«

»

Molar um málfar XXX

  Forsetningin  vegna tekur með sér eignarfall. Í RÚV  var enn   einu sinni  sagt í morgun ,,vegna lagningu vegar“. Það er  rangt. Hið rétta er að segja  vegna  lagningar vegar. Hægt er að leggja  bæði vegi og hár. Endur fyrir löngu er  ég sat á  Alþingi  man ég  að  fundum var hætt  óvenju snemma  tiltekinn dag  því þingveislu skyldi halda um kvöldið. Ég  spurði  þingbróður úr Alþýðubandalagi hvort  ekki   hefði mátt funda  lengur  fram  eftir  deginum. Nei,  svaraði hann. Ólafur Ragnar verður að komast í lagningu ! Svo hlógum við báðir.

 Í   Útvarpi Sögu var sagt ,,að Búnaðarbankinn hefði skipt um eigendur“. Þetta finnst mér ekki hljóma rétt. Bankinn er enginn gerandi þegar  eigendaskipti eiga sér  stað. Eðlilegra  hefði mér  fundist að  segja að  eigendaskipti hafi orðið  á   Búnaðarbankanum. Þetta kann þó að orka tvímælis og  vera sérviska mín. Kreppan hefur haft í  för með sér að hlutabréfaviðskipti eru  úr sögunni um sinn, að minnsta kosti.. Þessvegna er maður sem  betur  fer hættur að  sjá  að  hlutabréf hafi ,,skipt um hendur“  eins og  var svo  algengt hér áður  fyrr. Megi  sú ambaga hverfa fyrir  fullt og allt.

   Tekið  var svo  til orða í RÚV  í morgun  að  eitthvað  væri ,,í fyrra fallinu“. Þetta er ekki það orðalag sem ég er  vanur. Mín málkennd   er  að  hér  eigi að vera forsetningin með eða á , – eitthvað verður  með seinna   fallinu, eða   að   hafa fyrra fallið á einhverju. Hér  er vísað  til sjávarfalla, sbr.   Merg málsins  (Dr. Jón G. Friðjónsson) þar sem  segir:,,Líkingin er dregin af af því að sjómenn urðu að  sæta sjávarföllum við  sjósetningu eða  landtöku báta, þ.e. bíða árdegis- eða síðdegisflóðs.“ Fæstir  hugsa  líklega  til upprunans, þegar  þeir nota þetta orðatiltæki.

  Hún er ekki upp á marga fiska móðurmálskunnátta  blaðamannsins á  Vefmogga sem  skrifar í  dag  frétt um breskan  þingmann. Í  fyrirsögn segir, að þingmaðurinn hafi orðið ,,uppvís  af kynlífshneyksli.“  Á auðvitað  að vera uppvís  að kynlífshneyksli. Þá  er  sagt , að þingmaðurinn hafi líklega   ,,setið á  sumbli“.  Aldrei  heyrt  það orðalag.   Hinsvegar er talað um  að  sitja  að  sumbli,  sitja  að drykkju  en sumbl  er  drykkjuveisla. Svo  fleira  sé tínt  til þá er  sagt að konan ,sem  kemur  við sögu í fréttinni ,hafi verið,,í sokkaböndum“. Kannski er sá  sem skrifaði fréttina  svo ungur,  að hann  veit  ekki hvað  sokkabönd  eru og heldur að sökkabönd séu  flík.

Í tíufréttum RÚV sjónvarps  í kvöld las  fréttaþulur:,,…formaður undrar sig á..“  Hér  ruglaði fréttaþulur saman að  furða  sig á  einhverju og  að undrast eitthvað. Fréttamaður  sem  flutti  fréttina  hafði þetta  hinsvegar rétt og  sagði formann undrast.

  Ekki get ég sagt að ég hlusti mikið á Útvarp Sögu. Kemur þó  fyrir og þá hlusta ég helst á Sigurð G. Tómasson,sem er einn af okkar bestu útvarpsmönnum. Sigurður er  sjór af fróðleik á mörgum sviðum og  einstaklega  vel máli farinn. Ekki horfi ég heldur mikið á  sjónvarpsstöðina ÍNN. Þátttakendur  í  spjallþáttum þar sitja oft  við svo  forljótan bakgrunn að með ólíkindum er , en  auðvitað hefur hver maður sinn smekk.Þótt mér þyki  þetta  ljótt,  þykir þeim á ÍNN  þetta  líklega forkunnarfagurt.  Það sem mestu ræður um að  ég hlusta ekki eða horfi á þessar  tvær  stöðvar er   sú staðreynd  að maður veit ekki  hvort maður er að  fylgjast með  viðtalsþætti þar sem  kaupandi útsendingartíma   velur  spyril, spurningar og  efni.Um þetta fá   áheyrendur/áhorfendur ekkert  að vita. Þetta er   brot á grundvallarreglum blaðamennsku. Þetta  rifjar einhverra hluta vegna  upp fyrir  mér heiti  bókar  , – um blaðamennsku – sem ég las  einu sinni og  heitir á  ensku ,,Electronic Whorehouse“. Ég sleppi því að þýða  titilinn.

 

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

     Kærar þakkir  fyrir jákvæð ummæli.    Ómar, – kíktu á Mola XXII  – ESG

  2. Ómar Ragnarsson skrifar:

    Það er ekki bara að Búnaðarbankinn geri þetta og geri hitt. Allur fjandinn opnar þetta og opnar hitt.

    Skíðasvæðið, verslunin og húsið opnar. Hvernig getur svæði opnað? Hvað er það sem svæðið opnar?

    Síðan versla menn allan fjandann, versla bíl, versla jakka og versla skó, eða þá að þeir „versla sér“ eitthvað.

  3. karl skrifar:

    Kærar þakkir fyrir þessa áhugaverðu umfjöllun um íslenskt mál.

    Ég hef búið í nokkrum löndum og fylgst náið með fjölmiðlum þar.

    Ég fullyrði að hvergi á Vesturlöndum sér maður aðra eins meðferð á málinu og í íslenskum vefmiðlum og dagblöðum. Ég fullyrði einnig að hvergi á Vesturlöndum er boðið upp á sjónvarpsfólk sem er svo illa máli farið sem hér.

    Ég treysti mér reyndar til að fullyrða að íslenskir fréttamiðlar séu þeir lélegustu sem reknir eru á vesturhveli jarðar. Það á bæði við um hina faglegu hlið og málfarið.

    Metnaðarleysið er algjört og hrein hörmung hvernig blöð á borð við Morgunblaðið hafa verið leikin á undanförnum árum.

  4. Heimir Tómasson skrifar:

    Takk fyrir þessa mola. Ég les þetta reglulega, mín málfarskunnátta er aðeins á undanhaldi (bý erlendis) en reyni hvað ég get að halda henni við. Svona pistlar eru ómetanlegir. Takk.

  5. Benedikt skrifar:

    Í textavarpi RÚV í gær var sagt frá einhverjum ógæfumanni í Noregi (frekar en Svíþjóð) sem hafði framið þrefalt morð.  Er ekki eitthvað bogið við það?  Í fréttinni sjálfri mátti svo lesa að hann hefði orðið þremur manneskjum að bana.

  6. Steini Briem skrifar:

    Í rafvæddu hóruhúsi,
    húsbóndi var hann Krúsi,
    í sokkaböndum og búsi,
    borgarstjóri í rúsi.

  7. Sæmundur Bjarnason skrifar:

    Takk fyrir að standa vaktina. Íslenskt mál er auðlind sem við eigum ekki að láta bögubósa eyðileggja. Það er mörg vitleysan í fjölmiðlum og vissulega þarft verk að benda á það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>