Enn eitt fyrirtækið auglýsir nú undir heitinu „outlet“. Fyrirtækið er til húsa á Fiskislóð Í Reykjavík og selur skó. Það auglýsir: „ Tveir fyrir einn á öllum skóm á tilboði“. Ekki get ég skilið það öðruvísi en ef ég kaupi einn skó þá fái ég tvo. – Hvílík kjarakaup ! ,,Outlet“ sýkin er bráðsmitandi því í dag auglýsa tvö fyrirtæki undir þessu hallærisnafni, þau eru við sömu götuna, Faxafen. Líklega er þetta einhver fenjapest.
„Ein stærsta kannabisræktun sögunnar“, sagði í þriggja dálka fyrirsögn Mogga í gær. Þarna hefði átt að standa mesta en ekki „stærsta“. Svo mætti líka gefa því gaum að þetta er örugglega ekki mesta kannabisræktun sögunnar, enda þótt það kunni að vera mesta kannabisræktun sem sögum fari af hér á landi. Það er annar handleggur. Svo segir Fréttablaðið okkur í dag: ,,Risavaxin Sony-auglýsing tekin á Íslandi“. Hér er átt við sjónvarpsauglýsingu , geri ég ráð fyrir, en mér er hulin ráðgáta hvernig hún getur verið risavaxin ! Í fréttum RÚV sjónvarps í kvöld talað um ,,stóra mótmælagöngu í París“, líklega hefur þá verið þar múgur og margmenni
Séð hef ég í fréttum að nú standi til að skipuleggja ferðir til útlanda til að stunda fjárhættuspil, nánar tiltekið póker. Er ekki einboðið að fararstjórar í þeim ferðum verði útrásarvíkingarnir, sem spilað hafa fjárhættuspil með peninga þjóðarinnar í útlöndum undanfarin ár? Þeir hafa reyndar allir spilað rassinn úr buxunum, ekki bara sínum , heldur líka okkar, en þannig er nú fjárhættuspil. Kannski mætti fá heiðursfararstjóra af Álftanesinu og aðstoðarfararstjóra úr pókerliði Framsóknarflokksins !
Á Vefdv stóð þessi setning í gær: „Árið 1989 eldaði hann mat ofan í George Bush þáverandi forseta Bandaríkjanna og faðir núverandi forseta“. Þarna ætti auðvitað að standa föður… ekki faðir og svo er Barack Obama núverandi forseti Bandaríkjanna. Ekki er vitað til þess að George Bush sé faðir hans. Það væri ekki vitlaust ef ritstjórn DV kannaði þegar blaðamenn eru ráðnir hvort þeir kunni að beygja ýmis algengustu orð móðurmálsins eins og faðir,móðir, bróðir og systir. Stundum er engu líkara en ekki sé lengur fjallað um beygingar þessara orða í grunnskólanámi á Íslandi.
Á Vefvísi mátti lesa: „… þegar Þorsteinn fór erlendis“. Það er ekkert til sem heitir að „fara erlendis“. Við förum til útlanda, við förum utan. Og við getum dvalist langdvölum erlendis. Seint lærist sumum að fara rétt með þetta.
Það er til marks um enskuvæðinguna að í Kastljósi í kvöld var áhorfendum, sem vildu fræðast um Hjálparstofnun kirkjunnar bent á vefsíðuna ,,help.is“. Þeim sem vilja fræðast um Akureyri er í sjónvarpsauglýsingum bent á vefinn´´visitakureyri.is“. Líklega er ég alveg laus við að hafa húmor því mér fannst dapurlegt hvernig Kastljós RÚV byrjaði með fíflagangi sem hélt síðan áfram með hallærisinnskotum út þáttinn þar sem verið var að vekja athygli á fjársöfnun í þágu góðs málstaðar.
Þessi pistill er skrifaður á fartölvu sem ekki þýðist beiðni mína um upphafsgæsalappir – alt0132. Kunningi benti mér á einfalda lausn, svo einfalda að hún er næstum brosleg. Slá bara inn tvær kommur! Það þýðir að vísu að ,,gæsalappirnar“ verða ekki alveg eins við upphaf og enda tilvitnunar, en það verður að hafa það.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Magnús Guðni Kuwahara Magnússon skrifar:
24/03/2009 at 14:49 (UTC 0)
„Risavaxin Sony-auglýsing“ – Mig grunar að sá sem skrifaði þetta hafi ekki ætlað að nota „risavaxin“ í bókstaflegum skilningi. Að segja að eitthvað sé risavaxið þarf ekki endilega að merkja að það sé stórt í fermetrum eða rúmmetrum talið. Þarna er frekar um myndmál um að ræða, þar sem tilstandið við myndatökuna eða eitthvað slíkt er myndhverft svo að því er ljáð eiginleikar lifandi veru. Óvenjuleg orðanotkunin er til að auka áhrifin, eins og tíðkast í skáldskap og blaðamennsku.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
21/03/2009 at 17:25 (UTC 0)
Þakka fyrir skemmtilegan og þarflegan pistil að venju. Hugsanlega eru menn frekar ráðnir til fréttamennsku sem eru fljótir að hlaupa en vegna íslenskukunnáttu. En miðað við allar ambögur þeirra virðist brýn þörf á prófarkalestri sem er víst að mestu aflagður á fjölmiðlum.
Benedikt skrifar:
21/03/2009 at 10:39 (UTC 0)
Takk fyrir afar skemmtilega pistla.
Hvað finnst þér annars um það þegar stjórnmálamenn, og fleiri, „taka umræðu“ um öll mál? Er ég sá eini sem læt þessa orðanotkun fara í taugarnar á mér?
Helga Kristjánsdóttir skrifar:
21/03/2009 at 04:22 (UTC 0)
Þetta var þörf ábending,áhugavert að lesa. Hafði afar gaman að læra íslensku hjá sr.Eiríki skólastjóra á Núpi í Dýrafirði,var mín uppáhalds námsgrein. Þótt ég sé farin að ryðga,særa einfaldar beygingarvillur fjölmiðlafólks mig. Prentvillur eru þó stundum orsök.