«

»

Molar um málfar XXVI

Mjög þótti mér einkennilega til orða tekið í fréttum Stöðvar tvö í kvöld. Þar var fyrst sagt:„Gemlingarnir eru farnir að bera sín fyrstu lömb“, og seinna „ Gemlingurinn,sem bar lambið“. Ef um tvílembinga hefði verið að ræða hefði líklega verið sagt: „Gemlingurinn sem bar lömbin“. Mér var kennt að hér ætti að nota þágufall um afkvæmið og segja: „Gemlingurinn ,sem bar lambinu“.

Hér var fyrir nokkru (XIX) vikið að því sem ég kalla kækorð. Það kalla ég ofnotuð orð sem oft algjörlega að þarflausu er skotið inn í texta. Forvígismaður verkalýðssamtaka sagði í gær um umdeildar arðgreiðslur Granda:„..fer algerlega fyrir brjóstið okkur“. Sami maður sagði :„… hreinlega siðlaust“. Af hverju ekki bara siðlaust. „Löglegt en siðlaust“ . Hefði þessi meitlaða setning batnað, ef Vilmundur Gylfason hefði sagt:„Algerlega löglegt en hreinlega siðlaust“ . Öldungis ekki , enda var Vilmundur enginn bögubósi, – öðru nær.

    Í morgunútvarpi Rásar eitt í morgun var þátturinn Okkar  á milli. Þar ræddi umsjónarmaður við unga  konu   sem  búið hafði í Bandaríkjunum um árabil og  seinna  stundað nám í Danmörku.  Bæði spyrill og  viðmælandi  voru  einstaklega vel málin þannig að ég fór að leggja við  hlustir. Það  eina  var að ungan  konan  var  mjög  hrifin af orðinu „ofsalega“ og ofnotaði það. Annars  var þetta  fyrsta flokks  útvarpsefni á  vönduðu máli.

Ekki veit ég hver fyrstur notaði orðatiltækið „kortéri fyrir kosningar“. Gæti hafa verið Jón Baldvin. Það er ágætlega að orði komist. En þetta hættir að vera skemmtilegt þegar annarhver pólitíkus er farinn að tönnlast á því í tíma og ótíma.

Á Pressunni las ég :„Tryggingar taka hækkunum“. Af hverju ekki að segja : Tryggingar hækka. Þar var líka talað um „ eigin áhættur“ í fleirtölu. Kann því illa.

Moggabloggari talaði um „að bera hag flokks síns eitthvað fyrir brjósti“. Þarna er orðinu eitthvað ofaukið.

     Að lokum:  Umsjónarmaður  auglýsinga á  sjónvarpsstöðinni ÍNN ætti að kenna   auglýsingaþul að segja  súkkulaðikaka, ekki „súkklakaka“, eins og  dengt er yfir áheyrendur á hverju kvöldi. Á færeysku  heitir  reiðhjól nefnilega súkkla og mér  dettur alltaf  eitthvað  furðulegt í hug , þegar ég  heyri þennan   hallærislega framburð.

11 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. doddý skrifar:

    hugmynd um stjórnmálaflokk um íslenska tungu er frábær. það væri hægt að bjóða fram á hverju ári án tillits til annarra kosninga. kv d

  2. Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar:

    Þakka Ben. Ax. fyrir staðfestingu þess, sem ég hélt um gemlinga.

    Nú get ég sagt „Eins og mér finnst og rétt er“, þegar gemlingar berast í tal.

    Og sauðburður varla hafinn…

  3. Guðfinna Rúnarsdóttir skrifar:

    Ég sá þessa frétt í gær og þótti einkennilega að orði komist. Þakka þér fyrir að vekja máls á þessu. Ég er reyndar á þeirri skoðun að fallbeygingar séu á hröðu undanhaldi og vil sérstaklega benda á auglýsingar í þessu tilliti. ,,Útsalan er hafin í Harðviðarval,“ eða ,,Sérfræðingar í prjónaskap leiðbeina í Hagkaup.“  Heyrði þó  í gær, mér til mikillar ánægju, að verslunin ,,Lyf og Heilsa“ er nú farin að auglýsa vörur frá ,,Lyfjum og Heilsu,“ en fram til þess hafa þeir auglýst vörurnar frá ,,Lyf og Heilsu,“  sem mér hefur alltaf þótt undarlegt.  Einnig langar mig að benda á að orðið ,,fætur“ virðist   í auknum mæli flokkað sem kvk. orð í fleirtölu, þrátt fyrir að fótur sé enn í kk. eintölu. Þetta er orðið afar útbreytt og ekki alls fyrir löngu heyrði ég vel menntaðan mann á miðjum aldri segja í sjónvarpi: ,,…sem eiga þó að vera með báðar fæturnar á jörðinni.“ Hvernig hljómar þetta?  ,,Ærin bar lambið en steig óvart á fæturnar á bóndanum, sem var að koma úr Hagkaup.“

  4. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Gemlingur er veturgömul kind ,sem getur átt lömb, en í mínu ungdæmi voru aðeins þeir hraustustu látnir fá fang.

  5. Steini Briem skrifar:

    15.02.2009: „Það er gaman þegar vel gengur í kynbótastarfinu en stundum gengur bara ofvel… eins og við fengum að vita í dag þegar Gunnar í Sandfellshaga kom til okkar og „taldi“ í ánum.

    Við komum til með að fá 24 lömb úr 11 ám (þar af tveir gemlingar) og eru þrjár þrílembdar og annar gemlingurinn einlembdur en rest með tvö hver. Það er eiginlega svona fjórum lömbum of mikið því best er að hafa þær bara tvílembdar og gemsurnar litlu einlembdar.“

    Gemlingur, gemsi (gemsa) – veturgömul kind, kind á fyrsta vetri.

    Gemla
    – gamalær.

  6. Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar:

    Sé fyrir mér gemlinga rogast með nýborin lömb yfir túnin…

    Reyndar minnir mig að gemlingur sé heiti yfir veturgamalt lamb og er ekki viss hvort slík eru ekki of ung til að vera yfirleitt að bera lömb(um).   Vísa þeirri spurningu til þeirra, sem eru betur að sér um sauðburð en ég.

    Hvað sem öllum hugrenningatengslum líður, þá eru svona máfarsmolar algjörlega, hreinlega og tvímælalaust afar nauðsynlegir 

  7. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Af hverju stofnum við ekki stjórnmálaflokk um íslenska tungu?

  8. Bjarni Benedikt Gunnarsson skrifar:

    Þessir málfarssmolar þínir eru fábærir, misnotkun á okkar fallegu tungu er orðin svo útbreidd að manni stendur ekki á sama. Eða misnotkun, þetta er meira í ætt við níð.

    Sérstaklega finnst mér þó óþolandi það sem þú fjallar um í eldri pistli um erlend verslanaheiti. Það er mikil synd að verslunareigendur skuli heldur leita í enskri tungu að nöfnum á verslanir sínar, þegar við eigum hér eitt ríkasta tungumál í heimi.

  9. Bjarni Kjartansson skrifar:

    Sjá Guðs lambið sem ber burt synd mansins.

    Hinsvegar er lömbum borið.  Hér er enn merki þess, að lengist milli bændamenningar okkar og hinu daglega vafstri.

    Myndlíkingar sem nú eru notaðar, eru oft ekki nákvæmar og stundum afar klénar.

    Menn sjá nú sína sæng útbreidda.  Nú reiðir ekki nokkur maður sínar værðarvoðir né ábreiður.  Því eru þær sjaldan upp reiddar.

    Þakka þér afar skemmtilegar færslur og bera flestar vott um ást á því sem íslenskt er og er það gott.

    Ógott er hinsvegar þegar stjórnmálamenn þynna út og ,,gengisfella“ vísindi og skólun.  Sést nú glöggt, hve misráðið var, að minnka kröfur til Stúdentsprófs og í kjölfarið, aukið framboð ,,vísindagreina“ sem að líkum hefðu ekki verið taldar til slíkra greina fyrir ekki svo löngu síðan.

    Miðbæjaríhaldið

  10. Rebekka skrifar:

    Bera lömb = halda á þeim

    Bera lömbum = koma þeim í heiminn

    Einfalt en samt svo flókið!  Það kemur mér sífellt á óvart hversu margar af málvillunum sem þú bendir á eru beygingavillur. 

  11. doddý skrifar:

    sæll

    „korter í kosningar“ er það sama og þegar fólk talaði um tiltekin „bargest sem korter í þrjú mann/konu“. þá var viðkomandi að brenna úti með að fara heim af balli með hjásvæfu. tímasetningin á við um þegar ballstaðir og barir lokuðu kl 3 e miðnætti. mig minnir að tengingin við kosningar hafi nú komið frá útvarpsfréttamönnum bylgjunnar. kv d

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>