Nú hljóp á skaftið hjá Ríkisútvarpinu! http://www.ruv.is/frett/44-grindhvalir-gengu-a-land. (02.10.2012): Verulega hljóp á skaftið hjá eyjaskeggjum á eynni Savu í Indónesíu í gær þegar þar syntu á land 44 grindhvalir. Ja, hérna! Það hljóp heldur betur á snærið hjá mér þegar ég vann í happadrættinu. Þetta er úr sjómannamáli og snæri þýðir hér færi. Þegar hleypur á snærið fær fiskimaðurinn fisk, góðan drátt, happadrátt. Ógerlegt er að skilja hvernig afbökunin að e-ð hlaupi á skaftið hjá e-m er hugsuð. Líkast til er hún ekki hugsuð. En ef til vill má segja að það hafi hlaupið á axarskaftið hjá Ríkisútvarpinu í þessu tilviki.
Molalesandi sendi þetta (30.09.2012): ,,Oft hefur verið sagt um að fjölmiðlamenn séu uppteknir af þeim sjálfum. Það sést kannski hvað best í þessari ,,frétt“.
http://www.visir.is/utvarpsstjarna-eignast-son/article/2012120939958
Ég dreg það stórlega í efa að meirihluti þjóðarinnar á fullorðinsaldri viti hver þessi annars ábyggilega ágæti maður er. En hjá Vísi er hann útvarpsstjarna. Hvað þarf maður að gera til að fá þann titil?” Ekki getur Molaskrifari svarað því. Þetta er álíka kjánalegt og þegar Ríkissjónvarpið í dagskrárkynningu kallar nýliða á þeim vettvangi ,,hinn ástsæla útvarpsmann”. Þarna er sami bjánagangurinn á ferð. Í íslenskum málheimi er oflof háð.
Svona sagði mbl.is (01.10.2012) lesendum sínum frá bíl sem rann ofan í Jökulsárlón: Fólksbifreið sem hafnaði í Jökulsárlóni í gær er enn ófundin og að sögn lögreglu er óvíst hvort og þá hvenær hún komist aftur undir dagsins ljós. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/01/flaut_eins_og_korktappi_i_loninu/
Undir dagsins ljós!
Í DV (01.10.2012) er fjallað um tilraun hóps til að ná völdum í stjórn Neytendasamtakanna. Tilraunin mistókst. Erfitt er að lesa frétt DV án þess að álykta að fyrirtækið Fjölskylduhjálpin hafi tengst þessari tilraun til að koma núverandi stjórn Neytendasamtakanna frá, með einum eða öðrum hætti , eins þjóðhöfðinginn segir alltaf við fjölmiðla.. Einn maður greiddi félagsgjöld fyrir 30 manns á einu bretti, eins og sagt er. DV lætur að því liggja að Fjölskylduhjálpin hafi komið að greiðslu félagsgjaldanna. Varla getur það verið, eða hvað?
Lesandi sem stundum gaukar ábendingum að Molaskrifara sendi þetta (01.10.2012): ,,Mótherji Gunnars var Bandaríkjamaðurinn DaMarques Johnson og var Gunnar ekki lengi að innbyrða sigur, því hann sigraði hann strax í fyrstu lotu,“ sagði í frétt á mbl.is
Hvers vegna mátti Gunnar ekki láta sér duga að sigra í fyrstu lotu? Hvað þarf að þvæla sögninni að innbyrða í þennan stutta texta.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Sögnin að innbyrða á þarna ekkert erindi. Rétt er það.
Í yfirliti kvöldfrétta Ríkisútvarpsins (30.09.2012) var sagt: Aríonbanki lét taka nokkur hundruð miða á tónleika Berlínarfilharmóníunnar frá fyrir viðskiptavini sína áður en almenn miðasala hófst. Í fréttinni kom í ljós að Aríonbanki er aðalstyrktar aðili þessara tónleika. og viðskiptavinum í svokallaðri vildarþjónustu var gefinn kostur á að kaupa tiltekinn fjölda miða á tónleikana áður en almenn sala hófst. Ekki var verið að bjóða neinum eða veita neinn afslátt. Á ummælum við upphaf frétta og í fréttayfirliti í lokin var einna helst að skila að hér væri eitthvað vafasamt á ferð. Ríkisútvarpið reyndi að gera þetta tortryggilegt. Á heimasíðu Ríkisútvarpsins stendur: Aríonbanki fékk nokkur hundruð miða. Það voru viðskiptavinir bankans sem fengu miðana. Ekki bankinn. Það orkar tvímælis hvort þetta voru heiðarleg og vönduð vinnubrögð.
Molalesandi spyr (01.101.2012):,, Hvers vegna í ósköpunum þarf Matthías í Popplandi Rásar 2 að tönnlast á óttóber? Hann sagði þetta alls sjö sinnum á tæpum tveimur mínútum þegar þátturinn byrjaði í dag, mánudaginn 1. október. Hræðileg málleti.” Ekki getur Molaskrifari svaraði þessari spurningu Molalesanda. Kannski getur málfarsráðunautur, ef hann enn er starfandi leiðbeint þessum útvarpsmanni um réttan framburð á heiti októbermánaðar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
03/10/2012 at 23:26 (UTC 0)
Jú, sennilega. En það er undarlegur samsláttur.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
03/10/2012 at 21:48 (UTC 0)
Hefur ekki bara slegið saman þarna orðatiltækjunum að hlaupa á snærið og ganga úr skaftinu.