir leggja vafalaust trúnað á eitthvað af því sem þar er sagt.
Molalesandi sendi þessa ábendingu (26.09.2012): ,,Þegar hafa á milli 600 og 700 manns forpantað iPhone-inn en fyrsta verk Epli.is verður að koma eintökum til þeirra þegar símtækin lenda hér á landi í næstu viku,“ segir í frétt hjá netmiðlinum Vísi. Þarna sé ég í fyrsta skipti sögnina að forpanta og fæ nettan hroll þegar ég sé að símtæki muni lenda hér á landi. Ekki verður sagt að þessi skrif séu til fyrirmyndar!

Í fréttum Ríkissjónvarps (27.09.2012) talaði borgarfulltrúi um að versla mat, betra hefði verið að tala um að kaupa mat. Í auglýsingu frá fiskbúð sem útvarpsstjóri Sögu les er talað um að versla fisk. Við kaupum fisk þar sem verslað er með fisk. Eitthvað skolaðist beyging á orðinu arkitekt til í fréttum Ríkisútvarps sama dag, þar var sagt að húsið væri hannað af arkitektnum, rétt hefði verið að segja , hannað af arkitektinum … Í frétt um flóttamann sem sendur var úr landi var nýlega sagt í útvarpsfréttum, að honum hefði verið flogið til Noregs. Þetta heldur hvimleiða orðalag heyrist stundum, – því miður. Maðurinn var sendur með flugvél til Noregs. Mönnum er ekki flogið. Í frétt um framkvæmdir austur á landi, tengdar Kárahnjúkavirkjun var sagt að vatninu væri rakað saman. Molaskrifari sér það verklag ekki alveg fyrir sér. Kannski eru Bakkabræður komnir til starfa eystra. Þannig verklag gæti alveg átt við þá.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hjartanlega sammála þér, Egill. Hef ákaflega litlar mætur á þessari sögn.

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég sé hér að þú minnist á „forpanta“ hér í síðasta mola þínum Sammála þér um það. En mikið fer í taugarnar á mér þegar það er talað um að „haldleggja“ eitthvað. Í síðustu viku var talað um að ákveðið magn af amfetamíni hefði verið haldlagt. Einnig hef ég heyrt að lögreglan hafi haldlagt vopn s.s.hnífa. Ég þoli ekki þessa „sögn að haldleggja“. Hvað finnst þér ?
    Kv, Egill Þorfinnsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>