«

»

Molar um málfar og miðla 1024

Hversvegna þarf að notast við orð eins og rafmagnsbatterí í fréttum Ríkisútvarpsins (01.10.2012) þegar við eigum í málinu öndvegisorð eins og rafhlaða og rafgeymir?

Það hefur áreiðanlega stungið fleiri en Molaskrifara í eyrun þegar í fjögur fréttum Ríkisútvarps (01.10.2012) var sagt: Undirbúningur og framkvæmd Orkuveitu við niðurdælingu á vatni frá Hellisheiðarvirkjun var ábótavant. Undirbúningi var ábótavant. Ekki, undirbúningur var ábótavant. Það er umhugsunarefni hversvegna svona grunnskólavillur rata alla leið úr Efstaleitinu og heim til fólks.

Fallegt innslag til minningar um öðlinginn Steindór Hjörleifsson var í Djöflaeyjunni í fyrrakvöld (02.10.2012). Steindór var mikill og fjölhæfur listamaður. Man fyrst eftir honum sumarið 1952 þegar ég var sendill í nýlenduvöruverslun (Skeifunni) á Snorrabraut. Fór þá stundum á reiðhjóli með bastkörfu á bögglabera með pantanir heim til þeirra Margrétar sem þá leigðu íbúð efst í Úthlíðinni. Seinna lágu leiðir okkar saman hjá Sjónvarpinu þar sem hann var fyrsti dagskrárstjóri Lista- og skemmtideildar. Steindór, Jón Þórarinsson og Sveinn Einarsson mótuðu menningarlega dagskrárstefnu Ríkissjónvarpsins. Varðveiti góðar minningar um mætan mann.

Molalesandi sem fæst við blaðamennsku skrifar: ,,Les af og til pistlana þína. Ábending: Ég var að skrifa upp viðtal um helgina. Heyrðist viðmælandinn segja,,töglin og haldirnar.“ Googlaði þetta og fann,,töglin og haldirnar“ nánast út um allt. Til að vera nú alveg viss, fletti ég upp i orðabókinni minni, til að fá staðfest að það eru ,,töglin og hagldirnar.“ Sýnist að þetta orðasamband sé að breytast í „haldir“. Þú hefur þetta kannski í huga næst þegar þú sérð ,,haldir“ í fjölmiðlum.” Molaskrifari þakkar bréfið. Þessu er hér með haldið til haga.

Molalesandi vísar í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (30.09.2012): Hundrað ær fundust í gær. Hann spyr hvort þetta sé trúverðugt. Hvort ekki hafi fundist nein lömb? Molaskrifari er sammála. Þetta er svolítið skrítið. Sami lesandi benti á frétt á mbl.is (01.10.2012) þar sem talað var um veitingastað sem var lokað vegna gruns um að bjóða ætti gestum kjöt af látnu dýri sem, fundist hefði við þjóðveg. Orðalaginu var seinna breytt og talað um kjöt af dauðu dýri. Dýr látast ekki. Þau drepast , eru drepin eða aflífuð.

Áskell sendi þetta (01.10.2012): ,,Ný auglýsing frá Icelandair á mbl.is kostar sitt í framleiðslu og plássið á mbl.is er sannarlega dýrt. Þess vegna er súrt að sjá meinlega villu í fjögurra orða auglýsingatexta. ,,Þrír nýjir áfangastaðir Icelandair“ segir þar. Prófarkalestur hefði ekki vegið þungt í heildardæminu.” Satt segirðu.
Líklega um 3.000 dauðar á NA-landi er ánaleg fyrirsögn á mbl.is )0210.2012) Þrjú þúsund hvað?
Hér var nýlega sagt frá fréttahauknum á FOX sjónvarpsstöðinni sem Moggi sagði að héti Anchor Shepherd Smith! Glöggur lesandi benti á annað svipað dæmi úr Mogga og segir: ,, Skemmtilegt að lesa um Anchor Shepherd Smith, því fyrir einni eða tveimur vikum sagði Morgunblaðið frá því að leikari að nafni Briton Damian Lewis hefði unnið til Emmy-verðlauna. Leikarinn heitir hins vegar Damian Lewis og er Breti.” Það stækkar fjólusafn Moggaþýðinganna ! Molaskrifari þakkar sendinguna.

Líklega hefur ekkert sjónvarpsefni fyrr né síðar verið auglýst eins rækilega og væntanlegir þættir af slóðum Vestur Íslendinga. Vonandi vera þessir þættir ekki jafn sjálfhverfir og annað sem komið hefur frá þessum dagskrárgerðarmanni. Það lofar ekki góðu um þekkingu á viðfangsefninu þegar hvað eftir annað er í dagskrárkynningu talað um að Bandaríkin séu Norður Ameríka. Bandaríkin eru í Norður Ameríku. Þau eru ekki Norður Ameríka. Óvandað vinnulag eða vanþekking. Nema hvort tveggja sé.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>