«

»

Molar um málfar og miðla 1025

Molavin sendi þetta (02.10.2012): ,,Úr tveimur fyrirsögnum á visir.is í dag, 2. október: ,,Hátt í 40 látnir eftir ferjuslys“ og ,,…lést eftir skotbardaga við lögreglu.“ Það hefur færzt í vöxt í fjölmiðlum að talað sé um að fólk látist EFTIR slys þegar augljóst má vera að það er einmitt Í slysi, sem það gerist. Vaxandi ónákvæmni gætir í fréttaskrifum” Takk fyrir sendinguna, Molavin.

Molalesandi sendi eftirfarandi hugleiðingu (02.10.2012): ,,Íþróttamállýskan“ er farin að setja svip á fleiri fréttamenn en þá, sem fást við ,,sportið“. Í hádegisútvarpinu á Bylgjunni var fréttamaður að ræða úrslit hlutfallskosninganna í Georgíu. Þar sagði hann, að stjórnarandstæðingar hefðu ,,sigrað kosningarnar“. Samkvæmt þeim málflutningi er vart von á fleiri kosningum í Georgíu. Sjálfar kosningarnar hafa nefnilega verið sigraðar og kosningar eiga sér þá vart viðreisnar von í því landi á næstunni. Þannig sigraði t.d. Þjóðernisjafnaðarmannaflokkur Hitlers kosningar í Þýzkalandi á sínum tíma. Flokkurinn sigraði kosningar svo eftirminnilega að kosningar voru ekki haldnar aftur í landinu fyrr en að flokknum – og,,þúsund ára ríkinu“ föllnu.

Nú segir fréttastofa Bylgjunnar að þannig hafi farið í Georgíu. Kosningar þar voru sigraðar.

Fréttamaður virtist heldur ekki vita að umræddar kosningar, sem hafa verið sigraðar, voru ekki lokaorð kjósenda. Kosningarnar, sem voru sigraðar, voru aðeins sá hluti kosninga í landinu þar sem kosið var um framboðslista samkvæmt hlutfallskosningakerfi. Eftir er þá að lýsa úrslitum í þeim hluta kosninganna þar sem kosið er um einstaka frambjóðendur í einmenningskjördæmum. Hvernig svo sem þær kosningar fara – hvort sem þær staðfesta úrslit hlutfallskosninganna eða snúa þeim úrslitum við – þarf fréttastofa Bylgjunnar að búa sig undir að segja fréttir af því að kosningarnar í Georgíu hafi aftur verið sigraðar. Kosningar, sem hafa verið tvísigraðar með stuttu millibili, eiga sér vart viðreisnar von. Hitler lét sér nægja að sigra kosningar einu sinni – og sá sigur entist til þess að kosningar fóru ekki fram í meira en áratug þar á eftir. Að sigra kosningar tvisvar með stuttu millibili ætti að geta endanlega gengið frá því, að slíkt og þvílíkt eins og kosningar endurtaki sig ekki.

Það eru ekki öll mannanna verk jafn einörð og sterk og íþróttakappleikirnir. Þrátt fyrir það að Íslandsmótið í knattspyrnu hafi verið sigrað jafnt og þétt einu sinni á ári um langan aldur – að sögn íþróttafréttamanna – þá rís það alltaf upp aftur eins og fuglinn Fönix úr öskunni. Svo virðist sem öll íþróttamót séu ódrepandi fyrir íþróttafréttamenn. Ef til vill verða kosningar það líka. Íþróttafréttamenn og aðrir orðvillingar geta þá ekki heldur ráðið niðurlögum þeirra. En það má jú alltaf reyna. Sigrar ekki þrautseigjan að lokum?” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Á pressan.is er vitnað í þingmann Sjálfstæðisflokksins (03.10.202) sem segir: ,,Fyrst ætla ég nú að taka fram að þegar Jónas Kristjánsson kallar þingflokk Sjálfstæðisflokksins bófaflokk, þá gef ég lítið fyrir það. Hann skrif í gegnum tíðina hafa nú verið með þeim hætti að það er nú líka hægt að efast um það að hann sé oftar heill á geðsmunum heldur en hitt þegar hann skrifar. Svo ég segi það nú bara”. Molaskrifari játar að hann skilur ekki það sem þingmaðurinn er að reyna að segja.

Lesandi sendi þetta sem birtist á vef pressunnar (03.10.2012): ,,Eineltisseggur sem kallaði sjónvarpskonu feita var slátrað í beinni útsendingu: Myndband
Sjónvarpskonan Jennifer Livingston fékk sendan tölvupóst sem innihélt særandi orð um vaxtarlag hennar þar sem gefið var í skin að hún ætti við offituvandamál að stríða. ….”
Hann segir: ,,Nefnifallssýkin virðist komin til að vera, en sú sýki er hálfu verri en gamla þágufallssýkin. Þágufallið var breyting beygingakerfis en nefnifallið er þáttur í útrýmingu þess.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Orð að sönnu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>