Í sjónvarpsauglýsingu,sem sýnd er á hverju kvöldi um þessar mundir kemur texti á skjáinn þar sem talað er um ,,að leggja eitthvað að mörkum“. Ég hef alla tíð vanist því að sagt sé að leggja eitthvað af mörkum. Fyrri myndin er þó sjálfsagt rétt líka,þótt sjaldnar sé hún notuð.
Nú hefur formlega verið gengið frá fyrsta hremmingaláninu til okkar. Þar eru Færeyingar veitendur en við þiggjendur. ,,Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi“, sagði Kári Sölmundarson. Færeyingar segja: ,,Bert er bróðurleyst bak“ , – tungt er að standa einsamallur og onga hjálp fáa. Vinur er sá er í raun reynist, mætti einnig segja um þetta.
,,Meirihluti þessara mála eru ekki í neinu samræmi við þann efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir.“ Þetta hefur Vefvísir eftir alþingismanni í dag. Ég læt lesendum eftir að dæma hve vel er hér að orði komist.
,,Að störfum er nefnd á vegum þingsins sem kannar hvernig skerpa megi eftirlit milli löggjafar- og framkvæmdavaldsins.“ Þessi setning af dv.is er óskiljanleg. Verið getur að átt sé við að skerpa eigi eftirlit með löggjafar- og framkvæmdavaldinu,- eða að skerpa eigi mörkin milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Eitt er þó ljóst að ekki er skýr hugsun að baki þessum skrifum. Meira af dv.is:,,….og að málið allt og eftirmálar þess hafi haft áhrif á dóttur sína.“ Eftirmáli (flt eftirmálar) er pistill sem höfundur eða þýðandi birtir í bókarlok. Það mætti segja um rithöfund að hann hafi skrifað eftirmála við allar sínar bækur og af því hafi aldrei hlotist nein eftirmál. Orðið eftirmál er fleirtöluorð,sem þýðir eftirköst eða afleiðingar. Sá sem skrifaði fréttina ruglar saman orðunum eftirmáli og eftirmál.
Skrifari á Vefvísi slær um sig í dag með orðatiltækinu að ,,fara í geitarhús að eita ullar“ og notar það um bandaríska konu sem skipti á gömlum pallbíl og nokkrum geitum. Fær hún þannig geitamjólk til heimilisnota og skattafrádrátt að auki. Orðatiltækið kemur þessu uppátæki konunnar hinsvegar ekkert við.,, Að fara í geitarhús að leita ullar“, er að leita einhvers á stað þar sem ólíklegt er eða útilokað að það sé að finna. Til dæmis mætti segja sem svo að það væri að fara í geitarhús að leita ullar að leita sér ráðgjafar í fjármálum hjá fyrrverandi stjórnendum íslenskra banka og sparisjóða.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
25/03/2009 at 21:07 (UTC 0)
Þakka athugasemdirnar ,Heimir og Þorsteinn. Rétt er það að bæði Bör og góði dátinn Svejk eru snilldarþýðingar. Ein af mínum fyrstu minningum er að hafa setið við útvarpið og hlýtt á Helga Hjörvar lesa þýðingu sína, sennilega 1944 eða 1945. Upplestur Gísla Halldórssonar á Góða dátanum er dýrleg skemmtan. Við eigum mikið af frábærum þýðingum úr heimsbókmenntunum , til dæmis Sult eftir Hamsun,sem Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi þýddi snilldarlega, – að maður nefni nú ekki snilldarþýðingar Helga Hálfdanarsonar. Athyglisverð könnun á notkun forsetninganna að og af í þessu sambandi. Þessu hefði mig ekki órað fyrir. Kærar þakkir báðir tveir.
Þorsteinn Sverrisson skrifar:
25/03/2009 at 20:47 (UTC 0)
Það er oft fróðlegt að skoða hvað er algengara á netinu í svona tilvikum. „Leggja af mörkum“ kemur 1.850 sinnum fram á Google en „Leggja að mörkum“ 13.300 sinnum. Þetta segir að sjálfsögðu ekki allt en stundum getur þetta gefið vísbendingar um hvað sé rétt, sérstaklega ef maður horfir á hvaða aðilar skrifa hvað. T.d. hefur maður meira traust á því sem er skrifað á vef Háskólans en bloggsíðu einhvers sem maður þekkir ekki. Það er þó ekki öruggt !
Takk fyrir skemmtilega pistla.
Heimir Tómasson skrifar:
25/03/2009 at 14:02 (UTC 0)
Vísis-maðurinn er alveg dæmigerður fréttaritari sem að hefur akkúrat enga tilfinningu fyrir tungumálinu. Til að vera vel máli og riti farnir verða menn í það minnsta að skilja hugtök og málshætti. Þetta minnir mig alltaf á þegar að ég las stuttsögu sem hafði verið þýdd úr ensku yfir á okkar ástkæra tungumál, ég gat ekki fengið nokkurn botn í þá sögu, sama hvað ég reyndi. Þegar ég varð mér svo úti um söguna á engilsaxnesku þá opinberaðist leyndardómurinn. Þýðandin hafði semsé eingöngy þýtt bókina orðrétt, án minnstu tilraunar til að þýða hana eftir samhengi. Góðir þýðendur eru sjaldséðir, þó ég sé frekar ungur að árum þá finnst mér alltaf þýðingarnar á Bör Börsyni og Góða dátanum Svejk bera af.
DV….það er alveg sér kapítuli.
Takk fyrir að standa vaktina.