Hagur heimilanna vænkaðist í fyrra sé að marka nýjar tölur Hagstofunnar, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins (09.10.2012). Það er auðvitað alveg rétt hjá Ríkisútvarpinu að slá varnagla varðandi tölur sem koma frá Hagstofunni. Það er alls ekki víst að sé neitt að marka þær. Ef til vill væri rétt að leggja Hagstofuna niður. Rétt er að taka öllum tölum sem þaðan koma með miklum fyrirvara.
Það eru ekki góð vinnubrögð hjá Ríkissjónvarpinu að geta ekki komið frá sér skiljanlegum leiðréttingum þegar rangt hefur verið farið með. Í fréttatíma þriðjudagsins (09.10.2012) sagði þulur: Og við viljum leiðrétta það að fyrr í þessari frétt var talað við Elvar Örn Birgisson og biðjumst við velvirðingar á því. Hverskonar rugl er þetta? Leiðrétta það að talað var við Ævar Örn Birgisson? Biðjast velvirðingar á því að talað var við Ævar Örn Birgisson? Skylt er að geta þess að Ingólfur Bjarni Sigfússon leiðrétti í gærkveldi (11.10.2012) nafn sem rangt var farið með fyrr í fréttatímanum og gerði það óaðfinnanlega.
Molalesandi sendi eftirfarandi (09.10.2012): ,,Ég tek undir athugasemdir við frétt á mbl.is 5. okt: ,,Að mati Umhverfisstofnunar er ekki um að ræða hættu fyrir fólk vegna aukið magn flúors í grasi…“ Hnaut um þetta, en vakti mig einnig til umhugsunar um magnið sem alls staðar læðir sér inn. Þarna er það óþarft, eins og reyndar í flestum eða öllum öðrum tilvikum. Eitt sinn var rætt um styrk flúors í gróðri, hafa menn gleymt því? Dæmi um hið algjörlega óþarfa magn er þegar þulurinn sem lýsir Formula 1 kappakstrinum þrástagast á því hve mikið bensínmagn ökumennirnir hafi á bílum sínum. Nægir að segja bensín, hvað er þetta magn að gera þarna?
Ekki tekur nú betra við á visir.is í dag, þar segir: ,,Reikna má með aukningu á játningum um framhjáhaldi með tilheyrandi….“ Hvernig aukast játningar? Ætli það gerist á sama hátt og þegar fólk í ferðaþjónustunni talar um aukningu á ferðamönnum og frétta- og blaðamenn hafa athugasemdalaust eftir þeim?” Molaskrifari þakkar sendinguna og þarfar ábendingar.
Annar lesandi sem óskar nafnleyndar segir (09.10.2012): ,,Hér er ábending um enska orðaröð – sem er reyndar ansi algeng, sérstaklega í auglýsingum.
Ábending: „Þarna kemur þín mamma.“(!?)
Í auglýsingum um Pinnið á minnið er notuð ensk orðaröð.
Er þitt fyrirtæki tilbúið?
Tekur þitt fyrirtæki við kortagreiðslum?
Þetta er ensk orðaröð.
Íslensk orðaröð væri:
Er fyrirtæki þitt tilbúið?
Tekur fyrirtæki þitt við kortagreiðslum?”
Molaskrifarar þakkar sendinguna. Rétt er það að ensk orðaröð er orðin mjög áberandi í auglýsingum. Hversvegna segja auglýsendur ekki: Þarna kemur mamma þin ?
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (11.10.2012) var sagt að eldur hefði komið upp í veitingahúsinu Prikinu við Laugaveg. Molaskrifari þykist vera sæmilega staðkunnugur í Reykjavík og er á því að veitingahúsið Prikið sé við Bankastræti, ekki við Laugaveg.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar