«

»

Molar um málfar og miðla 1032

 Glöggur Molalesandi bendir á frétt (10.10.2012)  á pressan.is http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Erlent/selur-drap-hund   og segir:  ,,Mér þykja fréttir á Pressunni oftar en ekki klaufalega skrifaðar, einkum þýddar fréttir. Reyndar hefði ég ekki nennt að agnúast út í þessa frétt nema fyrir það orðalag að hundurinn hafi látist. ·         Hundurinn „lést“.·         Eru veiðihundar gæludýr?·         „Samkvæmt manninum …“·         „… dró hann ofan í vatnið“ er klaufalegt orðalag og jafnframt undarlegt þegar rætt er um sjó. Selurinn hefur naumast verið í stöðuvatni, auk þess sem annars staðar í fréttinni er talað um flæðarmál. „… dró hann í kaf“ hefði verið eðlilegra”.  Molaskrifari þakkar sendinga.

 

Í veðurfréttum Stöðvar tvö (10.10.2012) var notað orðið þungskýjað. Sjálfsagt er þetta orð einhverjum tamt.  Molaskrifara er tamara að tala um að sé  skýjað eða þungbúið.

 

Molaskrifari horfir stöku sinnum á  snarpan hálftíma spurningaþátt í  sænska sjónvarpinu SR2, Vem vet mest? Þátturinn er bráðskemmtilegur fyrir þá sem hafa gaman af þessháttar efni. Í vikunni var  ung stúlka  spurð hvaða annað  tungumál en færeyska væri opinbert tungumál í Færeyjum?  Íslenska svaraði hún að bragði! Mér finnst að hún hefði átt að fá prik fyrir það!

 

Báðar sjónvarpsstöðvarnar gerðu   úttektarskýrslunni um Orkuveitu Reykjavíkur góð skil. Stöð tvö þó öllu betri í fréttum og sérstaklega  ef  tillit er tekið til þess að  ríkisfréttastofan hefur margföldu starfsliði á að skipa miðað við Stöð tvö.  Ríkissjónvarpið bætti  fréttirnar vissulega upp með ágætri umfjöllun um málið í Kastljósi.

Kjarni þessa máls er  sá að  mikið af  ógæfu Orkuveitu Reykjavíkur má rekja  til þess að  fyrirtækinu stjórnuðu stjórnmálamenn sem kunnu ekki að reka orkufyrirtæki og báru ekkert skynbragð á rekstur af þessu tagi og flókin fjármál.  Rifrildi á stjórnarfundum var  greinilega einskonar smækkuð  mynd af rifrildinu í borgarstjórn. Þessir menn vissu greinilega lítið hvað þeir voru að  gera og því fór sem fór. Rekstur þessa mikilvæga og áður gullmalandi fyrirtækis var ævintýralegt rugl þegar verst lét. Og  ekki bætti hringlið í borgarstjórninni úr skák þar sem hver  meirihlutinn öðrum verri rak annan.

 

Af mbl.is (12.10.2012: Einn var fluttur á slysadeild eftir að hafa verið stunginn með skæri eða hníf í Bankastræti skömmu fyrir eitt í nótt ...   Ef það hefði komið í hlut Molaskrifara að skrifa þessa frétt hefði hann sagt  að maðurinn hefði verið  stunginn með  skærum eða hnífi  ekki  skæri eða hníf

 

Morgunstund í vikunni hlustaði  Molaskrifari um stund  á einn af símavinum Útvarps Sögu úthúða  ÍNN sjónvarpinu og  Ingva Hrafni Jónssyni. Pétur  símstjóri  þagði að venju. Þetta var  svo sem ekkert  skemmtilegt, en það fyndna var að allir  skammirnar um ÍNN  áttu enn betur við um Útvarp Sögu!

 

Undarlegt klúður var við  útsendingu seinni frétta Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (10.10.2012).   Þá  birtist svohljóðandi  texti á skjánum:

,,Vegna bilunar í tækjabúnaði verður  veðurfréttatími  sýndur kl. 22 00 og seinni fréttatími sjónvarps eftir veðri”. –  Vonandi hefur  viðrað vel í Efstaleiti.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Jóhann. Fréttablaðið getur skrifað nýja frétt um veikindi læknanna!

  2. Jóhann Sigurjónsson skrifar:

    Sæll Eiður.
    Oft hefur mig langað til þess að senda þér línu og læt nú verða af því.
    Tilefnið er forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag 13. október.
    Í myndatexta stendur: „Gígja Thoroddsen byrjaði að mála og teikna eftir að læknar sendu hana í þrettán raflostsmeðferðir vegna veikinda sinna…“
    Gaman væri að vita hvaða veikindi hrjáðu læknana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>