«

»

Molar um málfar XXXII

  Kostuleg villa er á  dv.is  í dag. Þar segir: ,,Þeir köstuðu peningunum úr bílnum og telur lögregla að vegfarendur hafi séð sæng sína útbreidda og tekið hluta af þýfinu“. Þetta er enn eitt   dæmið  um það  þegar  fréttaskrifarar slá um sig með orðatiltækjum ,sem  þeir kunna ekki og hafa ekki minnstu hugmynd um hvað þýða. Í fyrsta lagi er að rangt er að  tala um að sjá ,,sína sæng útbreidda“.Rétt er orðatiltækið  ,,að sjá sína sæng upp reidda“ og það þýðir að  gera sér  grein  fyrir því að  staða manns er breytt, maður er úr leik  eða að  í óefni  er komið. Eins og þetta er  skrifað á  dv. is  er  þetta hreint  rugl.

 Um  daginn var hér vikið að því  hve margir  fréttamenn  eiga erfitt með að nota  sögnina að vinna án þess að bæta  við ,,hörðum höndum“ alveg án tillits  til þess um hverskonar verk  er að  ræða.  Önnur klisja  sem  er  föst í mörgum fréttamönnum    er að þeir  geta  ekki talað um að  betri  tíð sé í vændum, eða  að bráðum komi betri tíð án þess að bæta  við,,með blóm í haga“ sem  er tilvitnun í gullfallegt  ljóð Halldórs Laxness, fyrsta ljóðið í  Kvæðakveri hans, minnir mig.  Það er ósköp hallærislegt að heyra  þetta endurtekið  í hverjum fréttatímanum á  fætur öðrum eins    gerðist í RÚV í morgun.

 Illa kann ég því hvernig  vefritið pressan.is   talar um ,,að taka  banka niður“. :Þar segir í  dag :,,….. og þess vegna ákveðið að taka bankann niður.“ Verið  er að fjalla um að  bankinn hafi  stefnt í þrot og  skilanefnd  verið  sett   til að stjórna honum. Ég fæ  ekki séð að þetta séð  að þetta sé   aulaþýðing úr  ensku  í þeim orðabókum,sem mér  eru tiltækar, heldur bara  heimatilbúið aulalegt orðalag.

  ,,Íslandsmeistararnir með bakið upp við vegg“, skrifaði vefmoggi í gærkveldi. Þótt ég ætti lífið að leysa  þá get ég ekki skilið  hvað hér  er átt við. Allavega  er    ekki íslensk hugsun  að baki þessum skrifum, – ef það er þá nokkur  hugsun !

    Heilsíðuauglýsing  er í Morgunblaðinu í  dag frá matstofu sem heitir  því ágæta nafni Maður lifandi.Það er engu líkara en íslenskir  veitingastaðir  hafi sett sér þá  reglu  að   láta  heiti sín ekki lúta  reglum móðurmálsins. Þannig er  nafn matstofunnar hvergi fallbeygt í auglýsingunni.  Í  auglýsingunni er  lesendum boðið  að taka  veitingarnar með sér eða  neyta  þeirra á staðnum. Það er  gert með  enskuslettu, sem nú  virðist í mikilli sókn:,,TAKE AWAY  eða borðað á staðnum“.  Sérstök áhersla  er lögð á  enskuna  því orðið er  skrifað með upphafsstöfum  eða  hástöfum.  Þarna þarf enga  ensku. Það er  vel hægt að segja það sem átt er við á íslensku.

   Snautleg þótti mér frásögn í fréttum Stöðvar  tvö í kvöld af því er Geir H. Haarde kvaddi Alþingi í dag. RÚV  sjónvarp gerði þessu góð skil  svo sem var við hæfi. Rétt fréttamat og vel unnin frétt.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Gústaf Níelsson skrifar:

    Ég get tekið undir ágætar athugasemdir þínar, allar með tölu. Merkilegt þykir mér hve illa blaðamenn eru að sér um íslenskt ritmál og margir sem tjá sig í ljósvakamiðlunum eru vart talandi á skammlausa íslensku. En hvað veldur? Ég giska á almennt áhugaleysi um íslenskan stíl og málfar og litlar kröfur af hendi útgefenda og stjórnenda. Metnaðarleysið er ógnvekjandi og leiðir hugann að því hvenær hin fullkomna strandsigling íslenskunnar muni eiga sér stað. Er ég þó ekki bölsýnn maður. 

  2. doddý skrifar:

    drengnum mínum nítján ára var boðið á uppákomu sem kallað er breaf sem haldið verður um helgina (bríf, eins og hann sagði það). ég hélt auðvitað að hér væri um að ræða einhverja unglingasamkomu án alls aga. reyndist nú samt vera einungis kynningarfundur frambjóðenda ónefnds flokks vegna kosninga í apríl. BRÍF er hér í merkingunni stuttur fundur, þó ótrúlega megi virðast. kv d

  3. Bjarni Kjartansson skrifar:

    Ekki nema von, að fjölmiðlar fari æ verr með málfar og myndhverfar líkingar í frásögnum.

    Útvötnun krafna um frammistöðu og kunnáttu er frekar regla en undantekning í kennslu.  Það tíðkast ekki lengur að hafa svona þolanlegan vinnufrið í kennslustofum, hvað þá helur hljóð til íhugunar og náms.

    Vinnuhjúaskildagar og fardagar eru því víðsfjarri í hugsun nútíma fjöl,,miðlunga“ þó sumir sjái sína sæng uppreidda við breytingará mönnun þeirra starfstaða.

    Með þökk fyrir baráttuna.

    Miðbæjaríhaldið

  4. Sverrir Einarsson skrifar:

    Er ekki bara veri að ensk-íslenska „take you down“ með að tala um ,,að taka  banka niður“. ??

    Við eigum ágætis orð yfir þetta t.d. að yfirtaka bankann. Eins einfalt og það er nú……en kannski er það ekki nógu ´“fínt“ eða „töff“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>